Leita í fréttum mbl.is

Meira um minningagreinar

Fyrir hálfu ári, upp á dag, skrifaði ég athugasemd hér á blogginn um það hvernig Morgunblaðið væri í heljargreipum minningagreina, þær tækju of mikið rými, klyfu blaðið í herðar niður og hindruðu eðlilegar breytingar á því. Ég gerði mér vitaskuld grein fyrir því, að þær væru hluti af því, sem gerði MorgunblaðiðMogganum okkar, og hluti af því, sem gerir Ísland að Íslandi. En samt taldi ég að þessu þyrfti að breyta með einhverjum hætti og nefndi sitthvað um það, sem gera mætti til þess:

Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt — líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis — birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti. 

Viðtökur lesenda minna við þessum hugmyndum voru almennt vinsamlegar, þó einhverjir hefðu áhyggjur af því að blaðið færi að stunda mannajöfnuð með þessum hætti, að draga hina horfnu í dilka merkismanna og annarra. Ég benti hins vegar á, að þó við vildum allt til vinna til þess að fólk væri jafnrétthátt í lífinu, mætti vel viðurkenna það, að fólk hefði misjafnlega unnið úr sjálfu sér og tækifærum lífsins og að slík uppgjör væru fullkomlega við hæfi að leiðarlokum. Engin ástæða væri til þess að reyna að jafna um menn, einmitt þegar stóri jafnaðarmaðurinn, sláttumaðurinn slyngi, væri nýbúinn að gera þá hnífjafna.

En fólk getur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Peningasöfnun liðþjálfa í Hjálpræðishernum getur þannig reynst þyngri á metunum í þessu samhengi en auðsöfnun moldríks verðbréfagosa. Eða góður barnakennari merkari en menntamálaráðherra. Jafnvel Paris Hilton (sé hún dauðleg) gæti uppskorið minningargrein, ekki endilega vegna framlags hennar til mannsandans heldur kannski fremur vegna þess sem frægð hennar segir okkur um mannseðlið.

Nú sýnist mér að Morgunblaðið sé að feta einhverja braut í líkingu við þá, sem ég nefndi. Upp á síðkastið hefur blaðið fengið ýmsa vel ritfæra menn eða eigin blaðamenn til þess að skrifa minningargreinar um valda menn á miðopnu blaðsins, en meiri heiður getur Morgunblaðið ekki sýnt mönnum. Og það eru ekki aðeins menningarpáfar, stjórnmálamenn eða aðrir fínimenn, sem hljóta þann sess; í gær skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson fallega og persónulega grein, sem samt átti erindi við lesendur alla, um Ásgeir Elíasson, fótboltaþjálfara, sem varð bráðkvaddur í liðinni viku.

Nú vona ég aðeins að blaðið haldi áfram á þessari leið, birti áfram dánarauglýsingar og æviágrip, líkt og birt eru nú þegar í upphafi minningagreina, en taki afganginn inn á Netið með loforði um að þar verði ævarandi bautasteinn. Það er ekki dýrt og verður æ ódýrara. Hið eina, sem ég sé að gæti verið verra í því samhengi, er að í ljósi þeirra kynslóða, sem hverfa næstu áratugi, er viðbúið að afreksmennirnir þyki fleiri karlkyns en kvenkyns. Það má treysta því að tölfræðifemínistarnir haldi því til haga. En í millitíðinni geta þeir kannski talið dálksentimetrana eins og þeir birtast um náina núna og kyngreint þá.


Bloggfærslur 18. september 2007

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband