Leita í fréttum mbl.is

Skinhelgi Svandísar

Hneykslan Svandísar Svavarsdóttur vegna málefna REI er stórmerkileg. Sérstaklega ef hún er borin saman við orðræðu hennar um REI fyrir og eftir meirihlutaslitin í haust.

Meðan Svandís var í minnihluta átti hún varla til nógu sterk orð til þess að lýsa ástandinu, sem hún sagði brýnt að bæta úr með afgerandi aðgerðum, ekki seinna en strax. Daginn eftir að hún komst í meirihluta var hins vegar mikilvægast að „róa umræðuna“ og síðan var bara haldið áfram í rólegheitum á þeirri braut, sem hún hafði ákafast varað við. Og þrátt fyrir hina gagnmerku skýrslu stýrihópsins (sem flestir verða mærðarlegir í framan við það eitt að nefna nú, en flestir játuðu á sínum tíma að væri óttalegur bastrður) fyrirhugaði Svandís & co. að dæla nokkrum milljörðum til viðbótar úr OR í REI. Hún minnist aldrei á það.

En nú er Svandís full heilagrar reiði á ný og lætur dæluna ganga. Sú skinhelgi er farin að minna á leikræna tilburði Steingríms J. Sigfússonar, sem margir hrífast að öðru hverju. En þeir geta fæstir hugsað sér að kjósa hann þegar til kastanna kemur. Mér sýnist Svandís vera að festast í sömu rullu.

— — —

Maður skilur hins vegar ekki af hverju henni sárnar svona núna. Eru hugmyndir um að njörva niður hlutverk REI og stöðva frekari áhættufjárfestingu virkilega henni á móti skapi? Hafa þá fleiri snúist í afstöðu sinni en Svandís kemur auga á. 

Þarna er kannski fundinn helsti Akkilesarhæll Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs: Hún veit upp á hár hverju hún er á móti (nánast öllu), en á afar erfitt með að finna nokkurn skapaðan hlut, sem hún er með. Það skýrir sjálfsagt líka hversu erfiðlega henni hefur gengið að komast í meirihluta- eða stjórnarsamstarf. 


mbl.is Ekki boðlegt borgarbúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræsni Fréttablaðsins

bladberinn

Fréttablaðið lætur mikið með 30.000 poka, sem það dreifir ókeypis á næstunni, en þeir eru sagðir sérstakar endurvinnslutöskur fyrir dagblöð. Með þessu vilja „aðstandendur Fréttablaðsins efla vitund um umhverfisvernd og nýtingu verðmæta“, en haft er eftir Jóni Kaldal, ritstjóra blaðsins, klökkum yfir eigin gæsku, að það sé „nánast skylda þeirra sem standa að útgáfu Fréttablaðsins að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja til þess að dagblöð rati í endurvinnslu í stað þess að vera hent með öðru heimilissorpi.“

Er það já? Nú þegar hefur meirihluti landsmanna verulegt ómak af dreifingu fríblaða og ruslinu, sem þeim fylgja. En það er ekki nóg fyrir þessa herra, heldur vilja þeir auka ómakið af sínum völdum enn frekar, þannig að við berum draslið út í endurvinnslu fyrir þá. Framtak Fréttablaðsins má þó ekki síður rekja til umhyggju aðstandenda þess fyrir heilsu fórnarlambanna:

Göngutúrar með blaðberann, endurvinnslupoka Fréttablaðsins, geta bæði verið örstuttir í blaðatunnuna heima, eða lengri til heilsubótar í næsta grenndargám.

Já, þakka ykkur fyrir! Ég hef áður skrifað um blaðatunnuna en með henni býðst borgurum Reykjavíkur að borga 7.400 krónur á ári fyrir að sérflokka blöð. Er máske ekki vanþörf á, því eftir sem Fréttablaðið og Blaðið hafa aukið útbreiðslu sína hefur blaðasorpið margfaldast. Í fyrra var sagt að 30% af því sorpi sem fer í ruslatunnur heimila í Reykjavík séu dagblöð, tímarit og annar prentaður pappír. Borgarbúar henda þeim flestir með öðru sorpi og er blaðaruslið um þriðjungi umfangsmeira í heimilishaugnum en matarleifar. Pappírsmagnið, sem hent er af heimilum, jókst um 76% frá 2003-2007.

Það er óþolandi að eitthvert lið úti í bæ geti bakað samborgurum sínum ómak og kostnað með því að senda þeim drasl óumbeðið. Nær væri að leggja sérstakt sorpgjald á útgáfurnar og einfalt mál að mæla hvað hverjum ber að gjalda fyrir, því fríblöðin keppast við að miklast af útblásnum upplagstölum. Það er þá rétt að miða við þær og láta útgáfurnar borga allan sorphirðukostnað, sem hlýst af afurðum þeirra.

En það er einmitt málið á bak við sorppoka Fréttablaðsins: Þetta er aumkunarverð tilraun til þess að komast hjá því að borga gjald af því taginu og hælast af því um leið hvað þeim sé umhugað um umhverfið. Á annara kostnað. Hvílík hræsni!


Bloggfærslur 18. apríl 2008

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband