Leita í fréttum mbl.is

Morðæðið mært

Minn gamli klefanautur úr Aðalstræti, Guðmundur Magnússon, gerir að umtalsefni hvort það sé „siðferðilega rétt að hampa (njóta, dreifa) listaverkum, (málverkum, skáldsögum, ljóðum o.s.frv.) sem harðstjórar og fjöldamorðingjar hafa skapað?“ Í því samhengi minnist hann sérstaklega á Adolf Hitler og Maó Zedong, tvö af viðurstyggilegustu gerpum mannkynssögunnar. Ég er ekki viss, það á auðvitað ekki að líta hjá verkum þeirra en það er rangt að hampa þeim.

En ég man eftir því þegar ég var í Menntaskólanum var ég einu sinni sem oftar gestkomandi á menningarheimili í Arnarnesinu. Þar í stofu fann ég sófaborðsbók á sófaborði, en það var vönduð listaverkabók með myndum Adolfs Hitlers. Myndirnar voru sumar snotrar en ekkert meira en það, en ég get ekki neitað því að mér brá ögn við að sjá skrímslinu hampað með þessum hætti. Þessu daðri við Hjalta hefur maður kynnst víðar — eiginlega óskiljanlega víða — og mér finnst það alltaf jafnsmekklaust að ég segi ekki ógeðfellt.

Það var á öðru heimili þar í Arnarnesinu, sem þetta náði mestum hæðum. Í stássstofunni hjá Steingrími Hermannssyni og frú Eddu tróndi nefnilega stytta af SS-riddara, gott ef hún var ekki ofan á flyglinum. Nú var þetta vafalaust merkisgripur, gjöf frá hænsnabóndanum, mannaslátraranum og ríkislögreglustjóra þriðja ríkisins Heinrich Himmler til lögfræðingsins, kollubanans og lögreglustjórans Hermanns Jónassonar. Auðvitað hefði verið fráleitt að farga styttunni, en bar henni þessi heiðursstaður á heimilinu?

Allt um það; á morgun — vopnahlésdaginn 11. nóvember — verður haldið málþing í Háskóla Íslands um valdatíma Maós í Kína. Þar verður öll áhersla lögð á menningarlegt framlag fjöldamorðingjans: Sagnameistarann Maó, söngtexta rauðu varðliðanna, pólitíska orðræðu Maós um menntamenn, hvernig orðskviðum formannsins var safnað, heimspeki Maós og ljóðlist hans! Nú má vera að tveir ræðumannanna fjalli blóðbað þessa mesta fjöldamorðingja mannkynssögunnar, en maður er satt að segja efins um það í ljósi þess að hið kínverska sendiráð valdaræningjanna í Peking býður í kokkteil á eftir.

Hefði ekki verið ástæða til þess að bjóða Ólafi Teiti Guðnasyni að koma og kynna íslenska þýðingu sína á Maó: hinni ósögðu sögu, meistaraverki hjónanna Jung Chan (Villtir svanir) og Jon Halliday um Maó, sem ég held að sé einmitt að koma út nú um jólin?

Með því að hampa meintri heimspeki þessa morðóða siðleysingja, ljóðlist og menningarlegu áhrifum er Háskóli Íslands að míga á grafir þeirra tugmilljóna Kínverja sem Maó drap af fullkomnu skeytingarleysi og grimmd. Hafi aðstandendur málþingsins bölvun fyrir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Agnar Ólason

Sammála þessum ræðumanni; manni verður illt af þessu. Það á að minnast svona varmenna með hryllingi, ekki velta sér upp úr meintri listsköpun. Verði hlutaðeigandi að því.

Jón Agnar Ólason, 10.11.2006 kl. 11:07

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það verður fróðlegt að lesa bókina hans Ólafs Teits. En sammála er ég síðustu ræðumönnum, að mér býður við því að sjá þessu slegið upp í Morgunblaðinu sem menningarviðburði og lesa gamlan og gegnan rithöfund og ritstjóra lýsa því af aðdáun, hve Maó hafi verið gott skáld. Hvað ætli hann hafi þá verið með marga frumlega skriffinna á sínum snærum -- kannski jafnmarga og allar frillurnar og vesalings stelpurnar sem hann var að misnota?

Jón Valur Jensson, 11.11.2006 kl. 17:02

3 Smámynd: halkatla

ji minn eini, en ég er sammála... og furðulostin!

halkatla, 12.11.2006 kl. 01:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband