Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
26.10.2007 | 11:29
Upphaf umbúðaþjóðfélagsins
Ég rakst á þessa mynd á vef Spectator, eins ágætasta vikurits Lundúna, þar sem fjallað er um fréttir, pólitík, bókmenntir og lífsins lystisemdir jöfnum höndum. Hún minnti mig á þá orðræðu, sem gjarnan heyrist um meinta streitu nútímaþjóðfélags. Eða hvernig óhamingja heimsins eigi að hafa hafist með iðnbyltingunni. Rétt eins og mannkyn hafi allt búið í sælu hobbita-samfélagi fram að því. En ætli menn hafi ekki verið ögn stressaðir þegar meirihluti barna dó áður hann komst á legg eða hungurvofan var sífellt yfirvofandi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2007 | 02:40
Á ég að gæta bróður míns?
Mér var bent á það að í helgarblaði DV mætti finna klausu um undirritaðan í Sandkorni, sem sjá má hér til hliðar. Nú ber að horfa til þess að DV fjallar jafnan um stjórnmál af einstakri vanþekkingu, þannig að oft verður úr prýðilegt skemmtiefni fyrir áhugamenn um stjórnmál, en þessi klausa er svo grautarleg, að hún er ekki aðhlátursefni. Ekki einu sinni þegar rausið um talíbana Gísla Marteins Baldurssonar hefst og meintan klofning, sem óneitanlega hlýtur að skrifast á Björn Bjarnason".
Líkast til er það Sigurjón Magnús Egilsson, fyrrverandi ritstjóri á Blaðinu, sem þarna heldur á penna; að minnsta kosti er höfundur með Björn Bjarnason á heilanum og telur það mikilvægt að tilgreina að ég sé fyrrverandi blaðamaður á Blaðinu, líkt og það sé hápunktur ferils míns að hafa unnið með honum! En ég er sumsé blaðamaður á Viðskiptablaðinu.
En það er nú ekki aðalmálið, heldur hitt að höfundur segir mig hafa fallið í þá gryfju að fjalla ekki hlutlaust um uppákomur í borginni, en það rekur hann til bróðernis míns, enda eigi ég að hafa vandlega gætt hagsmuna Kjartans Magnússonar, bróður míns og borgarfulltrúa, í ræðu og riti.
Nú er skemmst frá því að segja, að ég hef alls engar fréttir skrifað af orrahríðinni á vettvangi borgarinnar. Á hinn bóginn hef ég skrifað talsvert um REI-málið í Viðskiptablaðið og á blogga mína, bæði á Moggabloggi og á Eyjunni, og jafnvel rætt þessi mál stuttlega í Kastljósi Ríkisútvarpsins. Allt hefur það hins vegar verið annað hvort undir nafni eða í þar til gerðum skoðanadálkum; sumt í nokkrum hálfkæringi annað í rammri alvöru. Þar hef ég ekki hikað við að benda á skálkana í Orkuveitunni, vandræði Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, mysumaðka Björns Inga Hrafnssonar og hvernig Svandís Svavarsdóttir virðist hafa selt sálu sína næsthæstbjóðandi. En á Kjartan bróður eða einhverja sérstaka hagsmuni hans í þessum málum öllum hef ég ekki minnst.
Að njóta eða gjalda bróðernis
Það kemur sjálfsagt engum á óvart nema hinum djúphyglu stjórnmálaskýrendum DV að skrif mín og málflutningur bera keim af lífsviðhorfum mínum, sem sumir segja að séu nokkuð til hægri við miðju. Öfugt við flesta blaða- og fréttamenn nú orðið hef ég aldrei dregið dul á stjórnmálaskoðanir mínar eða þá staðreynd, að ég er félagi í Sjálfstæðisflokknum. Ég fæst enda að mestum hluta við skoðanaskrif, þannig að það kemur hreint ekki að sök að hafa grundvallaðar skoðanir. Mér finnst fullkomlega ástæðulaust að gera mér upp hlutleysi, það er enginn hlutlaus nema hóran.
Ég veit ekki hvað sandpárari DV á við um að ég hafi gætt hagsmuna Kjartans bróður míns í ræðu og riti. Auðvitað legg ég allt hið besta til hans; ekki aðeins af því að hann er bróðir minn, heldur af því að mér finnst hann grandvar og réttsýnn maður, duglegur og fylginn sér, einmitt þeirrar gerðar, sem á að sitja í borgarstjórn.
Hvað mín margvíslegu skrif varðar hefur Kjartan þó til þessa aðeins goldið bróðernisins en ekki notið. Vegna þess að hann er bróðir minn hef ég aldrei kunnað við að skrifa staf um hann eða hans verk, eins og það er rík ástæða til þess að meta hvort tveggja. Ég veit líka að honum hafa ekki alltaf líkað öll mín skrif og stundum beinlínis haft af þeim ama, því ég get verið vígreifur á ritvellinum og þá álykta sumir sem svo að ég hljóti að vera að enduróma eitthvað frá honum og kenna honum svo um. Í sumum tilvikum hefur fólk kosið að misskilja það á þann veg. Þeir, sem þekkja okkur bræður báða, vita betur.
Ég á að gæta bróður míns, hvað sem bróðurþelinu á DV líður. Ég ætla nú samt að þessum línum rituðum að láta það vera að vera að úttala mig um hann í umfjöllun um stjórnmál. Það væri ekki aðeins kjánalegt að reyna eitthvað slíkt, heldur ósanngjarnt. Bæði gagnvart lesendum og honum.
17.10.2007 | 21:08
Tilbrigði um stef
Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun var sniðug mynd eftir Gunnar V. Andrésson, sem ég held að sé djákni íslenskra blaðaljósmyndara. En hún minnti mig á eitthvað.
Það var að rifjast upp fyrir mér á hvað hún minnir. Þarna er á ferð svipað myndmál og Brynjar Gauti Sveinsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, fangaði við svipað tækifæri fyrir tæpum þremur árum.
Þá var Þórólfur Árnason, borgarstjóri, við það að hrökklast frá völdum, og sú mynd sagði eiginlega alla söguna án þess að frekari skýringa væri þörf. Á henni sést Þórólfur borgarstjóri á hlaupum undan fjölmiðlafólki. Hann reisir upp fingur til merkis um að hann hafi engin svör, vilji frið og þurfi meiri tíma en aftast á myndinni sést sama táknið og Gunnar V. notaði líka, en það vísar á neyðarútgang úr Ráðhúsinu, sem borgarstjóra veitti ekki af. Myndin nær asa augnabliksins fullkomlega, fangar ringulreiðina í Ráðhúsinu á þessum dögum og er um leið táknræn fyrir atburðarrásina sem leiddi til afsagnar Þórólfs.
Það er Ólöf Rún Skúladóttir, sem er holdgervingur gervallrar fjölmiðlastéttarinnar á myndinni, en það er líka gaman að benda á að í hópi þeirra, sem á eftir ganga, grillir í Dag B. Eggertsson, nýráðinn borgarstjóra.
Þessi mynd Brynjars Gauta þótti svo snilldarleg að hún var valin fréttamynd ársins 2004 af Blaðaljósmyndarfélagi Íslands (BLÍ) og var þó sægur annarra sögulegra atburða það ár, sem gáfu af sér fjölda frábærra fréttamynda.
Stundum heyrir maður það viðhorf utan að sér að á Íslandi gerist svo fátt, að lítil von sé til þess að fá almennilegar fréttaljósmyndir, og aðrir láta eins og fréttaljósmyndir séu nánast eins og skraut með hinum skrifuðu fréttum. Þetta er hvort tveggja rangt. Það er raunar með ólíkindum hvað við eigum mikið af snjöllum blaðaljósmyndurum og frá þeim streymir urmull góðra fréttamynda, eins og við njótum á hverjum degi í blöðunum. Þær eru ekki bara eitthvert skraut, því sé myndin nógu góð verður hin skrifaða frétt lítið annað en skýringartexti. Ekkert íslensku blaðanna nálgast Morgunblaðið í myndnotkun, en Fréttablaðið hefur verið að sækja sig á, þó hönnum þess leyfi ekki miklar æfingar í þá veru. DV getur síðan öðrum blöðum fremur gert góðum myndum sérstök skil, en geldur þess að fréttastefna blaðsins er aðeins á ská við hina miðlana.
Til þess að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram, að ég er alls ekki að gefa í skyn að Gunnar V. Andrésson hafi gerst fingralangur eftir mótífi myndar sinnar. Öðru nær, enda þarf Gunnar ekkert að fá að láni annars staðar frá. Nær er að tala um tilbrigði við stef og með mynd sinni er hann að hreyfa hattbarðið til Brynjars Gauta.
Menning og listir | Breytt 18.10.2007 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2007 | 11:13
Ljúgðu að mér
Ég lagði það á mig í gærkvöldi, að horfa á atburði liðinnar viku, eins og þeir birtust á skjánum. Þar kenndi ýmissa grasa, sumt var athyglisvert, annað spaugilegt, margt óbærilega leiðinlegt og eitt og annað var eins og upp úr absúrdkómedíu.
Sérstaklega varð mér starsýnt á framgöngu Björns Inga Hrafnssonar, sem lagði ofuráherslu á það, að hann kæmi til dyranna eins og hann væri klæddur og legði spilin á borðin, alveg einstaklega hreinn og beinn, hefði ekkert að fela, ærlegur, drægi ekkert undan, með sannleikann einan að vopni og svo framvegis. Manni þótti alveg nóg um sannindaheitstrengingarnar, enda yfirleitt óbrigðult óhreinindamerki þegar fólk þarf að tönnlast á hreinleika sálar sinnar. Og það var eitthvað, sem ekki gekk alveg upp í söguþræðinum um myndun hins nýja meirihluta.
Hljómsveitin Unun hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega fyrsta breiðskífa þeirra, Æ, sem er þrettán ára gömul um þessar mundir og síung. Lagið Ljúgðu að mér rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að horfa á frásögnina af framvindunni og því notaði ég það í þessa samklippu. Ég skellti því líka inn í lagalistann hér til hægri. Tær snilld.
15.10.2007 | 23:19
Til varnar Villa
Það er merkilegt hvernig menn láta eins og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi orðið uppvís að einhverri lygi í Orkuveituóperunni, af því að fram kemur í greinargerð frá Bjarna Ármannssyni, stjórnarformanni REI, Hauki Leóssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og Hjörleifi B. Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að honum hafi verið kynnt tiltekið minnisblað Bjarna Ármannssonar á löngum fundi, sem þeir Haukur og Bjarni héldu með borgarstjóra á heimili hans.
Ástæðan fyrir því að menn líta á þetta sem mikil teikn er sú, að Vilhjálmur hafði sagt í viðtali við Morgunblaðið á sunnudag að sér hefði verið ókunnugt um þennan 20 ára þjónustusamning, sem ég hygg að flestum hafi blöskrað hversu mjög batt hendur Orkuveitunnar. Ekki síður sætti það undrun að hann skyldi ekki hafa verið nefndur einu orði þegar samruni félaganna var kynntur. En nú var því sumsé haldið fram að Villa hefði verið kynntur samningurinn fyrir löngu, löngu áður en samningurinn var tilbúinn. En hvað kynntu þessir herramenn fyrir borgarstjóra á fundinum langa?
Ég veit ekki hvernig þeim mæltist fyrir, en á þessu minnisblaði er rætt um hlutina með allt öðrum hætti en gert var í samningnum, sem nánari grein er gerð fyrir að neðan. Það er talað um að tryggja aðgang að þekkingu og starfsfólki, að notkun vörumerkisins sé heimil og að OR beini verkefnum til REI. Það er svolítið annað en einkaréttur að þekkingu, skuldbinding um að hafa ávallt sérfræðinga tiltæka eftir þörfum og dyntum REI, eða fortakslaus forgangur að öllum verkefnum OR utan landsteinanna. Orðið einkaréttur kemur ekki einu sinni fyrir!
Er unnt að draga aðra ályktun en að þetta almenna orðalag sé til þess fallið að afvegaleiða lesandann? Nema málið hafi síðan breyst svona mikið í meðförum síðan. Það væri ekki í fyrsta sinn, sem æðstu stjórnendur Orkuveitunnar leika slíkan blekkingaleik gagnvart fulltrúum eigenda sinna. Nú hafa þeir verið staðnir að verki með kámugar lúkurnar í fjárhirslum fyrirtækisins, úthlutandi sjálfum sér kauprétti eftir þörfum, og enn leika þeir lausum hala. Menn hafa verið kærðir fyrir tilraun til umboðssvika af minna tilefni.
Ég hef engan veginn verið sáttur við alla framgöngu Vilhjálms í þessu máli öllu og áfellist hann talsvert fyrir að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína sem stjórnarmaður í OR og borgarstjóri. Reynsla hans af feitu köttunum í OR átti að vera honum brýning til þess að trúa þeim ekki sisona, lúslesa allt sem frá þeim kom og telja á sér fingurna eftir handabönd við þá. Hvað þennan einkaréttarsamning áhrærir er hins vegar verið að hafa hann fyrir rangri sök og að mér sýnist af ásettu raði. Menn geta sjálfir reynt að ráða í hvatirnar, sem að baki liggja. En þá ættu þeir að hafa hugfast hverjir hafa mestu að tapa úr því sem komið er. Það er ekki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
...................
Orkuveitan Reykjavíkur (OR) skuldbatt sig samkvæmt þessum 20 ára þjónustusamningi til að veita einvörðungu Reykjavík Energy Invest (REI) sérfræðiþjónustu á vettvangi jarðhita, rannsókna, ýmiss konar áætlanagerðar og markaðsmála. Þá fékk REI m.a. forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar á samningstímanum. Leiti einhverjir aðilar til OR varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu, annars staðar en á Íslandi, ber Orkuveitunni að vísa slíkum fyrirspurnum til REI sem síðan hefur 60 daga forgangsrétt til að semja við viðkomandi aðila. OR má svo hirða hratið eða framselja það. Eins skuldbatt OR sig til að hafa sérfræðinga sína tiltæka á grundvelli ársfjórðungslegra áætlana REI, en geri REI breytingar á þeim eru þær samt bindandi fyrir OR. Samningurinn kvað og á um að REI skuli fá öll markaðsgögn OR og beinan aðgang að öllum gögnum um þekkingu, sem og upplýsingum á tölvutæku formi, sem tiltæk eru á hverjum tíma. Og auðvitað afnot af vörumerkinu Reykjavík Energy, en þannig er Orkuveitan sjálf þekkt á erlendum vettvangi.
Þessi samningur var undirritaður af þeim kaupréttarköttunum Guðmundi Þóroddssyni og Hjörleifi Kvaran, forstjórum OR og REI.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.10.2007 | 20:27
„Þetta er hneyksli“
Það var mikið að gera í síðustu viku og því voru fréttayfirlitin í fjörugra lagi. Þar var alls kyns fólk kallað til með misjöfnum árangri eins og gengur, enda varla við öðru að búast í þessu flókna máli, þar sem leyndarhyggja og pukur hefur einkennt allan gang þess. Það eru enda enn að dúkka upp nýir og dularfullir flestir á því og mig grunar að það séu ekki kurl til grafar komin.
Einn álitsgjafinn vakti þó nokkra furðu hjá mér. Af öllum mögulegum datt minn gamli vin og samstarfsmaður Gunnar Smári Egilsson inn í Ísland í dag á Stöð 2 hjá þeim stöllum Ingu Lind Karlsdóttur og Svanhildi Hólm, þar sem hann og Illugi Gunnarsson, annar vinur minn og þingmaður, fóru yfir nokkra þætti málsins. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað Smári var að gera þarna. Hann sést orðið sáralítið á Íslandi og heldur sig aðallega úti í heimi, þar sem hann stýrir fjölmiðlaumsvifum Baugsmanna erlendis. Var nokkur von til þess að hann hefði meiri þekkingu á málavöxtum og álitaefnum Orkuveituóperunnar en hver annar ferðamaður?
En svo tekur hann til máls og það næsta tæpitungulaust.
Já, þetta er hneyksli. Og hann gefur eindregið til kynna að fleira eigi eftir að koma á daginn, sem eigi eftir að reynast Birni Inga Hrafnssyni erfiðir. Það er algerlega augljóst að þetta er Smári ekki að segja út í loftið og þetta er ekki almennt á álit. Hann býr yfir einhveri vitneskju um einhver frekari óhreinindi og þess vegna skildi ég allt í einu hvað Smári var að gera þarna í þáttinn. Hann var beinlínis gerður út af örkinni til þess að segja þá. Blasir ekki við að Baugur óbeinn aðaleigandi Geysir Green Energy hefur fengið nóg af Birni Inga og kompaníi?
13.10.2007 | 21:10
Kvartmilljón á mann!
Það rifjaðist upp fyrir mér að í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2006 var það eitt kosningaloforða Björns Inga Hrafnssonar, að rétt væri að söluandvirði 45% eignarhluta Reykjavíkur í Landsvirkjun rynnu beint í vasa eigendanna, borgarbúa sjálfra. Um það sagði hann meðal annars í forsíðufrétt, sem ég skrifaði hinn 19. maí 2006:
Það ríkir enginn verulegur ágreiningur um það, að óskynsamlegt sé fyrir Reykjavíkurborg að standa í uppbyggingu tveggja samkeppnisfyrirtækja á orkumarkaði, Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Landsvirkjunar, sagði Björn Ingi aðspurður um hvort hann vildi einkavæða OR. Ég tel að OR eigi áfram að vera í samfélagseigu og að það eigi að efla hana. En við höfum ekkert við 45% óvirkan eignarhlut í Landsvirkjun að gera, fyrirtækis, sem er í samkeppni við OR.
Þetta hlaut víða góðar undirtektir, en ekki meðal samstarfsmanna hans í borgarstjórn. Sjáum til hvort Svandís Svavarsdóttir vill taka það upp í hinni nýju og nútímalegu stefnu, sem henni hefur verið falið að móta. Mér sýnist að hún sé opin fyrir hverju sem er þessa dagana.
Björn Ingi er vanur að klára þau mál, sem hann tekur að sér fyrir umbjóðendur sína. Mér sýnist að hann hafi síður en svo gefist upp á því að losa fast fé úr orkugeiranum. Hann ákvað bara að gefa þá annað.
13.10.2007 | 20:30
…allir saman nú!
Pétur Gunnarsson, ritstjóri Eyjunnar, býsnast yfir því að bent sé á framsóknarmafíuna að störfum. Ýjar nánast að því að mannréttindabroti í því, hvort að framsóknarmenn megi ekki stunda viðskipti eins og annað fólk. En þá er Pétur að missa af punktinum. Hann er sá að framsóknarforkálfum virðist fyrirmunað að stunda viðskipti eins og annað fólk. Það er meinið.
Í bloggfærslu Péturs lætur hann eins og hér ræði bara um einhverja sárasaklausa kjósendur Framsóknarflokksins, sem svo ótrúlega vilji til að hafi viðskiptavit. Ótrúlegt viðskiptavit sýnist manni raunar. Gefum Birni Inga Hrafnssyni orðið um það:
Ég er geysilega ánægður með framboðslistann og bind miklar vonir við allt það góða fólk sem á þar sæti. Margir hafa unnið í þágu Framsóknarflokksins um langt árabil, aðrir eru nýgræðingar í pólitík. Heiðurssæti listans skipa þau Valdimar Kr. Jónsson, prófessor emeritus, Sigrún Sturludóttir húsmóðir, Áslaug Brynjólfsdóttir fv. fræðslustjóri og loks Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi. Þá er formaður kosningastjórnar Helgi S. Guðmundsson framkvæmdastjóri, sem gegnt hefur trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í marga áratugi.
Þetta skrifaði Björn Ingi á blogg sinn hinn 18. mars 2006, undir fyrirsögninni: B-listinn: Nú þurfa allir að standa saman. Manni sýnist að það hafi bara lukkast ágætlega. Þeir standa allir saman enn.
Var það ekki mikilmennið Benjamín Franklín, sem sagði að ef menn stæðu ekki saman myndu þeir áreiðanlega hanga hver í sínu lagi?
Sú samstaða kom Birni Inga svo á óvart að hann felldi tár. Ég get upplýst það að ég grét líka þegar ég fékk fregnir af því. Af hlátri.
..................
Á myndinni að ofan eru flokksforysta Framsóknarflokksins í desember síðastliðnum, séðir með vélauga Sivjar Friðleifsdóttur. Þetta eru Helga Sigrún Harðardóttir, Sigurjón Örn Þórsson, Sigurður Eyþórsson, Rúnar Hreinsson, Jón Sigurðsson, Stefán Bogi Hjálmarsson, Helgi S. Guðmundsson, Guðni Ágústsson og Sæunn Stefánsdóttir. Helgi er þessi með veskið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.10.2007 | 22:28
Hið alþýðlega yfirbragð 24 stunda
Þegar nafni Blaðsins var breytt í 24 stundir og útlitinu nokkuð breytt var ég ekki alveg viss um tilganginn. En í morgun áttaði maður sig á því að það er verið að reyna að búa til einhvern vísi að götublaði að enskum hætti. Ég hef mínar efasemdir um að íslenskan henti vel í slíka fyrirsagnaorðaleiki og þessi fyrsta tilraun féll nokkuð flöt. Við hverju megum við búast næst? Bada Bing! þegar allt kemst upp í Orkuveituóperunni? Skamm Skatthiesen! þegar skattalækkanirnar láta standa á sér? Eða Þaulseti Íslands! þegar herra Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir að hann hafi ákveðið að láta undan óbærilegum þrýstingi fólksins í landinu og bjóða sig fram fjórða sinni?
Það má vel vera að þetta sé rétta aðferðin til þess að laska Fréttablaðið, en þá þarf meira til: fleiri skandala, meiri áherslu á íþróttir en menningu og hálfberar stelpur á síðu sex. Ég er ekki viss um að hinn flauelsklæddi femínisti Ólafur Þ. Stephensen sé alveg rétti náunginn í það fremur en orðaleikina. Held að menn eigi að eftirláta The Sun þá dýru list. Og hvar á þetta nýja málgagn alþýðunnar að standa í Evrópumálunum? Með lýðveldinu eða landráðamönnunum?
....................
P.S. Sé auglýsingu á mbl.is fyrir 24 stundir. Þar er spurt: Hvað ætlar Ómar að gera í dag? og fyrir neðan er hið nýja slagorð 24 stunda: kemur þér við. Æi nei, eiginlega ekki. Síðan verð ég nú að segja, að heldur finnst mér það nú kljent hjá dagblaði að geta ekki einu sinni bögglað saman málfræðilega réttu slagorði. 24 stundir kemur þér við. Rétt útgáfa, 24 stundir koma þér við er hins vegar ekkert sérlega snjöll. Raunar sérlega flöt. En betri en fyrra slagorð Blaðsins: hefur svo margt að segja. Hins vegar sakna ég kjörorða Blaðsins: Frjálst, óháð og ókeypis. Hefur eitthvað af því breyst?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.10.2007 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.10.2007 | 20:32
Fjórir riddarar
Í tilefni dagsins setti ég inn nýtt lag í tónlistarspilarann hér við hliðina á: The Four Horsemen með Metallica.
P.S. Síðan sé ég að fyrir eru tvö önnur lög með Metallica, litlu minna viðeigandi: For Whom the Bell Tolls og The Thing That Should Not Be.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar