Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Hvíti snákurinn kemur

 Whitesnake

Ég er búinn að vera aðdáandi Whitesnake í 28 ár, æ síðan þeir Jon Lord og Ian Paice gengu til liðs við David Coverdale, sinn gamla félaga úr Deep Purple. Þeir gengu síðar sinn veg, en hápunkti náði bandið líkast til árið 1987 þegar gítarsnillingurinn John Sykes (Thin Lizzy) hjálpaði Coverdale til við að búa til sándið, sem aflaði þeim þeirra vinsælda, sem hljómsveitin lifir enn á. Ég hef fyrir löngu misst sjónar á tíðum mannabreytingunum, enda á Coverdale sveitina rekur og ræður menn eftir þörfum. Núna er hann með gítarleikarana Doug Aldrich (spilaði um hríð með Dio) og Reb Beach (Winger og Dokken), þannig að ég gerði ráð fyrir nóg af rifjárnsgítartilþrifum í bland við hársprey í Laugardalshöllinni, þaðan sem ég var að koma.

Mér kom hins vegar skemmtilega á óvart að bandið hljómaði talsvert nær nútímanum en ég hafði búist við, en án þess að skemma gömlu lögin. Jú, Coverdale er farinn að eldast eilítið, en það kemur ekki að sök nema þegar hann er að reyna að syngja á því háa céi, sem hann tamdi sér 1987-1993. En gamla, góða djúpa blúsröddin er þarna ennþá og þannig naut hann sín best. Það kom vel í ljós snemma á tónleikunum þegar hann tók Fool for Your Lovin' sem var fyrsti alvöru smellurinn með gamla Whitesnake. Seinna komu fleiri gamlir standardar eins og Ain't Gonna Cry No More, Love Ain't No Stranger og Ain't No Love in the Heart of the City. Einnig hljómuðu nokkur ný lög og ljóst að bandið er enn undir áhrifum frá Zeppelin. Mest bar þó á metsölulögunum af plötunni Whitesnake (1987), lögum á borð við Is This Love, Here I Go Again, Crying in the Rain, Still of the Night og Give Me All Your Love. Undir lokin kom Whitesnake svo á óvart með því að taka gamla Deep Purple lagið Burn, með smá viðkomu í Stormbringer. Síðast kom Coverdale einn fram á sviðið og söng Soldier of Fortune einn og óstuddur. Tær snilld.

Tónleikarnir voru miklu skemmtilegri en ég eiginlega þorði að vona. Bandið var þétt, hafði gaman af þessu og stemmningin í salnum var fyrirtak. Íslendingar geta verið kaldir áheyrendur, en Coverdale — sjómaður sem hann er — átti ekki í vandræðum með að stjórna salnum til dáða.

Ég sá Whitesnake tvisvar á níunda áratugnum í London, og síðan fyrir 18 árum, fyrst á Donington og svo í Reiðhöllinni ef ég man rétt. Skrýtnir tónleikar. Coverdale ekki í miklu stuði en gítarleikararnir Steve Vai og Adrian Vandenberg héldu tónleikunum uppi. Ég missti því miður af seinni tónleikunum þá helgina, því kvöldið eftir var Coverdale lagstur með hálsbólgu og Pétur heitinn W. Kristjánsson gerðist staðgengill hans. Það hefði ég viljað sjá. Fyrir þá tónleika tók ég símaviðtal við Coverdale fyrir Morgunblaðið, sem var einkar ánægjulegt; hann er herramaður og með hærri greindarvísitölu en gengur og gerist í þungarokkinu.

Set af þessu tilefni inn Whitesnake-lagið Crying in the Rain af plötunni 1987, þó fyrri útgáfa á Saints & Sinners hafi einnig verið ágæt. Læt einnig fylgja Soldier of Fortune með Deep Purple, sem Coverdale syngur af innlifun og Ritchie Blackmore leikur á kassagítar af ekki minni tilfinningu. Á þau má hlýða í tónlistarspilaranum efst til hægri hér á síðunni.


Misskilningur og spuni

msuppkvaðning Hæstaréttar

Í athugasemdum við þarnæstu færslu hér á undan stakk Marinó G. Njálsson niður penna og fannst lítil ástæða til þess að vera að gera athugasemdir við málflutning Baugsmanna og raunar nánast ámælisvert að leyfa sér það. Ég geri það nú sjaldnast að svara athugasemdum lesenda minna öðru vísi en með nótum á sama stað, þær eru yfirleitt ekki tilefni sjálfstæðra færslna. Viðbrögð Marinós þykja mér hins vegar að mörgu leyti dæmigerð fyrir útbreidd viðhorf, sem mér þykja á misskilningi byggð. Því er sjálfsagt að huga nánar að þeim, hluti fyrir heild og allt það.

Æi, Andrés, nú er sjálfstæðismaðurinn í þér alveg að drukkna í já-bræðrakórnum.  Mér finnst með ólíkindum að nokkrum manni detti í hug að ákæruvaldið og aðrir þeir sem bökkuðu þetta mál upp hafi komið knarrreistir frá því.  En ég sé að það er einhver hópur innan "bláu fylkingarinnar" sem er þessarar skoðunar.

 

Skoðanir mínar á Baugsmálinu snúast fyrst og fremst um áhuga minn á því að réttvísin nái fram að ganga. Það þykir mér ekki hafa gerst í þessu máli og upphaflegir sakborningar sloppið með ólíkindum frá armi laganna. Ákæruvaldinu hafa vafalaust orðið á mistök, en ekki síður eru dómstólarnir þó gagnrýnisverðir. Það kemur pólitík ekkert við. Hins vegar hafa sumir sakborningarnir ekki þreyttst á að því að gera málið pólitískt og sumir hafa trúað þeim. Í máli Hreins Loftssonar er svo vikið að einhverri óljósri pólitískri ábyrgð dómsmálaráðherra, sem af dagatali má sjá að er úr lausu lofti gripin. Ég sé að ýmsir þingmenn hafa tekið undir það og þá er pólitíkin kannski loks farin að spila inn í. Hitt er svo annað mál, að ég fæ illa séð að ég sé að drukkna í einhverjum já-bræðrakór sjálfstæðismanna; ég hef ekki tekið eftir því að margir sjálfstæðismenn séu að hafa sig í frammi um þessi mál á þeim forsendum. Fyrir nú utan hitt, að ég er í mikilli fýlu út í Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana eftir að þingflokkur hans tók upp þjóðnýtingarstefnu í auðlindamálum.

Þau "svik" sem Tryggvi og Jón Ásgeir eru dæmdir fyrir byggja á túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna.  Ég þori að fullyrða að hver einasti atvinnurekandi í landinu veltir því fyrir sér í hverjum mánuði hvort tiltekin bókhaldsfærsla eigi að vera á þennan háttinn eða hinn.  Og ég þori að fullyrða að ekki eitt einasta fyrirtæki í landinu myndi koma athugasemdalaust út úr jafn ítarlegri skoðun á bókhaldi og Baugur fór í gegnum.  Það getur vel verið að menn hafi ákveðið að láta reyna á einhverjar túlkanir og hugsanlega fært "hagstæðara" bókhald, en það hefur ekki ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu.  Það hafi því ekkert auðgunarbrot verið framið.

 

Það er einfaldlega rangt að Jón Ásgeir Jóhannesson og Tryggvi Jónsson hafi aðeins verið dæmdir fyrir „túlkun á bókhaldslögum og framsetningu gagna“, eins og Marinó heldur. Þeir voru dæmdir fyrir að misnota aðstöðu sína til þess að hlunnfara almenningshlutafélag með margvíslegum hætti. Minnsti vafi í málinu var allur færður þeim í hag, í mörgum tilfellum þvert á fyrri dómafordæmi. Þess vegna er í dómnum einnig lýst margháttuðum lögbrotum, sem þó þykir ekki ástæða til þess að dæma þá til refsingar vegna. Í ljósi þeirra fjárhæða, sem um var að tefla, má ætla að þarna sé komið nýtt fordæmi, sem gera muni hvítflibbaglæpi nánast ókeypis héðan í frá.

Marinó tekur upp tuggu Baugsmanna um að ekki hafi „ennþá verið sýnt fram á að einn eða neinn hafi skaðast eða hagnast á þessu“. Þetta er liður í þeirri lygi, sem þeir hafa verið óþreytandi að halda fram, að fyrirtækið Baugur hafi ekki haft neitt við neitt að athuga, enda hafi í raun verið að ásaka þá fyrir að stela frá sjálfum sér. Á þessum tíma var Baugur almenningshlutafélag, en ekki einkafyrirtæki fjölskyldunnar. Það laut því sérstaklega ströngum skilyrðum, sem stjórnendurnir litu fullkomlega hjá. Þegar þeir tóku peninga út úr fyrirtækinu, veittu sjálfum sér ólöleg lán (með veði í óútfylltum víxli Schrödingers, sem kannski eða kannski ekki var í tiltekinni skúffu), fölsuðu afkomutölur, gáfu út falska reikninga, létu fyrirtækið borga margvíslegan einkakostnað og hvaðeina… er þá ekki ljóst að einhver skaðaðist af því? Og að einhver hagnaðist?

Í því samhengi geta menn einnig velt því fyrir sér hvernig eignarhlutur Bónusfjölskyldunnar í Baugi komst úr fjórðungi í þrjá fjórðu á tveimur árum. Hvaðan komu peningarnir? Við því hafa engin viðhlítandi svör fengist.

Fyrst og fremst voru það þau Jón og Gunna, almennir hluthafar í Baugi, sem sköðuðust af þessu. Þau fjárfestu í almenningshlutafélagi, fullviss um að strangar reglur og lög, tryggðu að þar væri ekkert óhreint á ferð, að upplýsingagjöf væri í stakasta lagi og annað eftir því. Svo var ekki og arðurinn var minni, en hann hefði ella verið. Til þess að gera illt verra er ljóst að stjórnendurnir voru uppteknari af því að sinna eigin hagsmunum en hagsmunum almenningshlutafélagsins, en hið versta var þó að þeir hagsmunir sköruðust og stjórnendurnir lögðu sig raunar í líma við að láta þá skarast. Þarf einhver að efast um ásetninginn?

Þessu til viðbótar verður að nefna að það voru ekki aðeins hluthafar í almenningshlutafélaginu Baugi, sem sköðuðust af þessum myrkraverkum. Allur markaðurinn skaðaðist af þeim, bæði vegna þess að tiltrú fjárfesta á regluverk, skilvirkni og viðskiptasiðferði hefur minnkað, en einnig vegna þess að með því að krukka í afkomutölurnar var verið að skekkja allar markaðsupplýsingar, sem fjárfestum voru tiltækar. Þegar þeim leist svona ljómandi vel á afkomuna hjá Baugi varð raunveruleg afkoma annarra fyrirtækja á verðbréfaþingi ekki jafnálitleg og ella.

Baugsmenn voru þó ekki aðeins að tjakka afkomuna upp, þeir tjökkuðu hana líka niður, þegar leið að afskráningu félagsins af markaði. Tilboð þeirra í hlutina var síðan aðeins í samræmi við meðalverð Baugs á markaði (sem hafði raunar haldist furðustöðugt). Hin óskráða regla er sú, að þegar stjórnendur og ráðandi hluthafar kaupa út aðra hluthafa, gera þeir það á yfirverði, því gengið er út frá því sem vísu að þeir hafi gleggri þekkingu og yfirsýn á rekstur þess en almennir hluthafar, enda felist í því áhugi þeirra á afskráningunni. Þar fyrir utan er það svo beinlínis rangt að engir hluthafar almenningshlutafélagsins Baugs hafi gert athugasemdir og talið sig hlunnfarna. Nú, fimm árum eftir að Baugur var afskráður úr Kauphöllinni, eru enn til meðferðar mál hluthafa, sem ekki vildu sætta sig við útkaupin og töldu verðið rangt.

Ég hélt, þegar þetta mál fór af stað, að nú hefðu Baugsmenn verið teknir í bólinu.  Þetta gat varðað ímynd landsins í viðskiptum að ungir auðmenn gætu ekki valtað yfir lög og reglur.  Svo komu ákærurnar og þvílíkur sparðatíningur.  Að telja upp færslur af VISA-korti til að sýna fram á að Jón Ásgeir hefði keypt sér dýr jakkaföt.  Þeir hefðu haft meira upp úr því að krefja hann um virðisaukaskattinn af jakkafötunum, en að eltast við þetta sem umboðssvik eða fjárdrátt.  Ekki fór heldur erlenda pressan mjúkum höndum um ákærurnar og þar var sagt, að greinilegt væri að þessir menn hefðu ekki skilning á því hvernig fyrirtæki væru rekin.

 

Sparðatíningurinn, sem Marinó nefnir, nam tugmilljónum króna í einkaneyslu, sem Jón Ásgeir og Tryggvi reyndu að láta almenningshlutafélagið Baug bera. Stór hluti af því var siðferðislega ámælisverðari en kaup á jakkafötum. Verjendur þeirra nefndu þeim til varnar, að þeir félagar hefðu ávallt átt verulegar fjárhæðir inni hjá félaginu. Sú vörn er reynd í nær öllum fjárdráttarmálum, að sakborningar hafi aðeins tekið sér fjármuni, sem þeim bar á einhvern hátt. Fram til þessa hafa dómstólar aldrei virt þau rök viðlits.

Hvað erlendu pressuna áhrærir er Marinó væntanlega að vísa til frásagnar lausamannsins Ians Griffiths, sem skrifaði grein í The Guardian, þar sem hann gerði gys að því að Jón Ásgeir væri sakaður um að hafa dregið sér hamborgara. Ian Griffith var sá blaðamaður, sem Baugsmenn handvöldu til þess að afhenda ákæruskjölin á sínum tíma, en hann er jafnframt annar höfundur bókarinnar The Ice Man Cometh, sem boðuð var útgáfa á í fyrra (hún átti upphaflega að heita Sex, Lies and Supermarkets), en hefur af einhverjum ástæðum enn ekki komið út á almennum markaði, þó sent hafi verið út kynningarefni, mynd af kápunni birt og ISBN-númer útgefin. Hinn höfundurinn, Jonathan Edwards, hefur ótrúlegt en satt unnið fyrir Baug hjá Capcon-Argen, sem á sínum tíma gaf út heilbrigðisvottorð um bókhaldið hjá Baugi.

Ég veit ekki hvort Björn Bjarnason eigi að segja af sér eða ekki út af þessu, en mér finnst það með ólíkindum að hann (og Össur) telji sig geta verið ráðherra og haldið á sama tíma úti blogg-síðum, þar sem þeir veitast að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum.  Það er ekki að mínu mati ekki sæmandi, eða eins og Vilmundur Gylfason sagði:  "Löglegt en siðlaust."  Ég ætla ekki að setja út á það, að þeir tjái sig um málefni, en í hvert sinn sem þeir beina skrifum sínum að aðila sem gæti þurft að leita til stjórnvalda um afgreiðslu sinna mála, þá setur þá niður í mínum huga.  Efast ég ekki um að þetta séu vænstu menn og miklir vinir vina sinna, en óvild í garð annarra verða þeir að bera í hljóði.

 

Björn Bjarnason og Össur Skarphéðinsson eru fyrst og fremst kjörnir þingmenn, svo ráðherrar. Málfrelsi þeirra á ekki að skerðast vegna upphefðar þeirra í stjórnarráðinu, síður en svo. Það er síðan rangt að þeir hafi veist að nafngreindum mönnum og fyrirtækjum, þó þeir hafi fjallað um bæði menn og fyrirtæki án þess að það hafi verið tómt lof. Stundum jafnvel gagnrýni. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi þeir aldrei gert að tilefnislausu og ávallt innan þeirra marka, sem opinber umræða býður. Bæði með lögmætum hætti og siðlegum. Það sér það enda hver maður að þeir væru harla ónýtir stjórnmálamenn ef þeir þegðu af ótta við að einhverjum kynni ekki að líka það, sem þeir segja. Svo framarlega, sem það tengist ekki stjórnarathöfnum þeirra.

Baugsmálið kann að vera útkljáð fyrir Hæstarétti en af því má og þarf margvíslega lærdóma að draga. Menn geta deilt um upphafið ef þeir vilja, en að mínu viti er augljóst að þar var um einföld, subbuleg fjársvik að ræða. Annað er í besta falli misskilningur, en í rótina spuni í þágu hinna seku.


Þó fyrr hefði verið

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Mikið er ég feginn að loks skuli vera búið að taka af skarið um forystumál Sjálfstæðisflokksins í borginni. Þó fyrr hefði verið. Sá vandræðagangur hefur reynst borgarstjórnarflokknum jafnvel enn erfiðari en sjálft REI-málið á sínum tíma og meirihlutaslitin, sem í kjölfarið sigldu.

Ég þekki Hönnu Birnu Kristjánsdóttur af dugnaði, röggsemi og röskleika og veit að hún verður góður borgarstjóri. Ég treysti henni vel til þess að snúa vörn í sókn, borgarbúum til heilla.


mbl.is Hanna Birna verður borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Hreinn Loftsson að segja af sér?

Hreinn er þessi sem ekki hefur stöðu grunaðs manns.

Ég sá í fréttumHreinn Loftsson, hrl., er þeirrar skoðunar að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, ætti að segja af sér vegna sakfellingar yfir Baugsmönnum í Hæstarétti í dag. Ég verð að játa að ég átta mig ekki á því hvað Hreinn er að fara.

Nú hefur heift og hatur Baugsmanna í garð Björns ekki farið fram hjá neinum (sbr. auglýsingu Jóhannesar Jónssonar í Bónus á kjördag þar sem hvatt var til útstrikana gegn honum), en það hefur aldrei komið almennilega fram af hverju. Þeir hafa nefnt aðkomu hans að Baugsmálinu, en virðast algerlega veruleikafirrtir í þeim efnum. Eða ekki kunna á dagatal. Rannsókn Baugsmálsins hófst í lok ágúst árið 2002. Þá var Björn nýkjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík, en hann hafði látið af störfum sem menntamálaráðherra hinn 1. mars 2002, nærri hálfu ári áður en málið hófst. Dómsmálaráðherra varð hann ekki fyrr en 23. maí 2003, tæplega níu mánuðum eftir að rannsóknin hófst. Hver á aðkoma Björns að hafa verið að upphafinu?

Hreinn nefnir sérstaklega að sem dómsmálaráðherra hafi Björn „stutt [ríkislögreglustjóra og saksóknara efnahagsbrotadeildar] með ráðum og dáð, leynt og ljóst“ og þar af leiðandi ætti hann að sjá sóma sinn í að segja af sér. Það segir kannski sína sögu að þarna notaði Hreinn nákvæmlega sama orðalag og Jói í auglýsingunni forðum. En hvernig dettur lögmanninum Hreini í hug að setja svona dellu fram? Þá fyrst hefði nú verið ástæða til þess að Björn tæki pokann sinn ef hann hefði verið krukka í hvernig lögregluembætti eða saksóknari höguðu einstökum rannsóknum. Því það var það, sem Baugsmenn vildu: sérmeðferð vegna þess að þeir ættu svo mikið undir sér. Og hver veit nema það hafi þeim tekist?

Látum það samt ligga milli hluta að sinni. Stóra spurningin er hvort Hreinn Loftsson ætli ekki að segja af sér. Hreinn er „stjórnarmeðlimur“ í Baugi Group, en hann var stjórnarformaður í almenningshlutafélaginu Baugi þegar þau brot áttu sér stað, sem forstjórinn hans og aðstoðarforstjóri voru dæmdir fyrir. Blasir ekki við að Hreinn hefur ekki staðið undir þeirri ríku eftirlitsskyldu, sem honum bar sem stjórnarformanni í almenningshlutafélagi? Af yfirheyrslum yfir honum vegna kaupanna á Vöruveltunni, sem lesa má ásamt ýmsu öðru forvitnilegu á baugsmalid.is, er bersýnilegt að hann var alveg sérstaklega lítið heima í helstu verkefnum Baugs Group. Nú þegar dómur hefur loks gengið hlýtur Hreinn að axla sína ábyrgð þó seint sé og segja af sér sem „stjórnarmeðlimur“ í Baugi.


« Fyrri síða

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband