Leita í fréttum mbl.is

Er dauðasynd að ræða um stóra Orkuveitumálið?

 


 

Sigurður Viktor Úlfarsson gerði athugasemd við síðustu færslu hjá mér, sem kallaði á svör af minni hálfu. Þau eru hins vegar þannig vaxin, að mér fannst ástæða til þess að svara þeim í færslu, fremur en í athugasemdunum einum. Sigurður Viktor skrifaði:

Snýst öll þessi umræða þá bara um að þú sért öfundsjúkur?

Það er búið að tala um alls kyns spillingu og sjálftöku (á meðan þeir sem er verið að fjalla um varðandi sjálftöku eru Haukur Leosson og Björn Ingi sem ákváðu að þeir sjálfir fengju ekki að kaupa hlut - það var nú öll sjálftakan), það er búið að tala um þennan fund sem á að vera ólöglegur o.s.frv. o.s.frv. 

En snýst þetta bara á endanum um öfund Andrés?  Ég held það nefnilega.  Ég held að verði almenningi leyft að kaupa bréf í fyrirtækinu þá skyndilega hætti allar þessar ásakanir og allir segi að allt sem þeir segja í dag að sé ekki í lagi verði í lagi.  Ótrúleg hræsni en nákvæmlega það sem þessi umræða öll gengur út á!

Fyrri færsla mín byggðist ekki á dauðasyndinni öfund, enda er auðsæld mín og örlæti legíó. En það er óþarfi að leggja mér orð í munn, ég vék ekki einu orði að meintri sjálftöku eða ámóta ásökunum um óhreinindi, sem Sigurður Viktor Úlfarsson gerir að umræðuefni. Kannski er ástæða til þess að ræða slíkar ávirðingar, ég veit það ekki, en Sigurður Viktor er í sjálfsagt í vondri aðstöðu til þess að ræða það með opinskáum hætti; síðast þegar ég vissi starfaði hann hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Þar fyrir utan er ég alls ekki þeirrar skoðunar að þessi kaupréttarumræða sé mergur málsins, eins og ég tók raunar sérstaklega fram og nefni einnig í bloggfærslu á Eyjunni, þó mér hafi virst sem forystumenn fyrirtækisins og pólitískir forsjáraðilar hafi gjarnan viljað láta sem svo, að kaupréttarákvæðin væru aðalagnúi málsins og allt myndi falla í ljúfa löð ef hann væri af sneiddur. En mér finnst hún nægilega athyglisverð til þess að það megi fjalla um hana enn um sinn, burtséð frá öðrum flötum.

Grundvallaratriði málsins snúast hins vegar um tvennt: hlutverk fyrirtækisins og eignarhald. Ég er þeirrar skoðunar að mönnum beri að hirða um eigur sínar, við vitum öll hvaða afleiðingar vanræksla hefur. Einu gildir hversu góð ráðskonan er, hún umgengst búið með öðrum hætti en húsfreyjan. Hið sama á við um fé án hirðis.

Meginvandi Orkuveitunnar er sá að eigendurnir eru alltof fjarlægir eign sinni. Stjórnendur og starfsmenn OR virðast líta á fyrirtækið sem góss, en eigendurna í besta falli sem greiðendur. Pólitískir stjórnendur, sem eiga að vera fulltrúar eigendanna, hafa svo smitast af þessu viðhorfi, eins og best sést á því hvernig Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri einangraði sig (og vin sinn Hauk Leósson) í stjórn OR frá öðrum borgarfulltrúum. Þó þeir Haukur sætu í þeirra friði í stjórn OR fannst honum hann ekki þurfa að ræða málefni fyrirtækisins við þá. Það býður hættunni heim.

Því fannst mér það sjálfsögð og eðlileg tillaga að nefna þennan kost, að gefa eigendum OR kost á forkaupsrétti í REI fyrir skráningu. Bæði af því að þeir eiga inni fyrir því, en ekki síður vegna þess að ég tel þeim og fyrirtækinu hollt að það sé raunverulegt almenningshlutafélag. Það væri enda eðlilegt framhald þessarar þróunar. Það væri ennfremur sérstaklega vel fallið til þess að ná þeim markmiðum fyrirtækisins „að friður ríki um starfsemi þess“.

Kaupréttarumræðan finnst mér útúrdúr, en hugsanlegur kaupréttur eigendanna er nátengdur aðalatriðum þess. Líkt og ég nefndi áður er sjálfsagt að verða við þeirri ósk REI, að ræða veigameiri þætti málsins. Mér finnst líklegt að ég geri það á næstu dögum, enda virðist málið hvergi nærri útrætt. Þar inn í kunna að blandast persónulegir hagsmunir og hvatir helstu söguhetjanna, eins og Sigurður Viktor vék að, og þá er skylt að ræða það, ef minnsti grunur er uppi um eitthvað misjafnt.

Mikilvægast og brýnast er að fjalla um grundvallarmálin: hlutverk og eignarhald fyrirtækja á vegum hins opinbera, ekki síst einokunarfyrirtækis eins og Orkuveitunnar, sem er rekið í skjóli útsvarsgreiðenda en virðist ekki þurfa að standa þeim nein reikniskil, lýtur sérstökum lögmálum um framboð og eftirspurn, en er undanþegið almennum reglum stjórnsýsluréttar, bæði hvað varðar reglur um málsmeðferð og launa- og starfskjör. Það er nú vandinn í hnotskurn, að þar vantar ábyrgð í samræmi við völd, auð og athafnafrelsi. Úr því verður að bæta.

Það kemur dauðasyndinni öfund ekkert við, en kannski koma hinar dauðasyndirnar sex við sögu umfjöllunarefnisins: Hroki, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúð.

 

 

...................

Myndina að ofan tók Árni Torfason, sem gaf mér góðfúslegt leyfi til þess að nota hana. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð að mótmæla harðleg hinnum fornu ósannindum sem þú gerir hér að þínum.

Leti, ofát og munúð eru ekki ekki syndir, hvað þá dauðasyndir.

Þetta er list.

Guðmundur Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.10.2007 kl. 16:05

2 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er búið að hengja sig í þessum kaupréttarsamningum í stað þess að horfa á málið í heild sinni.

Stærsta arðrán Íslands?

Eva Þorsteinsdóttir, 7.10.2007 kl. 16:46

3 Smámynd: Andrés Magnússon

Athugasemdir Guðmundar skal ég taka til athugunar. Jafnvel rannsóknar!

Eva hefur svo auðvitað hárrétt fyrir sér. Hengi menn sig á kaupréttarsamningana sem höfuðsynd málsins eru þeir óbeint að fallast á að undanfarinn hafi verið í himnalagi. Á skal að ósi stemma.

Andrés Magnússon, 7.10.2007 kl. 17:07

4 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég er að vissu leyti sammála þér Andrés, þessir kaupréttarsamningar eru aukaatriði en ég bara skil ekki ef þetta er svo verðmætt og æðislegt af hverju Orkuveitan þarf að vera bakhjarl og “grunnfjárfestir” . Ég hef á tilfinningunni að ef verður hagnaður þá hirði þessir toppar það (flytja t.d. fjármagn í aðrar fjárfestingar) en ef tap verður þá er gott að hafa almenning til að borga brúsann (var þetta ekki það sem bankarnir gerðu?). Þessir örfáu svonefndu lykilstarfsmenn hefði verið auðvelt að ráða til hins nýja fyrirtækis. Svo það eina sem Orkuveitan hefur til að leggja er öruggar mánaðargreiðslur neytenda þegar vantar meira fjármagn eða eiga allir starfsmenn Orkuveitunnar að vera í vinnu hjá þessu nýja fyrirtæki eftir því sem því hentar?

Grímur Kjartansson, 7.10.2007 kl. 17:34

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Væri kauprétturinn almennur, væri varla um að ræða svo stóra hluti. Það er bara ákveðið til skiptanna og fæstir meðaljónar, geta leyft sér að kaupa fyrir tugi eða hundruði milljóna hvort sem er. Ótrúleg röksemd hjá Sigurði.  Hér er um ávöxtun almannaeignar að ræða og slík ávöxtun á að haldast innan rekstursins ölllum til hagsbóta. 

Annars er hér um hálfgerðan ENRON gjörnig að ræða og mættu mennt.d. kíkja á heimildamyndina "Smartest Guys in the room" svona til að fá hugmynd um blikurnar.

Það er einnig spurning um sjálfstæði okkar, þegar sameign okkar er orðin lánsveð og pókerpeningar í arðgræðgi misviturra einstaklinga, sem líta á arðtölur sem hinn æðsta sannleik og framtíð lands og þjóðar sem aukaatriði.

Held að menn geri sér ekki grein fyrir að þeir eru leiksoppar í stærra yfirtökuplotti erlendra spekúlanta.  Hér flæðir fjármagn inn hömlulaust í formi skammtímaskuldbindinga erlendra spekúlanta, sem gera út á helstu útflutningsgrein okkar í dag: Vexti. 

Hér stjórnar hvorki Davíð né Geir.  Þeirra hlutverk er að halda stýrirvaxtablöðrunni þaninni því ef þeir gefa eftir, verður þessum 700 milljarða skammtímaskuldbindingum kippt út og hér verður dómínóeffekt gjaldþrota, sem endar með því að við sem sjálfstæð og sjálfráða þjóð lendum á uppboði í kolaporti frjálshyggjunnar.

Svo dreifa menn athygli sinni í að fjargviðrast yfir því að fyllibyttur pissi utan í hús í centrum.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.10.2007 kl. 20:24

6 Smámynd: Bjarni Kjartansson

KÆri vin.

Höfuðsyndirnar eru sjö.

Dauðsyndir þekkjast ekki í íslensku máli, það ku vera tjallíska.

Seven deadly sins.

*Ekki nota sögnina að brúka, við brúkum sögnina að nota*

Altso, Höfuðsyndirnar eru sjö, náðargáfurnar eru sjö og vísindagreinarnar eru sjö.

Miðbæjaríhaldið

þjóðernissinnaður að vanda

Bjarni Kjartansson, 7.10.2007 kl. 23:36

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Af vísindavef Háskólans:

Hinar sjö kristnu höfuðsyndir, eða dauðasyndirnar sjö eru eftirtaldar: Hroki, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofát og munúðlífi. Í Íslensku alfræðiorðabókinni er leti talin upp í stað þunglyndis. Þessar sjö syndir eru ekki taldar upp berum orðum í Biblíunni og því síður nefndar dauðasyndir.

Marteinn Lúther telur upp þessar sjö birtingarmyndir syndarinnar. Hann notar aðra aðgreiningu synda að auki, þrjár birtingarmyndir syndarinnar gagnvart Guði: Vanþakklæti, eigingirni og hroka. Lúther sagðist sjálfur ekki átta sig alveg á greinarmuni synda og dauðasynda.

Fyrir Lútheri er syndin fólgin í manninum en ekki verkum hans – maður verður ekki góður fyrir Lúther þó hann breyti rétt, segja má að aðeins hugurinn að baki gjörðinni skipti máli.

Kaþólskir nota orðið galla eða löst yfir það sem Lúther nefnir synd en segja syndir drýgðar í einstökum verkum. Gallar í fari manna geta stuðlað að því að þeir drýgi synd. Sömu sjö atriði teljast til helstu galla mannsins meðal kaþólskra.

---

Höfuðsyndirnar eða -lestirnir sjö eru andstæðir höfuðdyggðunum sjö, sem eru ekki heldur nefndar sem slíkar í Biblíunni. Höfuðdyggðirnar sjö eru: Viska, hófstilling, hugrekki, réttlæti, von, trú og kærleikur. Meira er lagt upp úr þessum dyggðum í kaþólskri siðfræði en lútherskri.

Jón Steinar Ragnarsson, 8.10.2007 kl. 01:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband