Leita í fréttum mbl.is

Vanræksla og vammir

Bergstaðastræti 20Það er alger synd hvernig komið er fyrir húsinu að Bergstaðastræti 20. Það var keypt í því augnamiði að rífa það, en verktakarnir voru uppi með fyrirætlanir um að byggja smækkaða útgáfu af JL-húsinu hér í miðjum Þingholtunum. R-listinn hafði samþykkt að auka byggingamagnið hér í kring og það voru ótrúlegustu tillögur samþykktar í kringum þá dagskrá. Sumt þannig að ég held að byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi ekki verið sjálfrátt.

Við húsið mitt leyfði hann t.d. endurbyggingu óleyfisskúrs, sem niðurrifskrafa hafði verið á um árabil, þannig að eignarréttur okkar hjóna hefði verið verulega skertur. Það tók margra mánaða ótrúlegan erindrekstur og háan lögfræðikostnað áður en þeirri ákvörðun var hrundið, en það er enn fast í kerfinu einhvernsstaðar og skúrinn enn á sínum stað. Hinu megin við húsið er annar skúr, um 30m2, en nýja deiliskipulagið heimilaði að ofan á hann mætti byggja örlítið meir. Ætli það sé mikil eftirspurn eftir skúrum með turni ofan á? Hér kippkorn fyrir ofan er svo hús, sem var leyft að byggja ofan á til þess að þétta byggð. Það hefur verið á byggingarstigi í tvö ár, en verktakinn reyndi víst að svindla eitthvað á teikningunni, þannig að þar er ekkert að gerast.

Þetta er samt ekki allt afleitt, eins og sést á því að fyrir andóf íbúa var fyrirætlunum um fyrrnefndan JL-kumbalda hrundið. Þess vegna var hægt að flytja þetta huggulega hús af Hverfisgötunni. Ég held að það sé annað á leiðinni, sem mun styðja við heildarsvip hverfisins. En eftir situr þessi hryggðarmynd, fallegt hús, sem er að grotna niður af ásettu ráði. Ég held að eigendurnir, ÞV verktakar, séu að þessu í einhverjum pervers hefndarleiðangri.

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir fyrrnefndum byggingarfulltrúa að hugsanlega geti hann beitt einhverjum dagsektum til þess að þvinga verktakann til aðgerða. Heyr á eindæmi! Óleyfisskúrinn á lóðinni minni er búinn að vera á dagsektum í 19 ár án þess að byggingarfulltrúi hafi gert nokkra tilraun til innheimtu. Þær nema liðlega 12 milljónum króna um þessar mundir, án tillits til vaxta eða verðbóta. Mér skilst að fjárhagsstaða borgarinnar sé bara svona og svona, þannig að þarna leynist lús.

Hitt er annað mál, að í tilvikum sem þessum eru fá úrræði. Það er t.d. ekki langt síðan ófyrirleitinn verktaki var að kaupa upp húseignir við Hverfisgötuna og lét draslið grotna niður til þess að draga fasteignaverðið í kring niður, meðan hann væri að kaupa upp. Hann leyfði meira að segja ógæfufólki að setjast að í sumum íbúðunum, sem hann hafði keypt og rýmt. En aðeins við hlið íbúða fólks, sem hafði verið tregt til að selja honum.

Erlendis eru víða lög eða reglugerðir, sem kveða á um að húseigendur verði að sinna eignum sínum. Vanræki þeir þær eða yfirgefi fellur eignarrétturinn úr gildi. Þetta er einmitt gert til þess að koma í veg fyrir að slík vanræksla dragi nágrennið niður með tilheyrandi tjóni. Annars staðar getur slík vanræksla opnað dyrnar fyrir hústökufólki, sem getur helgað sér húsið með því að setjast þar að, sletta málningu á veggi og gera það að heimili sínu. Slíkt væri sjálfsagt freistandi á dögum hás húsnæðisverðs. Er eitthvað slíkt eina leiðin til þess að örva svona slúbberta til dáða?


mbl.is Framtíð 100 ára húss í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Aðeins eitt er víst hús þetta mun rifið og stórbygging reist. Þó að Torfusamtökin myndi meirihluta borgarstjórnar.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 8.10.2007 kl. 18:57

2 Smámynd: Eva Þorsteinsdóttir

Vil bara benda á að það eru ÞG verktakar sem eiga þetta niðurnídda hús á Bergstaðarstrætinu en ekki ÞV verktakar eins og fram kemur.

Eva Þorsteinsdóttir, 8.10.2007 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband