Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Röng frétt Ríkisútvarpsins

Ástandið í Líbanon er afar flókið og svo hefur lengi verið. Þjóðin — ef það er rétta orðið — er margklofin eftir sið, uppruna og stjórnmálaafstöðu… í þeirri röð. En það er nú samt alveg hægt að átta sig á grundvallaratriðum málsins án teljandi vandræða. Þess vegna varð ég steinhissa í morgun þegar ég heyrði Hildi Bjarnadóttur lesa aðalfréttina í Ríkisútvarpinu kl. níu. Líbanon og ástandið þar virðist henni fullkomlega framandi. Til þess að glöggva hlustendur á stöðu mála kom eftirfarandi kafli í fréttinni:

Mikil ólga er í Líbanon og valdabaráttan sögð hörð milli þeirra flokka sem fylgja Sýrlandsstjórn að málum og þeirra sem eru henni andvígir. Hezbollar eru í forystu andstöðunnar við Sýrlendinga og staðráðnir að fella ríkisstjórnina sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna.

Þessi víðtæka vanþekking tekur þó ekki aðeins til ástandsins suður við Miðjarðarhafsbotn, heldur til enskrar tungu. Fréttin er nefnilega að mestu leyti byggð á fréttaskeyti Reuters og ofangreind málsgrein á að vera þýðing á eftirfarandi:

The killing will heighten tensions between the anti-Syrian government and the pro-Damascus opposition led by Hezbollah, the powerful Shi'ite Muslim guerrilla group determined to topple what it sees as a pro-U.S. cabinet.

Þetta er nú hreint ekki sami hluturinn og fréttin því röng í undirstöðuatriðum.

Hryðjuverkasamtökin Hezballah voru stofnuð af Írönum á sínum tíma til þess að útbreiða hina íslömsku byltingu shíta og eru leppar hennar, eins og best sást á dögunum þegar þau hófu hernað gegn Ísrael til þess að draga athygli leiðtogafundar G8 frá kjarnorkuvæðingu Írana með skelfilegum afleiðingum. Innan Líbanon hentar það þeim hins vegar að draga taum Sýrlendinga, enda fengu Hezballah að grafa um sig óáreitt meðan á hernámi Sýrlendinga stóð og hagsmunir þeirra fara fullkomlega saman, líbönsku þjóðinni til bölvunar.

Það er einnig rétt að halda því til haga að ríkisstjórn Líbanons — hvað sem annars má um hana segja — nýtur viðurkenningar og stuðnings alþjóðasamfélagsins. En af hverju telur Hezballah (eins og RÚV slær síðan föstu með smámisskilningi) að ríkisstjórnin fylgi Bandaríkjunum að málum? Jú, af því að Hezballah hefur neytt hluta ríkisstjórnarinnar til afsagnar og vinir þeirra í Damaskus reyndu að drepa tvo ráðherra til viðbótar í gær. Að vísu tókst aðeins að drepa annan, en ella hefði ríkisstjórnin sjálfkrafa farið frá samkvæmt stjórnarskrá. Þeir sem eftir eru í ríkisstjórninni eru ekki fortakslausir leppar Sýrlendinga og þar af leiðandi augljóslega á snærum Stóra Satans. Eða svo segir RÚV.


Líbanon á barminum

Leppstríð Sýrlendinga og Írana í Líbanon er hafið á nýjan leik eftir að iðnaðarráðherra landsins, Pierre Gemayel (sonur Amins Gemayel, fyrrverandi forseta landsins), var myrtur í fyrirsát í dag. Ef eitthvað er að marka söguna mun Hezballah láta kné fylgja kviði innan skamms og þá kann nýtt borgarastríð að sigla í kjölfarið. Til þess eru enda refirnir skornir. Sýrlendingar sýndu öðrum ráðherra, Michel Pharaon, misheppnað tilræði í dag. Hefði það tekist hefði ríkisstjórnin þurft að segja af sér, sem hefði hentað Sýrlendingum alveg sérstaklega vel. Um leið er dómsrannsókninni á morðinu á Rafik Hariri stefnt í voða, sem kemur þeim einnig vel. Merkilegt að ekkert hefur heyrst til helstu málsvara þeirra hérlendis ennþá, þessara sem máttu vart mæla fyrir vandlætingu þegar Ísraelsmenn gerðu vanmáttuga tilraun til þess að uppræta Hezballah síðsumars.
mbl.is Leiðtogi kristinna manna í Beirút skotinn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgólfur nýtur sín

Auðvitað eru það stórtíðindi þegar Íslendingar kaupa fótboltaklúbb í fremstu röð á Englandi. Ég heyrði viðtal við Eggert Magnússon í útvarpinu í dag og fannst hann tala af skynsemi og stillingu, þannig að allt annar bragur var á kaupunum á West Ham heldur en Stoke, svo augljóst dæmi sé tekið. Bakhjarlinn, Björgólfur Guðmundsson, er enda allt annars eðlis, með meiri styrk og staðfestu.

En svo hef ég heyrt suma tala öðruvísi. Hvort þetta sé ekki bara eitthvert rugl, milljarðamæringar að leika sér með fjármuni eins og þeir væru í Matador. Nú eða hinir, sem spyrja hvort Björgólfur hafi virkilega ekki getað fundið eitthvað annað við peningana að gera, við blasi alls kyns þjóðþrifaverk.

Ég er ósammála þessu. Fyrir það fyrsta er ég efins um að nokkur Íslendingur komist með tærnar þar sem Björgólfur hefur hælana hvað varðar gjafir til góðra málefna. Mikið af því fer ekki hátt, en ég veit margvísleg dæmi þess. Og þá ræðir ekki aðeins um hefbundna góðgerðastarfsemi, heldur líka verkefni eins og hvernig megi lífga Miðbæinn við, sem varðar borgarbúa — nei, landsmenn alla — miklu. Hafi hann þökk fyrir.

En síðan er hitt, að Björgólfur Guðmundsson hefur lifað tímana tvenna og þrenna, en notið þeirrar gæfu að auðgast verulega. Hvers vegna skyldi hann ekki nota hluta þeirra auðæva til þess að gera það, sem hann langar til, svona umfram það að safna rentum af fjársýslu og fyrirtækjarekstri? Engum hefur dulist að hann hefur brennandi ástríðu fyrir fótbolta og þetta líf er of stutt til þess að láta svona tækifæri eiga sig hafi maður bolmagn til. Menn eiga að njóta lífsins.

Áfram KR!


mbl.is Eggert á Upton Park
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hriktir í Bifröst

Brestur er kominn í regnbogasamfélagið á Bifröst, litlu minni en ef Múspellssynir riðu þar. En svo eru auðvitað spaugilegar hliðar málsins. Félagslífið á Bifröst er jafnan skemmtilegt og um daginn var haldin þar spurningakeppni, en spyrillinn var víst enginn annar en margumræddur Runólfur Ágústsson, nýfráfarinn rektor, en hann samdi jafnframt spurningarnar sjálfur. Spurning sex mun hafa hljóðað eitthvað á þessa leið: „ABBA er hljómsveit sem allir eiga að þekkja. Hin alþekkta beitta sænska samfélagsrýni hjómsveitarinnar kom þeim á sínum tíma í fremstu röð. Eitt þeirra bestu laga þeirra hefst á orðunum „Everybody screamed“. Hvert er framhald þeirra orða sem einnig er heiti lagsins?“ Eins og allir vel lesnir menn vita er svarið: „…when I kissed the teacher“. Sannast enn, að raunveruleikinn er lygilegri en nokkur skáldskapur. Ef sagan er sönn, en hún er eiginlega of góð til þess að það skipti öllu máli.

Annars getur þetta sérkennilega Bifrastarmál haft víðtæk áhrif, því nú eru tveir háskólar landsins rektorslausir, Bifröst og Háskólinn í Reykjavík, sem Guðfinna S. Bjarnadóttir er á förum frá. Í báðum tilvikum má finna pólitíska vinkla á. Bryndís Hlöðversdóttir, sem nú starfar sem staðgengill rektors, elur vonir um að vera ráðin í rektorsstól, en mikill kurr er vegna þess í háskólasamfélaginu. Ráðning hennar sem forseta lagadeildar þótti sérkennileg á sínum tíma, enda var hún ráðin án auglýsingar og sjálfsagt engin dæmi um það í alvöruháskólum, að í slíkt virðingarembætti sé fenginn lögfræðingur án framhaldsmenntunar, fræðastarfs, starfa í praxís eða gráðu utan hins almenna prófs.

En auðvitað var ráðning Bryndísar ekki algerlega út í loftið þó eftir sætu akademískar efasemdir. Bryndís sat á þingi fyrir Samfylkinguna þegar hún var ráðin og varamaður hennar hét Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er formaður Samfylkingarinnar og sárvantaði einmitt þingsæti. Runólfur, þáverandi rektor, er vitaskuld kunnur stuðningsmaður hennar í Samfylkingunni, en forseti lagadeildarinnar — sem vék úr sæti fyrir Bryndísi — var Ingibjörg Þorsteinsdóttir, vinkona nöfnu sinnar og dyggur liðsmaður hins fræga framtíðarhóps hennar, sem nú heyrir blessunarlega fortíðinni til. En nú reynir á það hvert Bifrastarlénið fer og kann þá enn að höggvast úr baklandi flokksformannsins, sem veiktist mjög í umliðnum prófkjörum Samfylkingarinnar.


Klofningur eða ekki?

Ég les um það í Fréttablaðinu að klofningur blasi við í Framsóknarflokknum vegna þess að Kristinn H. Gunnarsson hafi ekki fengið þá upphefð, sem hann hefði sjálfur kosið, í póstkosningu framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi. Blaðið vitnar í lærða stjórnmálafræðinga til vitnis um þetta, þá Birgi Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri, og Baldur Þórhallsson, prófessor við Háskóla Íslands. Á hinn bóginn er ekkert minnst á að úrsögn Valdimars Leós Friðrikssonar úr Samfylkingunni sé klofningur, sem þó hún sannanlega er og sá klofningur er þegar orðinn. Hvað þá að sú frétt rati á forsíðu.

Kannski spilar það inn í að Birgir, sem tekur dýpra í árinni en Baldur, hefur verið orðaður við framboð á vegum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Baldur segir Kristin hafa verið fulltrúa hins almenna flokksmanns, sem hafi ekki verið hrifinn af stefnu flokksforystunnar og það komi því á óvart að hann njóti ekki meira fylgis. Já, var það? Af einhverjum ástæðum kaus þó „hinn almenni flokksmaður“ að sitja með hendur í skauti meðan hin 883 manna flokksforysta framsóknarmanna í kjördæminu kaus Magnús Stefánsson.

En aftur að Valdimar Leó, sem ég held að hljóti að vera tapsárasti stjórnmálamaður landsins um langa hríð. Í Fréttablaðinu talar hann um að tap sitt í prófkjörinu (hann sóttist eftir 3. sæti en fékk hið 14.) hafi nánast verið aftaka og kennir svo öllum öðrum um en sjálfum sér.

En hvað þóttist hann eiginlega eiga inni? Í prófkjöri Samfylkingarinnar árið 2002 lenti hann í 6. sæti með 718 atkvæði, var aðeins með ríflega þriðjung atkvæða og fékk því ekki bindandi kosningu, en fékk samt að vera með. Síðan gerist það í fyrrahaust að Guðmundur Árni Stefánsson gerist sendiherra. Varamaður hans, Ásgeir Friðgeirsson, afréð hins vegar að afsala sér þingmennsku til þess að halda áfram margvíslegum störfum fyrir Björgólfsfeðga. Og þá gerðist undrið, að Valdimar Leó fór á þing. Hann virðist hafa talið að með því hafi honum hlotnast lén fyrir guðlega náð og því hefur hann svo megna skömm á þeim vélum, sem valda því að hann verður senn af hnossinu, að hann fer í fýlu alla leið úr flokknum:

Ég ákvað að segja mig úr Samfylkingunni og starfa utan flokka það sem ég á eftir inni á þingi. Það er annars vegar vegna þess að ég er ósáttur við fyrirbrigðið prófkjör, ekki endilega mitt eigið, heldur þessa aðferð til að velja fólk á lista. Mér finnst hún ólýðræðisleg. Hins vegar vil ég fá meira frjálsræði inni á þingi til að vinna að mínum málum.

Það var og. Ég er að vísu engu nær. Ekki frekar en vinir mínir í Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi. Þeir vissu nánast ekkert um þennan þingskörung á þeirra vegum og það sem þeir vissu var ekkert sérlega uppörvandi. Þannig kvað fyrst að honum í þingsölum þegar hann skráði nafn sitt á spjöld hins endurreista Alþingis með því að gera hlé á ræðu sinni um frumvarp til vatnalaga til að kasta af sér vatni. Fram til þessara vatnaskila hafði sá skilningur ríkt að þingmenn héldu sig í ræðustólnum á meðan þeir flyttu mál sitt en sinntu öðrum þörfum að loknum ræðuflutningi.

Eins hnutu margir um það þegar hann sagði í umræðum á Alþingi um heimilisofbeldi og öldungis óvíttur:

Svo virðist því miður sem stjórnarliðum, herra forseti, sé algjörlega sama um ofbeldi á heimilum, ofbeldi sem konur eru fyrst og fremst beittar.“

Guðlaugur Þór Þórðarson varð til svars, þó gáttaður væri, steig í ræðustól og baðst undan aðdróttunum af þessu tagi og sagði að þó menn greindi um margt í sölum Alþingis hefði það fram að þessu ekki hvarflað að neinum að bera upp á menn illar hvatir, hvað þá skeytingarleysi um ofbeldi gagnvart konum og kvaðst vonast til þess að Valdimari hefði einfaldlega orðið fótaskortur á tungu. En þá brá svo við að Valdimar kom aftur upp og sagði orð sín standa!  Þess háttar þrætubók varð honum örugglega ekki til framdráttar, en sjálfum fannst  honum þetta greinilega alveg frábært, því í aðsendri grein í Morgunblaðinu skömmu áður hélt hann því fram að barnaníðingar hafi haft skjól af dómsmálaráðherra! 

Þó Samfylkingunni veiti örugglega ekki af öllu sínu liði í aðdraganda kosninga verð ég að játa að ég hef ákveðinn skilning á því hvers vegna forystumenn flokksins reka ekki upp ramakvein við brottför hans. En maður getur spurt sig í hvers umboði Valdimar Leó sitji áfram á þingi, einn í sínu horni. Hefði ekki verið hreinlegra hjá honum að hætta þessu bara? Það hefði enda hýrnað yfir þingflokki Samfylkingarinnar að fá eðalkratann Jón Kristin Óskarsson til liðs við sig, enda lítur út fyrir að málefni aldraðra verði meðal heitu málanna fyrir kosningar. 


Sykursæt endurkoma

Ég má til með að skjóta því að hér hvað ég hafði einstaklega gaman af 20 ára afmælistónleikum Sykurmolanna á föstudag. Ég var staddur í Duus-húsi fyrir 20 árum þegar Ammæli var frumflutt á pínulitlum útgáfutónleikum og einhversstaðar luma ég enn á plötunni. Þegar ég heyrði tónana úr því öldungis frábæra lagi duna í Laugardalshöll fékk ég gæsahúð. Ég eilítið sentímental á stundum.

En tónleikarnir voru hreint út sagt æði. Ég sá Sykurmolana nokkuð oft hér um árið — miðað við meðal-Íslendinginn að minnsta kosti — og ég held að spilagleðin hafi aldrei verið meiri. Björk var í fantaformi og Einar Örn sló ekki af gömlum töktum (þó hann játaði raunar fyrir mér eftir tónleika að hann hefði betur haft súrefniskút til taks beggja vegna sviðsins!). Sigtryggur hefur sjálfsagt aldrei lamið trumburnar af meira öryggi og það var gaman að sjá að Bragi hefur engu gleymt þó hann hafi um hríð ekki snert bassann. Það leyndi sér heldur ekki hvað hann hafði gaman af þessu. Hið sama má segja um Möggu Örnólfs. Og sjálfur gítarguðinn Þór Eldon, sem fæstir hafa séð bregða svip, mátti ekki halda aftur af breiðu brosinu. Þegar Johnny Triumph steig svo á svið ásamt þeim Örnólfi Eldon og Hrafnkatli Flóka Einarssyni til þess að úrskýra Lúftgítar fyrir þjóðinni var þetta svo fullkomnað. Þið fyrirgefið hrifninguna, en þetta var fyrsta flokks fjölskylduskemmtun.


Varnarmálin

Það er athyglisvert útspilið í öryggis- og varnarmálum landsins, sem kynnt er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þar skrifar Ólafur Þ. Stephensen, aðstoðarritstjóri, margra síðna hlemm, þar sem norskir embættismenn láta í ljós áhuga á að treysta varnir Íslands verði eftir slíku samstarfi leitað, en taka fram að sjálfir muni Norðmenn ekki eiga frumkvæði að því.

Það var og. Aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins var af tilviljun staddur í Ósló og hitti af ámóta tilviljun einmitt þá menn í norska varnarsamfélaginu, sem aðspurðir sögðu allir, að þeim myndi finnast það skynsamlegt — ef íslensk stjórnvöld skyldu af tilviljun brydda upp á slíku — að tekið yrði upp varnasamstarf milli frændþjóðanna, tvíhliða eða innan vébanda Atlantshafsbandalagsins. Þennan áhuga Norðmanna má að miklu leyti rekja til stóraukinna siglinga risavaxinna gasflutningaskipa frá auðlindum í Barentshafi yfir hina djúpu Íslands ála, en þeir telja að lokun varnastöðvarinnar í Keflavík hafa verið óráð hjá Bandaríkjastjórn og lýsa miklum skilningi á áhyggjum íslenskra stjórnvalda á því hvernig varnahagsmunum landsins verði best borgið.

Út af fyrir sig rímar þetta ágætlega við yfirlýsingar Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, um hvernig Íslendingar þurfi í auknum mæli að leita samstarfs við Evrópuþjóðir um varnir landsins. Það er svo annað mál hversu skynsamlegar þær eru. Eða þessi tillaga Norðmanna, sem þeir koma svo lymskulega á framfæri við Morgunblaðið. Nánast af tilviljun.

Raunar er hún sjálfsagt afar skynsamleg út frá norskum hagsmunum. En það er engan veginn sjálfgefið að hún sé vænlegasti kosturinn fyrir Íslendinga.

Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess, að ég er svo mikill sjálfstæðismaður (og ekki aðeins í flokkspólitískum skilningi orðsins) og um leið langminnugur íhaldsmaður í aðra röndina, að ég má þó ekki væri nema af sögulegum ástæðum vart til þess hugsa að Norðmenn eða Danir taki að sér varnir Íslands. Aðra þekki ég svo, sem þykir yfirlæti Norðmanna í garð sinna smáu og fáu frænda hér á Sagaøen alveg nóg fyrir, þó Mare norvegica teygi sig ekki frá Norðurheimsskauti suður að Skotlandi og vestur fyrir Grænland.

En það má líka spyrja hvort Norðmenn hafi bolmagn til þess að halda úti trúverðugum varnarviðbúnaði í samstarfi við Íslendinga hér á norðurhjara. Þar í landi — eins og Ólafur minnist á í grein sinni — hefur verið talsverð umræða um að fjárframlög til hersins hafi dregist svo saman, að á mörkunum sé að hann geti sinn varnarskyldum sínum í Noregi, hvað þá er fjær dregur út í haf. En hvað eftirlit og öryggi sjófarenda er aukið samstarf við Norðmenn tvímælalaust til mikilla bóta, enda er sjálfsagt engin þjóð, sem hefur náð að samþætta varnaviðbúnað sinn og borgaralega innviði með jafnskilvirkum hætti.

Magnist viðsjár hins vegar á Norðurhöfum munu Norðmenn vafalaust hafa nóg með sig og sína. Norðmennirnir sögðust enda ekki geta ábyrgst varnir Íslands, þó þeir efldu eftirlit sitt í nágrenninu. Eins má alveg setja fram spurningar um baráttuþrek þeirra og fælingarmátt, jafnvel þó svo þeir vildu skuldbinda sig til þess að koma Íslendingum til aðstoðar á hættutímum umfram það, sem Atlantshafssáttmálinn býður. Norski heraflinn og þá ekki síst flugherinn er að vísu í þann veginn að ganga í gegnum mestu endurnýjun sína í þrjá áratugi, en hún mun taka tíma. Talið er að hún muni taka um tvo áratugi og kosta hátt í tvær billjónir íslenskra króna (segi og skrifa billjónir, ekki milljarða). Fyrstu freigátunni af fimm hátæknifreigátum (nefndum eftir Friðþjófi Nansen) var hleypt af stokkunum árið 2004 og tekin í gagnið í sumar, en að öðru leyti miðast uppbygging flotans að mestu við strandvarnir (sjöundu lengstu strandlengju heims) og kafbátaleit.

Hins vegar hafa Norðmenn verið að fresta ákvörðun um endurnýjun flugflotans um nokkra hríð, F-16 vélar þeirra eru komnar til ára sinna (aðeins 58 eru í notkun af hinum 72, sem upphaflega voru keyptar), en valið um arftakana stendur aðallega milli Eurofighter og F-35 Lightning II, þó Saab Gripen og Dassault Rafaele gætu líka komið til greina. Það val gæti skipt miklu máli í þessu samhengi, því Eurofighter og Gripen rétt ná að fljúga frá flugherstöðinni í Ørland, skammt frá Þrándheimi, og lenda á síðustu dropunum á Egilsstöðum, meðan F-35 Lightning II og Dassault Rafaele ná að athafna sig yfir landinu í um 10-30 mínútur áður en þær þurfa að lenda á Egilstöðum eða í Keflavík. Norski flugherinn á ekki tankvélar til eldneytisgjafar á flugi, hvað þá flugmóðurskip, svo mikið er í húfi að flugvellirnir á Íslandi séu opnir á ögurstundu, sem er alls ekki gefið þó ekki væri nema vegna veðurskilyrða. Þá þyrfti jafnvel langdrægasta vélin, F-35, að snúa til baka nokkru áður en hún kæmi að austurströnd Íslands. Ýmis teikn eru á lofti um að val Norðmanna kunni að velta á því hvaða vél notar mest af norskri tækni og tækjabúnaði og þar koma skammdrægari vélarnar tvær frekar til greina. Öryggi Íslands kynni því að velta á því hvað gömlu F-16 vélarnar endast lengi, því þær eru mun langdrægari en nýju vélarnar og geta hæglega flogið til Íslands á 40 mínútum, háð loftbardaga í kortér og verið komnar heim fyrir kaffi. Norðmenn ráðgera að leggja þeim á næsta áratug.

En ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær að reifa málið við aðra granna og bandamenn, sem hafa það fram yfir Norðmenn að eiga herflugvelli í talsvert skemmri fjarlægð frá Íslandi, vera flotaveldi auk þess að hafa á sínum snærum einn öflugasta atvinnuher heims, sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna? Breski herinn er vissulega býsna þaninn þessa dagana, en margt bendir til þess að svo verði ekki öllu lengur. Þeir munu hins vegar — ólíkt því sem Norðmenn hafa nú gert — ekki stinga upp á slíku samstarfi að fyrra bragði og jafnframt munu þeir hafa meiri áhyggjur af kostnaðinum. En væri ekki rétt að hreyfa því?

Því enda þótt það sé alveg hárrétt, sem ítrekað hefur verið bent á undanfarin misseri, að engin bein hernaðarógn steðjar að Íslandi um þessar mundir á sama tíma og við blasa annars konar verkefni á sviði öryggis og eftirlits umhverfis landið, þá þýðir það ekki að menn geti leyft sér að láta varnaviðbúnað lönd og leið. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, bendir á í góðum pistli á heimasíðu sinni, að nú þegar sé verið að stórefla Landhelgisgæsluna í ljósi breyttra aðstæðna og víðfeðmari verkefna. En hann spyr líka hvers vegna Ólafur hafi ekki spurt viðmælendur sína hinnar augljósu og rökréttu spurningar hvort Íslendingar þyrftu e.t.v. að sinna landvörnum sínum sjálfir að einhverju leyti. Eftirlátum ráðherranum lokaorðin:

Norðmennirnir voru ekki spurðir að því, hvort Íslendingar ættu að stofna her, af því að við höfum ekki sjálf burði til að ræða málið hér heima fyrir. Á opinberum vettvangi og meðal stjórnmálamanna hafa umræður um þennan þátt íslenskra varna aldrei komist af flissstiginu.


Frost á Fróni

Friðjóni R. Friðjónssyni finnst það hlægilegt að hlusta á viðtal Spegilsins við Trausta Valsson, skipulagsfræðing, sem er nýbúinn að gefa út bók um meint áhrif hinnar meintu hnattrænu hlýnunar, How the World Will Change — with Global Warming. Honum finnst tímasetningin ankannaleg mitt í þessum áköfu heimskautafrosthörkum. Guð hefur magnaða kímnigáfu eins og fjölmörg dæmi sanna og hann tók undir aðfinnslur Friðjóns með því að hjúpa landið í 30-50 cm djúpum snjó.

En þetta er ekkert eindæmi. Erlendis er farið að tala um „Al Gore áhrifin“. Varaforsetinn fyrrverandi, sem á sínum tíma fann upp netið, hefur að ferðast víða um heim til þess að vara við hnattrænni hlýnun og auglýsa mynd sína An Inconvenient Truth, en það er eins og kuldaköst elti hann og fylgismenn hans. Upphaf þessa er jafnan rakið til ræðu, sem Gore hélt í New York árið 2004, en þá urðu mestu kuldar á Nýja Englandi í hálfa öld. Hann er nú staddur í Eyjálfu þar sem þúsundir hafa svarað kalli hans um að mótmæla hnattrænni hlýnun… í roki, rigningu og kulda. Þetta hefur líka gerst í Montreal í Kanada, í Brisbane þar sem mótmælin rigndi niður og feyktust burt og í Byron Bay þurfti að nota mótmælasólhlífarnar til þess að verjast skýfalli.


Faglegistarnir

Vinir mínir á Vef-Þjóðviljanum gera leiðara Steinunnar Stefánsdóttur í Fréttablaðinu síðastliðinn þriðjudag að umtalsefni og eru ekki beint dolfallnir yfir spekinni. Benda þeir á hversu fráleitt það er að gera kynferði fólks að þeirra eina mælikeri, líkt og svo margir virðast mælast til um þessar mundir, ekki síst þegar kemur að því að stilla upp á framboðslista.

Auðvitað er slíkt bjánaskapur, en ég held að þessi umræða öll sé byggð á misskilningi og hugsanaleti. Ef marka má þessa spekinga, ætti helst að setja staðla um skipan framboðslista, svo þeir endurspegluðu þjóðina eða ákveðin viðhorf sem best. Og hvað? Ef slík áform gengju eftir væru auðvitað allir listar eins og til hvers ætti þjóðin þá að ganga að kjörborðinu til þess að velja sama graut í öllum skálum? Væri þá ekki einfaldara að á þjóðþingið væru einfaldlega valdir verðugir fulltrúar þjóðarinnar á faglegum og ópólitískum forsendum að uppfylltum tilteknum skilyrðum? Það væri bara einhver matsnefnd, sem sæi um það? Það er kannski það sem tæknikratarnir helst vildu. Slíkar hugmyndir hafa auðvitað oft komið fram áður undir ýmsum nöfnum, en þær koma lýðræði ekki við. Það mætti kannski stinga upp á nafninu „faglegistar" um boðbera þeirra, sem rímar hreint ágætlega við falangista.

Í því framhaldi svo velta því fyrir sér hvernig kjósendur hafa tekið þeim framboðum, sem hafa reynt að fylgja einhverjum kreddum í uppstillingu framboðslista. Ég man t.d. ekki eftir því að kvennaframboðin hafi sópað að sér kjósendum. Ekki frekar en að einhver sérstök fylgni hafi verið milli fléttulista og fylgis.

Ég á erfitt með að verjast þeirri hugsun, að sumum þyki kjósendur ekki taka nægilega hressilega undir þeirra frábæru framboð og fersku hugmyndir. Og þá á bara að hræra í því hverjir megi bjóða sig fram þar til kjósendur geta ekki annað en „kosið rétt“. 


Íslenskudagurinn

„Dagur íslenskrar tungu“ er nýliðinn. Jafnvel nafngiftin felur í sér þá upphafningu, sem ég held að reynist málinu síst til framdráttar. Eða finnst einhverjum (sem ekki drekkur reglulega te í Norræna húsinu, gengur í fótlaga skóm eða heldur að hann sé skáld) uppskrúfað orðfar aðlaðandi? Mér heyrðist raunar í útvarpsviðtali við Njörð P. Njarðvík, hinn nýbakaða handhafa Jónasarbikarsins í íslensku innanhúss, að hann væri fremur á því.

Ekki er það betra stofnanamálið, sem furðumargir virðast ímynda sér að geri texta á einhvern hátt virðulegri, nú eða „faglegri“ eða bara eitthvað annað en ótínd alþýðan notar í fánýti sínu dags daglega. Þeir skriffinnar lifa í veröld þar sem fólk fer á bifreiðum í söluturna til þess að leigja myndbönd, en hér á Íslandi látum við okkur bíla, sjoppur og spólur duga. Ef maður fyndi óhugnaðinn aðeins í rituðu máli hjá opinberum starfsmönnum væri ástandið kannski þolandi, en einkageirinn fylgdi illu heilli eftir og nú verð ég æ oftar var við þetta hrognamál hjá Jóni og Gunnu, sem maður hefði haldið að væri ekki í smithættu. Það notar ósköpin ekki hversdags, en ég tek eftir því þegar önnur hver sjónvarpsstöðin stingur hljóðnema upp í aumingja fólkið til þess að spyrja frétta eða álits. Þá setja margir sig í einhverjar stellingar, fara að tala um aðila og ferli frekar en fólk og aðferðir.

Alla mína ævi hef ég þurft að hlusta á fólk, sem hefur haft áhyggjur af hnignun íslenskunnar, en samt verð ég nú ekki var við annað en að flest fólk geti talað hana skammlaust þegar á þarf að halda. Sérstaklega þegar það skammast (sem er kannski ástæðan fyrir því hve mörgum finnst Steingrímur J. Sigfússon bera af öðrum þingmönnum í málnotkun að ég segi ekki málflutningi!). Í fyrrnefndu viðtali nefndi Njörður, að hann hefði einna mestar áhyggjur af skeytingarleysi um málið. Ég held hann hafi rangt fyrir sér, flestir sem ég þekki og hitti hafa áhuga á málinu og er sæmilega umhugað um að tala gott mál. En kannski letin komi við sögu, menn nenna ekki alltaf að vanda sig. Kannski það sé skeytingarleysi eða vanræksla.

Eitt tíndi Njörður þó til, sem ég var honum hjartanlega sammála um, en það var að orðaforði hefði jafnt og þétt rýrnað á undanförnum áratugum. Hann rakti það helst til þess að menn læsu ekki jafnmikið og áður og það held ég að sé líka hárrétt hjá honum. En ég ætla ekki að kenna síbyljunni, erlendu sjónvarpsefni eða tölvuleikjum um. Þarna hefur menntakerfið nefnilega brugðist í einu og öllu. Hvað þurfa grunnskólabörn að lesa margar bækur á skólagöngu sinni? Alvörubækur — ekki námsbækur — á kjarnyrtri og góðri íslensku? Ætli þær séu ekki 3-4 alls og þá ekki fyrr en undir lok grunnskóla. Í stað þess, að kenna börnum málið með því að lesa, skrifa og tala, er dýrmætustu námsárunum gereytt í málfræði, setningafræði og ámóta ömurð. Er einhver viðvarandi skortur á málfræðingum, sem mér er ókunnugt um? 

Menn tala varla um íslenskuna án þess að minnast á aðsteðjandi hættur og þá er enskan vinsælasti ógnvaldurinn. Ég hef raunar alltaf verið fremur efins um þá tilgátu og held að hættulegasta málmengunin komi enn frá dönsku eða skandinavísku. Vissulega sletta menn mikið á ensku, en þær slettur eru alltaf augljósir aðskotahlutir, norrænu áhrifin eru hins vegar lymskulegri og leynast betur, enda skyldleikinn miklu meiri. Ensku áhrifin eru hins vegar að aukast og sérstaklega á það við skriffinnamálið, sem ég vék að orðum að ofan, en það ber óneitanlega sterkan keim lélegra þýðinga úr ensku. Nafnorðastíllinn er sjálfsagt að mestu þaðan kominn líka.

En eitt til má nefna illt um enskuna og það þar sem síst skyldi. Einar skáld Benediktsson kvaðst skilja, að orð væri á Íslandi til um allt, sem væri hugsað á jörðu, en auðvitað var það ofmælt. Upp á síðkastið hafa hins vegar margir reynt að gera þetta að sannindum með því að smíða orð um sérhvert hugtak og hlut. Þar eru fremstar í flokki íðyrðanefndir, málstöðvar og þess háttar þing, en enskan — sem er hið alþjóðlega tungumál tækni og vísinda — er ljóslega fyrirmyndin. En þetta starf er einatt á miklum misskilningi byggt, misskilningi á eðli málsins. Oddur biskup Einarsson hafði áttað sig betur á þessu í Íslandslýsingu sinni í upphafi 17. aldar:

Ekki var heldur ætlunin að fjölyrða um auðgi og frjósemi þessarar tungu, svo auðvelt sem er að sýna fram á það, því einu og sama orðtakinu eða orðatiltækinu má í íslensku umbreyta með  margvíslegu móti, og er það ekki síst á færi þeirra, sem handgengnir eru hinni fornu smekkvísi í máli, sem næg verksummerki sjást um í handritum. Er þetta að þakka geysilegum fjölda samheita og undraverðri fjölbreytni í óeiginlegum merkingum orða og talshátta, svo að ef tekið er nákvæmt tillit til orð- og setningarskipunar, verður mál vort alls ekki talið óheflað eða losaralegt. 

Þorsteinn heitinn Gylfason, sem var afbragðsþýðandi og íslenskumaður auk alls hins, sem honum var til lista lagt, kunni einnig á þessu skil. Sumsé að íslenskan þarf ekki orð um hvern hlut, því merking orðanna felst ekki síður í samhengi þeirra. Þannig gefum við þeim merkingu eftir þörfum fremur en að þurfa að eiga eitt og einstakt orð yfir sérhvern hlut og hugtak. Kaffibolli breytist þannig í öskubolla með því einu að drepið sé í sígarettu í honum. Allir skilja orðið, en ætli nokkrum detti í hug að senda seðil um það til Orðabókar Háskólans?

Þess vegna finnst mér merkilegt að Námsgagnastofnun gengst fyrir samkeppni um nýyrðasmíð, þar sem auglýst er eftir íslenskum orðum yfir tíu ensk hugtök, sem talsvert er slett hér.  Ég fæ ekki séð að nokkurt þeirra feli í sér merkingu, sem ekki er þegar til orð yfir á íslensku, sum eru þegar í notkun, önnur eru yfirfærðrar merkingar en myndu hæglega skiljast. Að neðan gef ég dæmi í samræmi við forskrift Námsgagnastofnunar, en það er svo sem skemmtilegt að stofnunin gefur engar skýringar á orðunum umfram samhengið!

casual – Hann var í mjög hversdags fatnaði
crossover – Músíkin hans er flakk milli popps og rokks
date – Ég var að hitta hana lengi
fusion – Á hótelinu er samsuðu-eldhús…
nick – Ég sendi þér nefnið mitt á MSN
outlet – Ég fór í lagerbúð í Bandaríkjunum
skate – Við skautuðum á Ingólfstorgi í gær
surf – Ég þvældist um á Netinu í gær
trendsetter – Hún er mikill hvatamaður í tískunni
wannabe – Hann er uppskafnings-rokkstjarna

Hitt er svo annað mál hvort nokkurt ofangreindra orða nái fótfestu í daglegu máli, enda eru flestar sletturnar á jaðrinum fyrir. Flestir kjósa að nota sletturnar frekar íslensk orð til þess að gefa til kynna að þeir séu sér á parti, tiltekinnar kynslóðar eða ámóta. Og er það ekki allt í lagi? Þegar ég var unglingur tíðkuðust alls kyns orð, sem fáir myndu nota núna kinnroðalaust. En við vildum einmitt temja okkur annað tungutak en við áttum að venjast af foreldrum okkar og kennurum. Plus ça change og allt það.


mbl.is Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband