Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
27.4.2008 | 16:26
Meinsemd í Alþjóðahúsi?
Ég hef stundum látið í ljós efasemdir um hugmyndafræði fjölmenningar, sem nagar hvað ákafast að rótum vestrænnar siðmenningar og ég tel raunar hvíla á siðlausri afstæðishyggju, þar sem allt er lagt að jöfnu. Með þeim afleiðingum að ekkert er í raun nokkurs virði. Flestir talsmenn hennar tala öruglega í góðri trú, en þeir finnast þó líka sem tala fyrir henni í andstyggð á vestrænum viðhorfum.
Hér á landi er Alþjóðahúsið líkast til helsti málsvari fjölmenningarhyggjunnar. Þar er líka að finna ágætt kaffihús, Kaffi Kúltúr, þar sem ýmissa alþjóðlegra strauma gætir. Þar má þó ekki reykja fremur en á öðrum kaffihúsum, sem mér finnst ástæða til þess að mótmæla í nafni fjölmenningar og skil ekkert í að starfslið Alþjóðahúss skuli ekki hafa tekið upp við löggjafann.
En hafa lesendur reynt að leita að Alþjóðahúsinu á Google? Smellið hér til þess að fara á Google og leitið að Alþjóðahúsið, en þá blasir við viðvörun um að vefsetur Alþjóðahúss innihaldi hættulegan hugbúnað, sem valdið geti tölvu notandans tjóni. Hvað á það að þýða?
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.4.2008 | 22:20
Ísland er ekki Nýfundnaland
Hér á árum áður minntust Íslendingar stundum á örlög Nýfundnalands, en löndunum svipaði á margan hátt saman. Afskekkt fiskimannaþjóðfélög, sem fóru að losna úr viðjum nýlendustjórnar um svipað leyti, fólksfjöldi og landrými í svipuðum stærðarflokki. Fyrst og fremst minntust Íslendingar þó þess að Nýfundnalandsmenn gáfu fullveldi sitt upp á bátinn eftir verulegar efnahagsþrengingar (löngu áður en miðin þar voru þurrausin), en ríkið var einfaldlega á leiðinni í gjaldþrot þegar Bretar tóku það aftur að sér, en síðar varð það hluti Kanada.
Það sem ég vissi ekki, var að Nýfundnalandsmenn munu líka stunda þessa íþrótt, að bera sig saman við Íslendinga. Bendi á litla grein af þeim toga, meira til gamans en gagns.
18.4.2008 | 18:31
Skinhelgi Svandísar
Hneykslan Svandísar Svavarsdóttur vegna málefna REI er stórmerkileg. Sérstaklega ef hún er borin saman við orðræðu hennar um REI fyrir og eftir meirihlutaslitin í haust.
Meðan Svandís var í minnihluta átti hún varla til nógu sterk orð til þess að lýsa ástandinu, sem hún sagði brýnt að bæta úr með afgerandi aðgerðum, ekki seinna en strax. Daginn eftir að hún komst í meirihluta var hins vegar mikilvægast að róa umræðuna og síðan var bara haldið áfram í rólegheitum á þeirri braut, sem hún hafði ákafast varað við. Og þrátt fyrir hina gagnmerku skýrslu stýrihópsins (sem flestir verða mærðarlegir í framan við það eitt að nefna nú, en flestir játuðu á sínum tíma að væri óttalegur bastrður) fyrirhugaði Svandís & co. að dæla nokkrum milljörðum til viðbótar úr OR í REI. Hún minnist aldrei á það.
En nú er Svandís full heilagrar reiði á ný og lætur dæluna ganga. Sú skinhelgi er farin að minna á leikræna tilburði Steingríms J. Sigfússonar, sem margir hrífast að öðru hverju. En þeir geta fæstir hugsað sér að kjósa hann þegar til kastanna kemur. Mér sýnist Svandís vera að festast í sömu rullu.
Maður skilur hins vegar ekki af hverju henni sárnar svona núna. Eru hugmyndir um að njörva niður hlutverk REI og stöðva frekari áhættufjárfestingu virkilega henni á móti skapi? Hafa þá fleiri snúist í afstöðu sinni en Svandís kemur auga á.
Þarna er kannski fundinn helsti Akkilesarhæll Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs: Hún veit upp á hár hverju hún er á móti (nánast öllu), en á afar erfitt með að finna nokkurn skapaðan hlut, sem hún er með. Það skýrir sjálfsagt líka hversu erfiðlega henni hefur gengið að komast í meirihluta- eða stjórnarsamstarf.
Ekki boðlegt borgarbúum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.4.2008 | 10:13
Hræsni Fréttablaðsins
Fréttablaðið lætur mikið með 30.000 poka, sem það dreifir ókeypis á næstunni, en þeir eru sagðir sérstakar endurvinnslutöskur fyrir dagblöð. Með þessu vilja aðstandendur Fréttablaðsins efla vitund um umhverfisvernd og nýtingu verðmæta, en haft er eftir Jóni Kaldal, ritstjóra blaðsins, klökkum yfir eigin gæsku, að það sé nánast skylda þeirra sem standa að útgáfu Fréttablaðsins að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja til þess að dagblöð rati í endurvinnslu í stað þess að vera hent með öðru heimilissorpi.
Er það já? Nú þegar hefur meirihluti landsmanna verulegt ómak af dreifingu fríblaða og ruslinu, sem þeim fylgja. En það er ekki nóg fyrir þessa herra, heldur vilja þeir auka ómakið af sínum völdum enn frekar, þannig að við berum draslið út í endurvinnslu fyrir þá. Framtak Fréttablaðsins má þó ekki síður rekja til umhyggju aðstandenda þess fyrir heilsu fórnarlambanna:
Göngutúrar með blaðberann, endurvinnslupoka Fréttablaðsins, geta bæði verið örstuttir í blaðatunnuna heima, eða lengri til heilsubótar í næsta grenndargám.
Já, þakka ykkur fyrir! Ég hef áður skrifað um blaðatunnuna en með henni býðst borgurum Reykjavíkur að borga 7.400 krónur á ári fyrir að sérflokka blöð. Er máske ekki vanþörf á, því eftir sem Fréttablaðið og Blaðið hafa aukið útbreiðslu sína hefur blaðasorpið margfaldast. Í fyrra var sagt að 30% af því sorpi sem fer í ruslatunnur heimila í Reykjavík séu dagblöð, tímarit og annar prentaður pappír. Borgarbúar henda þeim flestir með öðru sorpi og er blaðaruslið um þriðjungi umfangsmeira í heimilishaugnum en matarleifar. Pappírsmagnið, sem hent er af heimilum, jókst um 76% frá 2003-2007.
Það er óþolandi að eitthvert lið úti í bæ geti bakað samborgurum sínum ómak og kostnað með því að senda þeim drasl óumbeðið. Nær væri að leggja sérstakt sorpgjald á útgáfurnar og einfalt mál að mæla hvað hverjum ber að gjalda fyrir, því fríblöðin keppast við að miklast af útblásnum upplagstölum. Það er þá rétt að miða við þær og láta útgáfurnar borga allan sorphirðukostnað, sem hlýst af afurðum þeirra.
En það er einmitt málið á bak við sorppoka Fréttablaðsins: Þetta er aumkunarverð tilraun til þess að komast hjá því að borga gjald af því taginu og hælast af því um leið hvað þeim sé umhugað um umhverfið. Á annara kostnað. Hvílík hræsni!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.4.2008 | 11:59
Brúðkaup og geitkaup
Þessi frétt vakti örlitla umræðu við morgunverðarborðið á hamingjuheimilinu. En segir það ekki sína sögu að eftir lestur fréttarinnar vitum við meira um geitina og kosti hennar en eiginkonuna?
Eiginkonuna fyrir geit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2008 | 11:58
Kennari kvaddur
Mér þótti dapurlegt að lesa það í Morgunblaðinu í morgun að Jón S. Guðmundsson, íslenskukennari við Menntaskólann í Reykjavík, væri látinn. Þrátt fyrir að Jón Gúm (líkt og hann var oftast kallaður af nemendum) hefði aldrei verið kennari minn utan 2-3 forfallatíma, fékk ég samt notið leiðsagnar hans í nokkrum mæli.
Jón var aldrei sínkur á tíma sinn þegar kom að því að leggja menntaskólanemum og íslenskunni gott til og ég naut þeirrar gæfu að kynnast honum talsvert vegna útgáfu Skólablaðsins, sem ég var nokkuð viðloðandi í skólatíð minni. Jón annaðist jafnan prófarkalestur blaðsins og var meira að segja ábyrgðarmaður þess, en sá vanþakkláti starfi var vitaskuld launalaus.
Þegar Jón skilaði próförkum af sér var ekki aðeins búið að leiðrétta villurnar, heldur gaf hann sér tíma til þess að útskýra fyrir okkur ástæðurnar, benda á annað sem betur mætti fara og leggja okkur heilt til um stíl. Jón gaf engan afslátt þegar íslenskan var annars vegar, en það gat verið erfitt að tjónka við óstýriláta og stæriláta unglinga, sem allt þóttust vita og geta og hikuðu ekki við að bera fyrir sig tjáningarfrelsi, höfundarrétt og skáldaleyfi til þess að réttlæta vitleysuna! Jón þekkti til allrar hamingju sitt heimafólk og sagði okkur til af slíkri hæversku og rósemi að ómögulegt var að leiða ábendingar hans hjá sér. Til allrar hamingju fyrir okkur og lesendurna.
Ég áttaði mig ekki á því þá, en auðvitað var Jón að kenna okkur. Að því bý ég enn ríkulega og hygg að svo sé um aðra þá er nutu hennar. Jón S. Guðmundsson var nefnilega ekki aðeins kennari að starfi, heldur af köllun og eðli. Það var því vel til fundið þegar þessum framúrskarandi kennara voru veitt verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á íslenskudeginum árið 2003, en myndin að ofan er tekin við það tækifæri þegar Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra, afhenti honum viðurkenninguna. Jón unni íslenskunni af lífi og sál og náði að kveikja sama neista í brjóstum þúsunda nemenda á hálfrar aldar löngum kennsluferli.
Blessuð sé minning Jóns S. Guðmundssonar og hafi hann þökk fyrir ævistarfið.
Vísindi og fræði | Breytt 10.4.2008 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.4.2008 | 01:03
Úti er alltaf að snjóa...
Eitt ágætasta (og angurværasta) lag Prince heitir Sometimes it Snows in April og það má finna hér í lagalistanum til hægri. Mér datt það í hug þar sem ég horfi út um gluggann og sé snjónum kyngja niður. Og ég sem hélt eitt augnablik í dag að vorið væri komið!
Hvernig stendur á þessu? Og svo mundi ég að Al Gore hefði stigið fæti sínum á landið. Við erum aðeins nýjustu fórnarlömb Al Gore áhrifanna. Hvarvetna sem hann kemur og opnar munninn virðast náttúruöflin eða almættið keppast við að afsanna tilgátur hans og málflutning.
Fyrirsögnin hér að ofan er hins vegar fengin úr smiðju þeirra frjóu bræða Jóns Múla og Jónasar Árnasona, en þannig hljóðar upphaf söngs jólasveinanna í söngleiknum Deleríum Búbónis. Eitt erindið gæti verið ort til Gore:
Heill sé þér, stjórngarpur slyngi!
Já, hver er betri í faginu
hjá Frelsisbandalaginu?
Þú átt að vera á þingi
með sjálfum kjaftaskjóðunum
hjá Sameinuðu þjóðunum.
Ég held varl' að langtími líði
áður en á hankanum
í Alþjóðlega bankanum
hangi þinn hattur með prýði.
Húrra fyrir mér og þér!
Annars lenti einn vinur minn í því að aka í sakleysi sínu eftir Sæbrautinni þegar bílalest lögreglubíla, blendingslímósínu forseta og annars fylgdarliðs renndi upp að hliðinni á honum og silaðist svo fram úr honum. Hann leit til hliðar og sá hvar forsetinn var að útskýra eitthvað fyrir varaforsetanum fyrrverandi og var mikið niðri fyrir, með fingur á lofti. Gaman væri að vita hvað þeim spekingunum fór á milli. Og hvað Gore hugsaði:
Af hverju var ég ekki kosinn forseti? Hvað væri ég þá að gera núna? Af hverju var hann kosinn forseti?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 00:19
Freiheit und Frieden durch Kraft
Ég er ekki viss, en ég er ekki frá því að ámóta slagorð hafi heyrst á vitlausum áratugi í Þýskalandi á síðustu öld. En þetta á sumsé að vera inntak hinnar nýju og endurbættu ímyndar Íslands ef farið verður að ráðleggingum ímyndarnefndar forsætisráðherra.
Nefndin skilaði yfirgripsmikilli skýrslu um viðfangsefni sitt eftir hálfs árs umhugsun. Í nefndinni sátu þau Svafa Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík og formaður nefndarinnar, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Jón Karl Ólafsson, forstjóri JetX/Primera Air, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Sverrir Björnsson, framkvæmdastjóri hönnunarsviðs Hvíta hússins. Allt hið mætasta fólk og skýrslan ber það með sér að það sló ekki slöku við að inna starf sitt af hendi.
Á hinn bóginn verður seint sagt að niðurstöðurnar séu frumlegar. Eða sérstaklega líklegar til þess að skila tilætluðum árangri.
Þvaðrið um kraft, frelsi og frið segir eiginlega allt sem segja þarf.
Nefndin leggur til að ímyndaruppbygging Íslands miði að því að skapa jákvæða og sterka ímynd af fólki, atvinnulífi, menningu sem og náttúru. [...] Nefndin leggur til að kjarninn í ímynd Íslands sé kraftur, frelsi og friður.
Með hvaða hætti á það að aðgreina Ísland frá flestum öðrum löndum hins siðmenntaða heims? Eða bæta einhverju við þá óljósu hugmynd, sem útlendingar hafa um þetta sker við Grænlandsstrendur? Til þess að undirstrika þessa loðnu óra er birt skýringarmynd í skýrslunni, sem ég sver og sárt við legg að er ekki grín af minni hálfu:
Ekki skánar ástandið þegar farið er að ræða hvernig boða eigi fagnaðarerindið. Af skýrslunni verður vart annað ráðið en að nánast sé búið að stofna sérstaka ríkisstofnun til þess að sinna þeim verkefnum, en hún skal heita Promote Iceland.
[...] þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu, fjármálastarfsemi, menningarlífi og þekkingariðnaði kæmu til samstarfs við hið opinbera. Með þessu móti yrði mun auðveldara að móta og styrkja ímynd sem byggði á samhæfðum skilaboðum og sameiginlegu merki og sem tengdi saman kynningarþáttinn í starfsemi stofnana eins og Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu að ógleymdri utanríkisþjónustunni sem einnig gegnir afar mikilvægu kynningarhlutverki. Einnig lægi beint við að tengja inn í slíkan vettvang kynningarþátt verkefna eins og Film in Iceland, Útflutningsskrifstofu tónlistarinnar, Kynningarmiðstöð myndlistarinnar o.fl. Brýnt er að verkefni, hlutverk og ábyrgð þess vettvangs yrðu mjög vel skilgreind.
Promote Iceland þarf að hafa fasta starfsmenn sem lúta stjórn sem skipuð er fulltrúum stjórnvalda og þeirra málaflokka sem Promote Iceland kæmi til með að starfa hvað mest fyrir. Hlutverk Promote Iceland er að bera ábyrgð á og samræma ímyndarstarf fyrir Íslands hönd. Í því felast m.a. eftirfarandi verkefni:
- Fylgjast með ímynd Íslands og þróun hennar.
- Miðla upplýsingum til uppbyggingar á sterkri og jákvæðri ímynd Íslands.
- Samræma aðgerðir sem snerta ímyndarmál Íslands.
- Bregðast við neikvæðri umfjöllun sem snertir íslenska hagsmuni (e. crisis management).
- Veita opinberum aðilum og atvinnulífi þjónustu við framkvæmd ímyndar- og kynningarverkefna tengdum Íslandi.
Það verður gaman að sjá hvernig hinni nýju ríkisstofnun mun ganga við að laga það, sem Útflutningsráði, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu, að ógleymdri utanríkisþjónustunni hefur mistekist að halda til haga á umliðnum árum (ella væri þessa ímyndarátaks ekki þörf eða hvað?). Vitaskuld í samstarfi við Útflutningsráð, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu, að ógleymdri utanríkisþjónustunni.
Það er þó ekki fyrst og fremst við nefndarmenn að sakast í þessum efnum, þeir gerðu eins vel og þeir kunnu og gátu. Mistökin liggja hjá verkkaupanum. Þegar ætlunin er að sigra heiminn er ekki ráðlegt að reiða sig á lókal talent, jafnágætur og hann kann að vera. Tala nú ekki um þegar aðsteðjandi ímyndarvandi er jafnbrýnn og raun ber vitni.
Hér á landi er enginn, sem kann til verka á þessu sviði. Svo einfalt er það. En jafnvel þó svo væri hygg ég að það væri varhugavert að fá hann til þessa starfa. Rétt eins og ímyndarnefndarmennirnir stæði hann of nálægt viðfangsefninu. Við Íslendingar höfum margvíslegar hugmyndir um land og þjóð, eflaust góðar hver fyrir sinn hatt, en þær henta tæpast til útflutnings. Þegar um er að ræða jafnviðamikið og óhlutbundið verkefni og ímyndarvanda alheimsins um Ísland veldur íslenskt þjóðerni umsvifalausu vanhæfi.
Þeim mun einkennilegra er að lesa af skýrslunni að lagst hefur verið í mikla rýnihópavinnu um ímynd Íslands, bæði til þess að greina vandann og finna lausnir. Capacent ræddi við fimm rýnihópa og sjálf skipulagði nefndin eigin rýnihópa, þannig að rætt var við á annað hundrað manns. Tveir rýnihópar Capacent voru mannaðir á höfuðborgarsvæðinu, tveir á Akureyri og einn á Ísafirði! Rýnihópar nefndarinnar voru allir héðan úr höfuðstaðnum (aðallega hagsmunaaðilar og þeir sem hafa sinnt landkynningu með þessum líka árangri til þessa), nema einn... en það voru viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar. Síðastnefndi hópurinn hefur sjálfsagt nokkuð fram að færa, en hinir? Maður hristir bara höfuðið. Niðurstöðurnar voru enda fullkomlega fyrirsjáanlegar flatneskjur, sem enginn veit hvort er í nokkru samhengi við ímynd Íslands í hugum útlendinga. Eða voru þeir kannski aldrei markhópurinn?
Úti í hinum stóra heimi eru til alþjóðleg fyrirtæki, sem sérhæfa sig í verkefnum af þessu tagi. Greina ástandið og markmið viðskiptavinarins, gera tillögur um úrbætur og hrinda þeim í framkvæmd, einatt með misjöfnum áherslum eftir löndum og heimshlutum. Þau sinna bæði auglýsingagerð og almannatengslum, finna talsmenn ef þörf er á og sum hafa jafnvel hálfopinbera erindreka (lobbýista) á sínum snærum ef þörf krefur. Dæmi um slík fyrirtæki eru Weber Shandwick, Ogilvy, Fleishman-Hillard, Burson-Marsteller, Hill & Knowlton og Huntsworth. Það kostar skildinginn að nota þjónustu fyrirtækja þessara, en þau kunna sitt fag og hafa sum náð að bæta málstað jafnvel ömurlegustu einræðisríkja. Ætli þau hefðu ekki eitthvað betra til málanna að leggja en ímyndarnefndin góða? Fyrir lítið, meinlaust og gott land eins og Ísland?
En nei, kraftur, frelsi og friður skal það vera. Power, Freedom & Peace! Hljómar eins og eitthvað frá Woodstock. 68-kynslóðin er greinilega komin til valda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar