Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.10.2007 | 14:07
Fjárlagaboginn spenntur
Þá er fjárlagafrumvarpið komið og það fór fram úr mínum myrkustu martröðum. Eins og ég hafði tæpt á í færslunni um fund Geirs H. Haardes, forsætisráðherra, þótti mér líklegt að aukning ríkisútgjalda yrði á bilinu 8-10%. Því var raunar haldið fram af Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, að útgjaldaaukningin næmi um 8%, en sá útreikningur er hæpinn í meira lagi. Þá lítur ráðherrann til áætlana um heildarútgjöld ríkisins fyrir 2007 að meðtöldum fjáraukalögum og því öllu og ber hið nýja fjárlagafrumvarp saman við það. Hvaða líkur standa til þess að útgjöld vegna 2008 verði aðeins þau, sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu? Eru uppi áform um að leggja af fjáraukalög?
Nei, því er ekki þannig farið og raunar frekar varlegt að áætla að hlutföllin milli fjárlaga og endanlegra reikningsskila verði hin sömu. Hinn rétti mælikvarði er vitaskuld að bera saman fjárlög 2007 og fjárlög 2008, en þar til frumvarpið verður afgreitt sem lög höfum við ekki annað í höndunum en frumvarpið. Við getum a.m.k. verið nokkuð viss um að ekki munu upphæðirnar lækka í meðförum þingsins.
Lítum þá á fjárlagafrumvarpið, A-hluta þess, nánar til tekið. Þar inni eru ráðuneytin öll, æðsta stjórn ríkisins og vaxtagjöld ríkissjóðs. Í sjálfu sér eiga vaxtagjöldin ekki heima þarna, þau eru ekki rekstarkostnaður í neinum skilningi, en látum gott heita, þau lækka meðaltal útgjaldaaukningarinnar eilítið, sem þá vegur að einhverju leyti upp á móti verðbólgunni, sem ekki er tekið tillit til í þessum tölum. Væri hún tekin með lækkaði útgjaldaaukningin sjálfsagt um 2% í viðbót, en ég læt þar vera; í fjárlagafrumvörpum er enda reynt að gera ráð fyrir verðbólgu fyrirfram.
En svona lítur þetta þá út samkvæmt frumvarpinu, í milljörðum talið:
Fjárlög 07 | Frumv. 08 | Mismunur | |
Æðsta stjórn ríkisins | 3,310 | 3,183 | -3,85% |
Forsætisráðuneyti | 1,187 | 1,311 | 10,46% |
Menntamálaráðuneyti | 46,252 | 50,958 | 10,17% |
Utanríkisráðuneyti | 9,708 | 11,766 | 21,20% |
Landbúnaðarráðuneyti | 13,822 | 14,016 | 1,41% |
Sjávarútvegsráðuneyti | 3,004 | 3,394 | 13,01% |
Dóms- og kirkjumálaráðuneyti | 20,815 | 23,432 | 12,57% |
Félagsmálaráðuneyti | 32,698 | 40,198 | 22,94% |
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti | 144,649 | 156,603 | 8,26% |
Fjármálaráðuneyti | 36,386 | 48,760 | 34,01% |
Samgönguráðuneyti | 23,329 | 42,345 | 81,51% |
Iðnaðarráðuneyti | 4,256 | 4,680 | 9,96% |
Viðskiptaráðuneyti | 1,669 | 1,860 | 11,47% |
Hagstofan | 0,595 | 0,629 | 5,64% |
Umhverfisráðuneyti | 4,951 | 5,456 | 10,20% |
Vaxtagjöld ríkissjóðs | 20,630 | 21,764 | 5,50% |
Alls | 367,260 | 430,355 | 17,18% |
Sem sjá má er útgjaldaaukningin meiri en tvöföld sú, sem fjármálaráðherra boðaði. Jafnvel þó svo við reiknuðum verðbólguna inn í og væri hún aðeins rétt tæplega tvöföld.
Ég er auðvitað bara úr máladeild, dæmi eru um að Excel reikni ekki alltaf rétt og ég er viss um að tölspekingar fjármálaráðuneytisins geta nefnt hitt og þetta, sem þurfi að taka með í reikninginn til þess að dæmið líti betur út. Það kann jafnvel að vera sanngjarnt að horfa til einhvers af því. En það verður bitamunur, ekki fjár.
Svo á ég alveg eftir að fara út í þá sálma í hvað þessum gegndarlausum fjármunum er varið. Það verður efni í lengri færslu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2007 | 04:29
Lífsleikni 201
Það má rétt vera að ekki sé unnt að láta lokið við tilsögn í lífsleikni fyrir átta ára aldur, þó undirstöðuatriðinum sé komið á hreint þá. Þegar krakkar fara að stálpast blasa við ný viðfangsefni og nýr vandi. Þá mætti halda framhaldsnámskeið í lífsleikni, helst ekki síðar en um 13 ára aldur. Það er alltof seint að fara að halda því að fólki í menntaskóla.
Ég ætla ekki að gera lesendum það að birta þann bálk allan, en hann heitir Hávamál og stendur fyllilega fyrir sínu, þó uppruninn sé aftur í grárri forneskju en við kunnum fyllilega skil á. Það má lesa þau öll á netútgáfu Snerpu. Þar er tæpt á öllu því, sem er verið að býsnast við að kenna í lífsleikni í Menntaskólanum í Kópavogi, og miklu, miklu meira.
læri að meta áhuga- og hæfnisvið sín á gagnrýninn og raunhæfan hátt
Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.
[ ]
Skósmiður þú verir
né skeftismiður,
nema þú sjálfum þér sér.
Skór er skapaður illa
eða skaft sé rangt,
þá er þér böls beðið.
þjálfist í að skoða sjálfan sig og aðra á gagnrýninn og uppbyggjandi hátt
Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.
[ ]
Það er enn um þann
er þú illa trúir
og þér er grunur að hans geði:
hlæja skaltu við þeim
og um hug mæla.
Glík skulu gjöld gjöfum.
þjálfist í að tjá og fylgja eftir skoðunum sínum, tilfinningum og hugðarefnum á opinberum vettvangi og í vinahópi
Kópir afglapi
er til kynnis kemur,
þylst hann um eða þrumir
Allt er senn,
ef hann sylg um getur,
uppi er þá geð guma.
fái tækifæri til að taka þátt í og njóta list- og menningarviðburða
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.
læri að taka ábyrga afstöðu til kynlífs
Og nær morgni,
er eg var enn um kominn,
þá var saldrótt sofin.
Grey eitt eg þá fann
innar góðu konu
bundið beðjum á.
[ ]
Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Annars konu
teygðu þér aldregi
eyrarúnu að.
taki ábyrga afstöðu til fíkniefna og lyfja
Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.
[ ]
Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var'g
í garði Gunnlaðar.
geti átt auðgandi og gefandi samskipti við einstaklinga óháð kyni, kynferði, þjóðerni, trú og líkamlegu og andlegu atgervi
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.
[ ]
Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handarvanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé:
Nýtur manngi nás.
læri að taka ábyrga afstöðu sem neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi
Mikið eitt
skal-a manni gefa:
Oft kaupir sér í litlu lof.
Með hálfum hleif
og með höllu keri
fékk eg mér félaga.
læri að umgangast sjálfan sig og umhverfi sitt af virðingu
Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann æva-gi
síns um mál maga.
30.9.2007 | 02:50
Lífsleikni 101
Í athugasemdum við færslu um lífsleikni hér að neðan er meðal annars sett fram sú rhetoríska spurnig hvort lestur ljóða sé ekki ámóta tímaeyðsla á skólagöngunni og lífsleikni. Ég held reyndar alls ekki að svo sé. Því birti ég hér á eftir námskeiðið Lífsleikni 101 í heild sinni, eins og síra Hallgrímur Pétursson gekk frá því. Það má kenna og temja börnum á nokkrum stundum fyrir átta ára aldur.
Heilræði
Ungum er það allra best,
að óttast Guð, sinn herra,
þeim mun viskan veitast mest,
og virðing aldrei þverra.
Hafðu hvorki háð né spott,
hugsa um ræðu mína,
elska Guð og gjörðu gott,
geym vel æru þína.
Foreldrum þínum þéna af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljir þú gott barn heita.
Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra
Aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.
Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.
Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.
Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.
Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta.
Varast spjátur, hæðni, hlátur;
heimskir menn sig státa.
Víst ávallt þeim vana halt:
vinna, lesa, iðja,
umfram allt þó ætíð skalt
elska Guð og biðja.
28.9.2007 | 22:30
Lífsleikni í MK
Ég les hjá Birni Bjarnasyni að hann hefur verið að fá fyrirspurnir frá Kópavogi, nokkuð á misskilningi byggðar:
Greinilegt er, að lífsleiknikennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur bent nemendum sínum á að senda mér tölvuspurningar um refsingar og þyngd þeirra. Þetta sannar mér enn, hve nauðsynlegt er, að kenna nemendum, að dómarar ákveða þyngd refsinga en ekki dómsmálaráðherra. Alþingi ákveður refsirammann með lögum en dómarar, hve mikið af honum er nýtt hverju sinni.
Áhyggjur Björns, fyrrverandi menntamálaráðherra, eru skiljanlegar, því ekki verður annað af færslu hans skilið en að menntaskólakennari í lífsleikni átti sig ekki á undirstöðuatriðum í stjórnskipulagi landsins. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort ábendingar kennarans um fjöldafyrirspurnir til dómsmálaráðherra séu í einhverjum öðrum tilgangi en einungis til uppfræðslu nemendanna.
En ég hjó eiginlega eftir öðru. Lífsleikni í menntaskóla?! Hér ræðir um fólk á barmi þess að vera fullorðið og það er verið að kenna því lífsleikni. Nasasjón sú, sem ég hef af þeirri námsgrein í grunnskólum, varð ekki til þess að efla tiltrú mína á menntakerfinu, námskrárgerð eða virðingu pedagóga fyrir tíma skjólstæðinga sinna.
Ég hef hins vegar ekki nennt að fetta fingur út í það, því það er ekkert nýtt að grunnskólar séu öðrum þræði dagvistarstofnanir. Þannig var það líka þegar ég var að slæpast þar fyrir 30 árum eða svo. En þurfi fólk að læra lífsleikni í menntaskóla leyfi ég mér að draga í efa að það sé nægilega vel undirbúið til þess að eiga erindi í menntaskóla. Sem aftur leiðir til spurninga um hvort það sé endilega hið eina rétta hlutverk íslenska menntakerfisins að gera stúdenta úr öllum, sama hvað það kostar. Sama hvaða fræði eru lögð til grundvallar eða ekki. En það er nú efni í aðra færslu.
18.9.2007 | 10:02
Meira um minningagreinar
Fyrir hálfu ári, upp á dag, skrifaði ég athugasemd hér á blogginn um það hvernig Morgunblaðið væri í heljargreipum minningagreina, þær tækju of mikið rými, klyfu blaðið í herðar niður og hindruðu eðlilegar breytingar á því. Ég gerði mér vitaskuld grein fyrir því, að þær væru hluti af því, sem gerði Morgunblaðið að Mogganum okkar, og hluti af því, sem gerir Ísland að Íslandi. En samt taldi ég að þessu þyrfti að breyta með einhverjum hætti og nefndi sitthvað um það, sem gera mætti til þess:
Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti.
Viðtökur lesenda minna við þessum hugmyndum voru almennt vinsamlegar, þó einhverjir hefðu áhyggjur af því að blaðið færi að stunda mannajöfnuð með þessum hætti, að draga hina horfnu í dilka merkismanna og annarra. Ég benti hins vegar á, að þó við vildum allt til vinna til þess að fólk væri jafnrétthátt í lífinu, mætti vel viðurkenna það, að fólk hefði misjafnlega unnið úr sjálfu sér og tækifærum lífsins og að slík uppgjör væru fullkomlega við hæfi að leiðarlokum. Engin ástæða væri til þess að reyna að jafna um menn, einmitt þegar stóri jafnaðarmaðurinn, sláttumaðurinn slyngi, væri nýbúinn að gera þá hnífjafna.
En fólk getur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Peningasöfnun liðþjálfa í Hjálpræðishernum getur þannig reynst þyngri á metunum í þessu samhengi en auðsöfnun moldríks verðbréfagosa. Eða góður barnakennari merkari en menntamálaráðherra. Jafnvel Paris Hilton (sé hún dauðleg) gæti uppskorið minningargrein, ekki endilega vegna framlags hennar til mannsandans heldur kannski fremur vegna þess sem frægð hennar segir okkur um mannseðlið.
Nú sýnist mér að Morgunblaðið sé að feta einhverja braut í líkingu við þá, sem ég nefndi. Upp á síðkastið hefur blaðið fengið ýmsa vel ritfæra menn eða eigin blaðamenn til þess að skrifa minningargreinar um valda menn á miðopnu blaðsins, en meiri heiður getur Morgunblaðið ekki sýnt mönnum. Og það eru ekki aðeins menningarpáfar, stjórnmálamenn eða aðrir fínimenn, sem hljóta þann sess; í gær skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson fallega og persónulega grein, sem samt átti erindi við lesendur alla, um Ásgeir Elíasson, fótboltaþjálfara, sem varð bráðkvaddur í liðinni viku.
Nú vona ég aðeins að blaðið haldi áfram á þessari leið, birti áfram dánarauglýsingar og æviágrip, líkt og birt eru nú þegar í upphafi minningagreina, en taki afganginn inn á Netið með loforði um að þar verði ævarandi bautasteinn. Það er ekki dýrt og verður æ ódýrara. Hið eina, sem ég sé að gæti verið verra í því samhengi, er að í ljósi þeirra kynslóða, sem hverfa næstu áratugi, er viðbúið að afreksmennirnir þyki fleiri karlkyns en kvenkyns. Það má treysta því að tölfræðifemínistarnir haldi því til haga. En í millitíðinni geta þeir kannski talið dálksentimetrana eins og þeir birtast um náina núna og kyngreint þá.
16.9.2007 | 17:18
Kynjamyndir kvikmynda
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kennir ýmissa grasa að venju. Þar má meðal annars finna tvö viðtöl við tignendur Thalíu, þau Silju Hauksdóttur, leikstjóra, og Jóhann Ævar Grímsson, handritshöfund. Silja leikstýrði kvikmyndinni Dís á sínum tíma (og skrifaði handritið upp úr samnefndri metsölubók, sem hún var einn þriggja höfunda að), en í sumar leikstýrði hún næstu röð Stelpnanna fyrir Stöð 2. Ævar skrifaði handritið að Astrópíu og er einn handritshöfunda Næturvaktarinnar, grínþáttaraðar sem Stöð 2 hefur sýningar á í kvöld. Þau eru á svipuðu reki og fljótt á litið á svipuðum stað í lífinu, en Inga Rún Sigurðardóttir tók bæði þessi viðtöl.
Það hefði því ekki komið manni á óvart þó viðtölin tvö hefðu verið nokkuð keimlík, en það er öðru nær. Auðvitað eru þau Ævar og Silja ólíkt fólk, ég kannast við þau bæði, og aðkoma þeirra að kvikmyndagerðinni var með sitt hvorum hættinum. En meðan Ævar er augljóslega himinlifandi yfir að hafa ná sér á strik í þessum harða bransa er Silja mun reyndari og það skín í gegn. Ég held að allir þeir, sem hafa áhuga á kvikmyndagerð hafi gagn og gaman af því að lesa þessi viðtöl og bera þau saman.
Viðtalið við Silju er umfangsmeira og því er gert hærra undir höfði með tilvísun og stórri mynd á forsíðu. En forsíðutilvísunin er eilítið skrýtin, finnst mér. Fyrirsögnin er Sögur af báðum kynjum og undirfyrirsögnin er ❚ Fleiri kvenleikstjórar samfélagsleg nauðsyn ❚ Íslendingar aftarlega. Síðan er haft eftir Silju:
Það er staðreynd að það er alltof lítið af kvenleikstjórum á Íslandi. Það er augljóst að það að gera bíómyndir er listræn ábyrgðarstaða sem krefst gríðarlegra fjármuna og fjármögnunar. Peningarnir og aðgangur að fjármagni er eitthvað sem hefur áhrif á þetta jafnvægi og raskar þess vegna kynjahlutfallinu. Því er miður og þessu verður að breyta. Það er samfélagsleg nauðsyn að sögurnar okkar séu sagðar af báðum kynjum til jafns ef við ætlum að halda því fram að þær endurspegli samfélag okkar á raunsæjan hátt, segi okkur eitthvað um okkur sjálf.
Af þessu mætti draga þá ályktun að Silju sé mjög heitt í hamsi vegna þessa og það væri hennar helsta erindi í kvikmyndagerð. En það er nú ekki svo, þó hún sé femínisti. Hún segir enda líka:
Ég hugsa ekki mikið um að ég sé kona í þessum bransa og mér persónulega finnst kyn mitt ekki skipta máli í þessu samhengi. Í gegnum tíðina hefur það að vera kona bæði unnið með mér og á móti mér en ég velti mér ekki upp úr því.
Hið skrýtna er, að í viðtalinu inni í blaði er ekki minnst á þetta aðalatriði forsíðutilvítnunarinnar. Enda væri það alveg alveg út úr kú þar inni og myndi brjóta upp afar eðlilega og flæðandi framvindu þess. Ég veit ekki hvað veldur, en þessi framsetning er augljóslega á ábyrgð blaðsins og það lýsir ekkert sérstaklega miklum trúnaði við viðmælandann að gera að aðalatriði eitthvað, sem í hennar augum er ljóslega aukatriði í eigin lífshlaupi. Að minnsta kosti er þetta ójafnvægi Morgunlaðinu meira áhyggjuefni en henni.
En gefum okkur nú augnablik að þetta sé rétt, að hlutverk listanna sé að endurspegla samfélagið af raunsæi (sem ég er ekki viss um að sé endilega rétt athugað), hvort heldur er fyrir okkur núbúana til þess að spegla okkur í eða til þess að skilja eftir heimild fyir komandi kynslóðir. Hver segir að það verði best gert með því að listamennirnir séu eitthvert fall af lýðmengi dagsins? Hafa ekki velflestir góðir listamenn einmitt verið fremur óvenjulegir og einatt á skjön við hefðir dagsins? Er málið ekki einmitt það, að þeir eru flestir gestir í sínu samfélagi og með glöggt auga í samræmi við það?
Þeir D.W. Griffith, Cecil B. DeMille, Fritz Lang, Erich von Stroheim, Charlie Chaplin, Sergei Eisenstein, John Ford, Orson Welles, John Huston, King Vidor, Elia Kazan, Frank Capra, George Cukor, Alfred Hitchcock, Jacques Tati, Federico Fellini, Akira Kurusawa, Ingmar Bergman, Stanley Kubrick, Sidney Lumet, Sam Peckinpah, Roman Polanski, Ken Russell, Martin Scorsese, Woody Allen, Jean-Luc Godard, François Truffaut, Ridley Scott, Werner Herzog, David Lynch, Terry Gilliam, John Woo og Spike Lee, að ógleymdum þeim Hrafni Gunnlaugssyni, Friðriki Þór Friðrikssyni og Baltasar Kormáki, eiga það allir sameiginlegt að vera karlmenn, satt er það, en fyrst og fremst eiga þeir það sameiginlegt að vera óvenjulegir menn, með sjá samtímann, fortíð og framtíð með öðrum augum en aðrir. En það á líka við um þær Leni Riefenstahl (sem sjá má á myndinni að ofan), Jane Campion, Sharon Maguire, Sofia Coppola og Julie Dash.
Þessi upptalning segir hins vegar sína sögu og þá er rétt að hafa einnig í huga að ég teygi mig aðeins í upptalningu kvenleikstjóranna. Af þeim á aðeins Leni Riefenstahl öruggt sæti í kvikmyndasögunni með þeim körlum, sem upp voru taldir, og Jane Campion stingi ekki í stúf heldur. Jafnvel þó svo körlum væri kvikmyndaleikstjórn eiginlegri en konum af einhverjum óþekktum líffræðilegum ástæðum, verður því vart trúað að munurinn sé svo afgerandi. En hver veit, er klipparastarfið ekki nánast orðið kvennastétt?
Svo má auðvitað horfa á þetta frá allt öðrum vinklum ef við teljum nauðsynlegt að öllum sjónarhornum sé gaumur gefinn af þessum samfélagsspegli. Mætti ekki allt eins segja að hlutfall hægrimanna í kvikmyndagerð sé jafnvel enn lægra en hlutfall kvenna? Hvenær ætli Morgunblaðið bendi á það sem brýnt úrlausnarefni samfélagsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 18:19
Þöggunin
Allnokkur umræða hefur spunnist að síðustu færslu minni um málflutning Sóleyjar Tómasdóttur, ritara Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs; ekki aðeins í athugasemdum á bloggi mínum, heldur einnig í athugasemdum við bloggfærslur Katrínar Önnu Guðmundsdóttur, fyrrverandi talskonu Femínistafélagsins, bæði hér og hér. Þó verð ég að kvarta undan því, að femínistar eru enn helst að fjargviðrast yfir því hvort vitna hafi mátt til þessara orða á póstlista femínista, en sneiða nær fullkomlega hjá kjarna málsins, sem mér finnst grafalvarlegur og kalla á vitsmunalega umræðu. Svo ég endurtaki:
Mér finnst í orðum Sóleyjar felast hættuleg afstaða til lýðræðis og mannréttinda. Ég tel að hún boði siðleysi, sem felst í því að aflétta ábyrgð af einstaklingunum á gerðum sínum og láta það falla í skaut illa skilgreindu samfélagi, en um leið gerir hún því skóna að menningarsamfélögin eigi að leggja að jöfnu. Samfélögin virðist hún telja að eigi sér sjálfstæða tilvist, markmið, vilja, og réttindi, óháð einstaklingunum og þeim æðri, sem óneitanlega ber keim af fasískum sjónarmiðum. Jafnframt tel ég að röksemdafærslan feli í sér mannfyrirlitningu, sem eigi margt skylt við kynþáttahatur.
Að því sögðu er mér hins vegar ljúft og skylt að taka fram, að ég fagna því að Sóley skuli hafa gert grein fyrir skoðunum sínum með margnefndum hætti. Þó þær hafi ekki gerðar almenningi ljósar að hennar undirlagi. Eins virðist mér nauðsynlegt að taka fram að ég hef ekkert út á Sóleyju að setja þó mér finnist tilteknar skoðanir hennar ámælisverðar og öllum hugsandi mönnum og frelsisunnandi skylt að mótmæla þeim harðlega. En þvert ofan í það, sem sumir virðast ætla, vil ég endilega að Sóley opni hug sinn sem mest og oftast.
Opinber umræða á Íslandi helgast alltof oft af viðteknum viðhorfum og pólitískum rétttrúnaði, sem yfirleitt er sett fram sem almenn, óljós afstaða, en nánast aldrei í rökstuddum efnisatriðum eða tvímælalausum yfirlýsingum. Á sinn hátt er það því eins og ferskur andblær í stjórnmálaþvargið hér, þar sem flokkarnir virðast hver öðrum líkari hinum, þegar ritari Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og hálfkjörinn fulltrúi borgara Reykjavíkur stígur fram á bloggi sínum og gerir það lýðum ljóst, að þó henni þyki einstaklingarnir skipta máli, þá skipti stjórnvöld samt meira máli! Umræðan varð þá til einhvers, þó tilefnið hafi verið femínistum á móti skapi, en þetta sagði Sóley sumsé á opnum bloggi, en ekki á lokuðum póstlista. Það finnst mér vel tækt til frekari umræðu kjósenda þessa lands, því slík afstaða forystumanns stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins til eðlis lýðræðisins, ríkisins og borgara þess, er vægast sagt óvenjuleg hin síðari ár. Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur forystumaður vinstri grænna annar hafi andmælt þessu eða talið það vera á skjön stefnu flokksins. Er það ekki frétt?
Þetta þarf að ræða.
Í ljósi alls þessa finnst mér því harla einkennilegt að lesa hvernig ég (og fleiri fauskar eins og Pétur Gunnarsson og Egill Helgason) eigi að vilja þagga niður í Sóleyju með innantómu þvaðri út í gegn, eins og einhver komst að orði. Nú verða aðrir að dæma um þvaðurstuðulinn hjá mér, en ég get ekki skilið hvernig það, að vilja taka skoðanir hennar til athugunar og gagnrýni getur talist tilraun til þöggunar.
Að mínu viti eru tvær gerðir þöggunar helstar: Ritskoðun og hundsun. Ritskoðunartilburðirnir hafa allir komið úr einni átt í þessari umræðu og varla getur Sóley kvartað undan því að hafa verið mætt með þögninni einni.
Mér þykir það ekki boðleg vörn í þessu máli, að saka menn um einelti fyrir að taka Sóleyju á orðinu og leyfa sér að draga réttmæti skoðana hennar í efa. Það lýsir í raun ótrúlegu óöryggi á málflutningum, að hlaupa strax í það skálkaskjól, en vera ófáanleg til þess að ræða efni málsins nema á vernduðum vettvangi.
Kannski Sóley sé óskeikul, að það eitt að efast um réttmæti orða hennar sé í eðli sínu rangt. Að andófið eitt sé full afsönnun á sjálfu sér. Gerast þá fleiri pápískir en ég hugði. En máske er það málið, að hér ræður trúarsannfæring meiru en skoðun. Vantrúarseggirnir eru handan sáluhjálpar en pupulinn varðar ekkert um kenninguna, sem kúrían ein á að ræða í sínum hópi, helst á sértungumáli, fyrir órekjanlega leiðsögn almættisins. Síðan skal almenningur trúa í blindni, ótta og fullvissu. Lokaður póstlisti er þá réttnefnt klaustur.
Sjálfur hyggst ég áfram negla viðeigandi nótur og ótímabærar athugasemdir á þær hurðir, sem mér þykir við þurfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2007 | 04:39
Fasisminn og afstæðishyggjan í Femínistalandi
Það er með ólíkindum að lesa um fjörlega umræðu á póstlista femínista, sem Pétur Gunnarsson vekur athygli á, þar sem meint málsmetandi fólk er að taka upp hanskann fyrir eitthvað, sem það nefnir pólitískt íslam og fagnar að sé í sókn.
Nú er í gangi stórsókn heimsvaldasinna gegn múslimalöndum undir yfirskriftinni stríð gegn hryðjuverkum. Það er ekki tilviljun; af því þetta eru olíuauðug lönd og í öðru lagi af því pólitískt íslam er í sókn og er um þessar mundir öflugasta skipulega aflið gegn yfirgangi heimsvaldasinna (og á lítið skylt við hryðjuverk). Nauðug eða viljum þurfum við að taka afstöðu í því stríði. Ef vestrænir femínistar taka ekki skýra afstöðu gegn heimsvaldastefnunni lenda þeir óhjákvæmilega í gíslingu hjá henni.
Þórarinn Hjartarson.
Hið pólitíska íslam er ekkert annað en fasismi, hvort sem menn nenna að brjóta hinn hugmyndafræðilega vaðal til mergjar eða horfa til sögulegrar þróunar íslamismans allt frá Amin Al-Husseini til vorra daga.
Með orðinu fasismi á ég við alræðiskerfi þar sem mannréttindi og lýðræðishefðir eru að engu hafðar í nafni hins almáttuga kerfis, hvort sem markmiðin snúast um baráttu stétta, kynþátta eða trúarbragða. Nú eða kynjanna. Íslamisminn, hið pólitíska íslam hæfir þeirri skilgreiningu algerlega.
Nú grunar mig að þessum óvæntu málsvörum fasismans renni blóðið til skyldunnar aðallega vegna ímugusts á hinni meintu en óljósu heimsvaldastefnu Vesturlanda, sem Þórarinn Hjartarson víkur að. En þeim væri þá kannski hollt að kynna sér viðhorf íslamistanna vina sinna (eða óvina óvina sinna), því barátta þeirra er fyrst og fremst fyrir endurreisn kalífdómsins, sem á að ríkja yfir öllu því svæði, sem múslimar hafa einhverju sinni ráðið, og að lokum heimsbyggðinni allri. Það er nú heimsvaldastefna í lagi!
Íslamisminn kýs vitaskuld að ná þessum markmiðum með sem minnstri fyrirhöfn ef unnt er, en dregur enga dul á að það skuli gert með sverði ef ekki vill betur. Það væri því fróðlegt ef friðarpáfinn Þórarinn Hjartarson, formaður Norðurlandsdeildar Samtaka hernaðarandstæðinga, deildi með okkur skoðunum sínum á markmiðum hins pólitíska íslams við að leggja af veraldlegt lýðræði í Tyrklandi, að lögfesta sharía (lögbók íslams) meðal múslíma á Vesturlöndum þannig að hún verði landslögum æðri eða að endurheimta hinn serkneska hluta Spánar, svo fátt eitt sé nefnt. Skyldi hann telja þeim leyfilegt að beita hervaldi eða öðru ofbeldi til þess að ná þeim markmiðum? Eða fórnarlömbunum leyfilegt að verja sig?
Póstmódernísk nálgun á póstlista
Enn galnara er þó þegar Sóley Tómasdóttir, ritari Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, lætur sig hafa það að afsaka kynbundnar limlestingar vegna þess að ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins leyfði þær. Póstmódernisminn og afstæðishyggjan er svo alger þegar umræðan en ekki efnið er aðalatriðið og augljóst að henni finnst verra að einhverjir aðrir en innvígðir og innmúraðir femínistar skuli ræða um þessi mál. Tekur reyndar fram að öðrum þræði sé það sjálfsagt slæmt!
Þetta er áhugaverð umræða. Dáldið sérstakt að karlar, sem alla jafna hafa ekki mikinn áhuga fyrir femínisma skuli taka eftir baráttu þessara kvenna og sjálfsagt er það bæði gott og slæmt.
Svo heldur hún áfram að tönnlast á því að það sé umgjörð umræðunnar sem öllu skipti:
Það hlýtur að vera lykilatriði svo umræðan sé konum í hag og heimsvaldastefnunni síður, að ræða um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. [ ] Lykillinn að almennilegri umfjöllun um þetta mál sem önnur hlýtur að vera sá að fjölga konum í áhrifastöðum á fjölmiðlum. Karllæg sýn á heiminn er allt of dómínerandi.
Jájá, the Medium is the Massage og allt það. Lykilsetningin í þessu orðagjálfri er hins vegar sú, að ræða verði um stöðu kvenna út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra. Var það virkilega?! Er sumsé allt þetta tal hennar um kvenréttindi og hvernig hún vill breyta heiminum algerlega háð umhverfinu og ríkjandi viðhorfum? Að kvenréttindin séu alveg frábær, nema náttúrlega í feðraveldum steinaldartrúarbragða? Að mannréttindi séu ekki algild réttindi allra manna (og konur eru líka menn), heldur mismunandi eftir því hvar og með hverjum fólk elur manninn? Þvílík endemis della!
Mannréttindi eru ekki afstæð
Mannréttindi eru einmitt algild. Þau eru sjálfsögð og ófrávíkjanleg réttindi manna, algerlega burtséð frá ætt, uppruna, trúarbrögðum, kynferði, kynhneigð, háralit eða tónlistarsmekk ef því er að skipta. Þau byggjast á því að mannleg reisn í heild sinni hvíli á því, að allir menn njóti ófrávíkjanlegs réttar til lífs, frelsis og ýmissa gæða annarra. Að viðurkennt sé, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, en það sé undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum, eins og segir í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þar segir ennfremur að séu mannréttindi fyrir borð borin og lítilsvirt, hafi slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofbjóði samvisku mannkynsins, enda sé æðsta markmið almennings um heim allan að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.
Það er því alveg með ólíkindum að hér á landi fyrirfinnist fólk, sem vill að það sé tekið alvarlega í opinberri umræðu og lætur eins og það eitt standi í fylkingarbrjósti mannréttinda, en heldur því svo fram kinnroðalaust, að einhverjir menningarheimar eða afkimar njóti réttinda eða griða, sem gangi framar mannréttindum. Ætli Sóley mæli fyrir hönd vinstrigræna um þessi mál?
Fordómar og firring
Þessi afstaða hefur þó jafnvel enn alvarlegri blæ en vikið er að að ofan. Með henni er nefnilega tekið undir þau sjónarmið að tiltekin tegund fólks eigi réttindi sín undir því en ekki algildum mannréttindum. Er það þingmannaleið frá kynþáttahyggju eða kynþáttafordómum?
Þrælahaldarar fyrri tíma reyndu að réttlæta athæfi sitt með því að þrælarnir væru tæpast menn, í besta falli börn meðal manna, sem þeir væru að aumka sig yfir og reyna að koma til einhvers þroska. Hver er munurinn á þeim málflutningi og að halda því fram, að um stöðu og réttindi kvenna einhverstaðar í svörtustu Afríku verði ekki rætt nema út frá samfélögum og hugmyndakerfum þeirra? Má ekki réttlæta hvaða viðbjóð sem er á þeim forsendum?
Gamalkunnug stef
Þessi orðræða er ekki ný af nálinni. Bandung-kynslóðin kynnti þessa hugmynd í nafni baráttu gegn heimsvaldastefnu og hún var meira að segja innleidd í ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna um tíma. Þar gengu vitaskuld fremstir einræðisherrar vanþroskaheimsins, sem vildu hafa blóðböð sín og mannfyrirlitningu í friði og allt í nafni sérstakrar menningar og einstakra aðstæðna í landi sínu. Þessi söngur hljómar enn, bæði í Arabaheiminum og sums staðar í Afríku, en einnig í löndum á borð við Búrma og Kína. Og nú hljómar hjáróma bakrödd Sóleyjar Tómasdóttur við þann falska kúgunarbrag.
Um allt þetta hefur verið rætt og ritað í nokkru máli á undanförnum árum, en aðallega þó í tengslum við fjölmenningarsamfélagið eða innflytjendavanda (eftir því hvernig menn eru stemmdir í þeirri deilu). Ég leyfi mér hins vegar að benda á framúrskarandi bók um þessi efni, sem gefin var út fyrir 20 árum og því ómenguð af tilfinningablandinni deilu dagsins, en um leið næsta laus við umræðuhefð eftirstríðsáranna. Hún er eftir franska heimspekinginn Alain Finkielkraut og bar nafnið Dauði hugsunarinnar eða La Défaite de la pensée. Ég mæli óhikað með ensku þýðingu bókarinnar, sem fá má á Amazon fyrir um 1.700 krónur.
Femínismi á villigötum
Ég hef aldrei hrifist af femínisma fremur en annarri hugmyndafræði, enda er hugmyndafræði helst til þess fallin að binda menn á klafa kreddu. Hvað þá þegar sjálfskipaðir hugmyndafræðingar eins og Sóley leiða menn á villigötur eða hreinar ógöngur eins og að ofan er greint. Mér er meira að segja meira í nöp við femínisma en marga hugmyndafræði aðra, vegna þess hún miðast við að sækja tilteknum hópi óljós réttindi í stað þess að berjast einfaldlega fyrir mannréttindum allra, óháð því hverrar gerðar maðurinn er að öðru leyti eða í hvaða aðstæður hann hefur ratað. Eins og ég hef áður ritað um tel ég ljóst að þau réttindi þurfi nauðsynlega að vera neikvæð, það er að segja að réttindin feli í sér frelsi frá áþján annarra, en gef hins vegar lítið fyrir hin jákvæðu réttindi, sem jafnan snúast um réttinn til tiltekinna gæða. Hin fyrrnefndu snúa jafnan að einstaklingnum en hin síðarnefndu oftast að hópum. Hópar þurfa engin slík réttindi ef einstaklingarnir njóta hinna og þau eru beinlínis skaðleg, því jákvæð réttindi verða trauðla veitt án þess að vera öðrum íþyngjandi, hvort heldur er hópum eða einstaklingum.
En ég skil afstöðu femínista, sem álíta að konur séu órétti beittar sakir kynferðis síns og því verði þeir að snúa vörn í sókn. Gangi þeim allt í haginn. Það þýðir hins vegar ekki að ég sé eða þurfi að vera sammála öllum greiningum þeirra og lausnum. Og enn síður að ég eða nokkur annar allra síst konur af því að þær séu konur þurfi að gangast undir ok hins pólitíska rétttrúnaðar femínismans, sem er sjálfum sér verstur með því að ganga út frá því að allar konur hljóti að hugsa eins af því að þær eru konur og því megi og eigi að líta á þær sem hóp með eina rödd. Það er nefnilega fasismi líka.
....................
Umræða um umræðu um umræðu
Fyrst maður er fallinn í þá gryfju eftiráhyggjumannanna (póstmódernistanna), að ræða umræðuna til þrautar, er rétt að maður haldi áfram. Ég sé að Sóley hefur áttað sig á því að hún hefur eina ferðina enn verið opinskárri en málstað hennar er framdráttar. Hún telur alvarlegast að sér sé gerð upp vörn fyrir umskurð kvenna og segir að sér sé ekkert fjær, þó hún hafi tekið vörn gerendanna, þar sem þeir væru aðeins fórnarlömb samfélagsins. En hver er þá ábyrgð samfélagsins? Og hvernig er unnt að láta það sæta ábyrgð? Þessi afstaða Sóleyjar er siðlaus með öllu, því með henni eru einstaklingar ævinlega firrtir ábyrgð á gerðum sínum, svo framarlega sem samfélagið lætur athæfið óátalið eða stuðlar að því. Mér hefur skilist á femínistum að það hafi átt við um heimilisofbeldi hér fyrr á árum. Var ábyrgðin á ósköpunum aðeins samfélagsins en ekki hrottanna?
Að öðru leyti telur Sóley sig ekki þurfa að skýra mál sitt frekar og stendur því að líkindum við annað í málflutningi sínum, sem ég tel þó ekki minna alvarlegt eins og fram kom eins og tveimur km ofar í þessari færslu. En mér þykir einnig athyglisverð sú vörn, sem Katrín Anna Guðmundsdóttir, fyrrverandi talskona Femínistafélagsins, setur fram fyrir Sóleyju og raunar sjálft tjáningarfrelsið. Hún er ekki síður en Sóley upptekin af umgjörð umræðunnar og gagnrýnir það að einhverjir skuli dirfast að vitna í orð, sem látin eru falla á lokuðum póstlista. Nú má vissulega taka undir það, að það er ófyrirgefanleg ókurteisi að vitna í einkabréf án leyfis, jafnvel þó maður sé að vitna í skrif sjálfs sín til annars! En póstlisti femínista er hreint ekki einkabréf, eins og Katrín Anna gefur til kynna, heldur póstdreifingarlisti, sem mér skilst að hundruð manna eða þúsundir séu áskrifendur að. Orðsendingar á honum eru ekki innan sérstakra vébanda, þó reglur listans kveði á um að ekki megi birta hann annars staðar. Það má t.d. höfða mál vegna ærumeiðinga á honum og eins hygg ég að dómstólar myndu fallast á að birting úr honum, líkt og Pétur Gunnarsson, Egill Helgason og nú ég höfum leyft okkur, falli innan skilgreiningar á sanngjarnri tilvitnun (e. fair use) í fréttaflutningi eða lýðræðislegri umræðu.
Katrín Anna segir að póstlistinn hafi þennan skilmála til þess að mynda umræðuvettvang, þar sem fólk þorir að tjá skoðanir sínar án ótta við eftirmál utan vallar. Það sjónarmið er gott og gilt, þar sem það á við, en mér finnst það þó hæpið þegar um er að ræða póstlista, þar sem engar takmarkanir eru á þátttöku að skilmálunum undanskildum og bréfriturum er ljóst að verulegur fjöldi manna, sem þeir kunna að öðru leyti lítil skil á, fær orðsendingarnar undir nafni umsvifalaust. Þar fyrir utan er eitthvað sérstaklega galið að halda því fram, að þetta geti orðið til þess að Sóley hætti að þora að tjá skoðanir sínar. Ætli það finnist óttalausari manneskja á Íslandi hvað það varðar? Þess utan er Sóley stjórnmálamaður, sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir flokk sinn og Reykvíkinga, og því eiga orð hennar um hvaðeina, annað en einkamálefni, brýnt erindi við almenning.
Þá finnst mér skörin færast upp á bekkinn þegar Katrín Anna heldur því fram að umfjöllun þessi sé tilraun til að þagga niður í einni konu. Femínista. Já, femínista, eins og það sé til refsiþyngingar. Í umfjöllun Péturs og Egils (mín skrif voru ekki kominn út í ljósvakann þegar Katrín Anna skrifaði) var vakin athygli á orðum hennar og skoðunum, sem augljóst er af viðbrögðunum, að mörgum þykja athyglisverð, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Hver lét orðin falla skipti líka máli og því var frá því greint, en þeir voru engan veginn að hjóla í manninn. Egill átti síðan auðvitað sérstakt tilefni til þess að tjá sig um málið, þar sem Sóley hafði séð ástæðu til þess að víkja orðum að honum (að Agli fjarstöddum).
Þetta þykir mér því harla fáfengileg málsvörn. En það er kannski umhugsunarvert, að aðalatriðið er sem fyrr umgjörð umræðunnar fremur en efni hennar. Lýsir það miklu trausti á málstaðnum? Eða hitt, að fólk sem hefur stigið sérstaklega fram á svið þjóðmálaumræðu til þess að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd og breyta heiminum, skuli vilja halda því skýrt aðgreindu, sem það heldur fram á opinberum vettvangi og hinu, sem liggja þarf í þagnargildi og aðeins má ræða í eigin hóp eiðsvarinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
8.9.2007 | 13:35
Stöð 2 og samsærið mikla
Í gærkvöldi var ég í Kastljósi Ríkissjónvarpsins hjá Þóru Arnórsdóttur til þess að fara yfir fréttir vikunnar ásamt Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, stöllu minni, sem nú er milli bæja í fjölmiðlahreppnum. Þar var meðal annars tæpt á uppsögn hennar á fréttastofu Stöðvar 2.
Ég lagði meðal annars það orð í belg, að mér þætti fjölmiðlaumfjöllunin um uppsögn hennar hafa verið furðumikil, á sama tíma og uppsögn 64 starfsmanna Icelandair hefði lítið rými fengið.
Þá var því til svarað að ef til vill gegndi öðru máli þarna um, þarna hefði verið einhverjar pólitískar vélar á ferð. Ég verð að játa að ég þekki málið ekki til hlítar, en mér heyrðist á Þóru Kristínu, að þarna hefði verið um vinnustaðapólitík að ræða, sem er allt annar handleggur en pólitískar atvinnuofsóknir eða hefndaraðgerðir, líkt og sumir gáfu til kynna þegar uppsögnin spurðist út.
Á fjölmiðlum þurfa ritstjórar að skipa liði sínu með ýmsum hætti og taka tillit til alls kyns sjónarmiða. Ekki síst á það við um sjónvarpsmiðlana, sem eru öðrum þræði í skemmtanabransanum. Slíkar ákvarðanir eru byggðar á smekk og tilfinningu, sem engin leið er að deila um af neinu viti.
Hin faglegu sjónarmið
Það tíðkast mjög þessi árin að svokölluð fagleg sjónarmið eigi að ráða á öllum sviðum. Ekki síst er skírskotað til þeirra þegar mannaráðningar eru annars vegar, en þær virðast hafa orðið mun viðkvæmari með árunum, ekki endilega vegna þess að réttlætistilfinning manna bjóði það, heldur kannski ekki síður vegna þess að fólk virðist í auknum mæli líta á sérhverja höfnun í lífinu sem endanlegan og óréttmætan dóm yfir persónu sinni. Hins vegar man ég nú ekki eftir því að það hafi nokkurn tíman verið skýrt til hlítar við hvað er átt með orðaleppnum faglegu.
Með hinni faglegu orðræðu er hins vegar gefið til kynna, að unnt sé að leggja menn við eina tiltekna mælistiku til þess að reikna út mannkosti hans. Rétt eins og það nægi að safna saman einhverri tiltekinni tölfræði úr lífshlaupi manna, slá hana inn í Excel og nota einhverja glæsilega formúlu til þess að finna út lokaeinkunn hvers og eins. En auðvitað er það ekki hægt; maðurinn er óendanlega fjölbreytt skepna og því má eins reyna að deila í hann með óendanleikanum eða núlli. Með álíka skynsamlegum niðurstöðum.
Við höfum horft upp á það undanfarin ár hvernig gengur að leggja slíkt mat á menn. Þær rannsóknir hafa líka áhrif á niðurstöðuna, rétt eins og skammtafræðin kennir okkur. Fólk fer að haga sínu faglega lífi til þess að líta betur út á pappírnum, en verður fráleitt hæfara fyrir vikið.
Auðvitað má finna atvinnugreinar, þar sem faglegar mælistikur má leggja á störf manna, fyrst og fremst í greinum þar sem auðvelt er að mæla afköst og ástæðulaust að taka tillit til annarra þátta. En þær eru fáar og fer fækkandi. Að mínu viti er fjölmiðlun alveg sérstaklega galin atvinnugrein til þess að stunda þessar faglegu mælingar. Í blaðamannastétt hafa þrifist alls kyns kynlegir kvistir, sem sumir hverjir hefðu tæpast verið umbornir á öðrum vinnustöðum. Fjölmiðlar eru enda óvenjulegir vinnustaðir; þversagnakenndar verksmiðjur þar sem skapandi fólk stendur við færiböndin. Það þarf að hafa nasasjón af öllu milli himins og jarðar og geta fyrirvaralaust gengið í öll verk. Um leið eru menn tilbúnir til þess að líta hjá alvarlegum göllum meðan kostirnir vega þyngra þegar á reynir.
Það er unnt að mennta sig í blaðamennsku og læra góð og rétt vinnubrögð, en ágætiseinkunn úr slíkum skóla er engin trygging fyrir því að menn reynist góðir blaðamenn. Starfsaldur eða afköst eru ekki heldur áreiðanlegur mælikvarði í þeim efnum. Hvað þá blaðamannaverðlaun, eins og dæmin sanna!
Pólitík hvað?
En í þessarri umræðu allri skildi ég aldrei almennilega hvað menn voru að fara með þessum ásökunum í garð Steingríms Ólafssonar, að pólitík væri rót uppsagnar Þóru Kristínar. Það hafði enda enginn fyrir því að skýra það út. En tesan var eitthvað á þá leið, að fyrst Steingrímur værir framsóknarmaður, sem meira að segja hefði unnið fyrir Halldór Ásgrímsson í forsætisráðuneytinu, þá hlyti sérhver ákvörðun hans að vera af pólitískum rótum runninn. Einmitt.
Auðvitað er það ekki nóg, að pólitísk afstaða Steingríms sé þekkt, svo álykta megi að allar hans ákvarðanir stýrist af henni. Umræddar ákvarðanir verða þá að hafa einhverja pólitíska vídd til þess að slíkt sé til umræðu (nema menn telji að hann taki mjólk í kaffið til þess að sýna samstöðu með Guðna Ágústssyni og kúabændum).
Haldi menn því fram að það hafi verið flokkspólitísk ákvörðun hjá honum að segja Þóru Kristínu upp þurfa þeir jafnframt að útskýra hvað Framsóknarflokkurinn eigi að græða á uppsögn hennar eða hvað hún eigi að hafa gert á hans hluta.
Þá ættu menn að fara varlega, því með slíkum ásökunum eru þeir í raun að gefa í skyn að Þóra Kristín hafi ekki gætt hlutleysis í fréttaflutningi sínum, að hún hafi dregið pólitískan taum, verið framsóknarmönnum sérlega mótdræg eða ámóta. Eru dæmi slíks?
Eða Halldór Ásgrímsson að hafa fyrirskipað sínum gamla undirmanni að láta nú sverfa til stáls gegn dóttur Sigríðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingar og Alþýðubandalags, af því honum fannst Sigríður alltaf hafa horft hálfillilega til sín í þinginu hér í den?
Nei, ætli framsóknarmenn hafi ekki að einhverju þarfara að huga til þess að ná sér á strik á ný. Það starf mun eiga sér stað innan flokks þeirra og á Alþingi. Steingrímur hugsar vafalaust hlýlega til flokkssytskina sinna, en ég hef engin merki séð um það að fréttastofu Stöðvar 2 hafi verið í neinu beitt fyrir vagn Framsóknarflokksins.
Það má vel hafa þá skoðun, að Steingrímur hafi gert mistök með því að segja upp þrautreyndum fréttamanni eins og Þóru Kristínu, en þá er það fréttastofan, sem sýpur seyðið af því, og Steingrímur sjálfur áður en yfir lýkur, ef trúverðugleiki fréttastofunnar bíður varanlegan hnekki af. Eins og dæmin sanna lifa flestir fréttamenn Stöðvar 2 fréttastjóra sína af í starfi. Það kemur þá bara í ljós. En að láta eins og það sé reginhneyksli, pólitískt samsæri og óbærilegt áfall fyrir íslenska fjölmiðlun er bara bull.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.9.2007 kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.9.2007 | 03:46
Hveitibrauðsdagarnir að baki
Í dag er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 100 daga gömul og þar með telst hveitibrauðsdögum hennar lokið. Sagt er að í stjórnmálum verði nýjum valdhöfum að verða vel úr verki þessa fyrstu 100 daga, því það sé þá, sem einhver von sé til þess að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Afgangurinn af kjörtímabilinu fari í að sinna daglegri húsvörslu og slökkva elda. En svo má líka minna á að þessi hugmynd um 100 örlagadaga í pólitík má rekja aftur til ársins 1815, en þá liðu einmitt 100 dagar frá því að Napóleon rauf útlegð sína á Elbu þar til þeir von Blücher, Vilhjálmur prins af Óraníu og hertoginn af Wellington réðu niðurlögum herja Frakka í Waterloo, sem Abba gerði ódauðlegt hér um árið.
Það væri því ekki úr vegi að staldra við á þessum tímamótum og líta yfir farinn veg. Það veldur þó vanda, að pólitíkin hefur ekki verið fyrirferðarmikil síðan ríkisstjórnin tók við völdum, þingið í sumarleyfi, fá knýjandi mál hafa komið upp og afrekaskráin eftir því stutt. Jafnvel stórmál eins og niðurskurður þorskveiðiheimilda reyndist ekki hafa neina pólitíska vídd, en það er helst að sláttur á sumum ráðherrum Samfylkingar hafi vakið athygli. Það er kannski helst núna, sem opinber ágreiningur innan stjórnarinnar er að koma upp á yfirborðið, um vatnalögin!
Að því leytinu er vart hægt að taka störf stjórnarinnar til kostanna enn. Hins vegar vill svo til að Capacent Gallup var að birta niðurstöður skoðanakönnunar um fylgi flokkanna. Það er langur vegur frá því að í þeim felist nokkur stórtíðindi, en það má vel reyna að lesa eitthvað í þau og horfa eilítið fram á veginn, það styttist í þingsetningu og maður heyrir á þingmönnunum niðri í bæ, að þá er marga farið að klæja í fingurna. Ég hef nú reyndar ekki heyrt í nema þremur þeirra um þessa skoðanakönnun og þeir voru allir stjórnarliðar. Þeir voru á einu máli um að könnunin sýndi að stjórnarandstaðan ætti sér engrar viðreisnar von og nefndu svo ýmis dæmi um hvernig hún væri að veslast upp. Það má vera rétt athugað, en af því leiðir ekki sjálfkrafa, að allt sé í himnalagi á stjórnarheimilinu.
Mér finnst að vísu hæpið að halda því fram að fylgi við ríkisstjórnina sé að dala, líkt og gert er í fyrirsögn á mbl.is, þó það fari úr 83% í 80% á sama tíma og samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er um 69%. Án þess að hafa séð tölur um úrtak, heimtur og skekkjumörk myndi ég láta mér nægja að segja fylgið á svipuðu róli.
Nú er það altítt hér á landi, sem víðast hvar í vestrænum lýðræðisríkjum, að nýmyndaðar ríkisstjórnir njóta mikils velvilja fyrsta kastið. Það er líka athyglisvert að þegar menn eru spurðir að því hvað þeir kusu í síðustu kosningum er eins og minni margra bili; ef marka mætti þær niðurstöður hefðu ríkisstjórnarflokkarnir átt að vinna mun glæsilegri kosningasigra, en raunin var þegar talið var úr kjörkössunum. Þrátt fyrir það allt held ég að það hljóti að vera harla fátítt, að nokkur ríkisstjórn njóti stuðnings fjögurra af hverjum fimm kjósendum, nema á stríðstímum eða við álíka óvenjulegar aðstæður. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að þó ríkisstjórnarmeirihlutinn sé afar ríflegur (43 þingmenn af 63 eða 68,25% þingheims), þá fengu stjórnarflokkarnir ekki nema 63,4% atkvæða í kosningunum í vor. Umframstuðningurinn nú nemur því liðlega 17%. Ætli það verði ekki skálað í kampavíni á næsta ríkisstjórnarfundi?
Hins vegar gæti forysta Sjálfstæðisflokksins velt því fyrir sér hvers vegna fylgi flokksins dalar úr 45% í 42%, sem miðað við fyrri fylgni er ábending um að það myndi reynast í kringum 38% í kjörklefum. Það er erfitt að benda á eitthvað sérstakt, sem gerst hefur milli þessara kannana, sem gæti skýrt þá rénun. Auðvitað má vera að þetta sé innan allra vikmarka, sveiflurnar hjá flokknum hafa áður verið svipaðar og meiri án þess að sérstök tilefni hafi legið í augum uppi. Mér koma þó í hug þrjár mögulegar skýringar.
- Sú fyrsta er að nokkrar blikur eru uppi í efnahagslífinu og fleiri en áður óttast að góðærinu kunni að vera að ljúka, erlendur lánsfjárskortur kann að hafa áhrif hér, vanskil eru að aukast í fyrsta skipti í sex ár, væntingar um næstu misseri eru minni en lengi hefur verið og svo má áfram telja. Þó í því felist kannski ekki mikil sanngirni, kann sá kvíði um efnahagsmálin helst að bitna á Sjálfstæðisflokknum, hann hefur hagstjórnina alla í sínum höndum og hið undralanga góðæri verið honum tengt. Dvíni það er ekki óeðlilegt að einhverjir spyrji hvort flokknum sé að förlast. Þessu að mestu ótengt má svo benda á umræðu liðinna vikna um Grímseyjarferjuna, sem auðvitað varð Sjálfstæðisflokknum ekki til álitsauka, hún var sérstaklega tengd fyrrverandi samgönguráðherra hans, klúðrið átti sér stað á síðustu vakt flokksins í stjórnarráðinu og viðbrögðin við umræðunni nú voru ekkert sérstaklega traustvekjandi.
- Önnur skýringin kann að vera sú, að sjálfstæðismenn hafa sáralítið haft sig í frammi á hveitibrauðsdögum hinnar nýju ríkisstjórnar (og afsakið innskotið, en hvað varð um hina gagnmerku umrræðu um Bleikjuna, Þingvallastjórnina, Baugsstjórnina og allt það?). Auðvitað hafa þeir margir nýtt þetta dýrðlega sumar til þess að safna orku eftir snarpa kosningabaráttu og ekki haft mörg tilefni til þess að vera að sprikla mikið á hinu pólitíska sviði. Á sama tíma hafa flestir ráðherrar Samfylkingarinnar haft sig töluvert í frammi, þó sumpart beri tilburðirnir helst keim af kátum kúm á vori eftir langa vetrarveru í fjósi. Sumir telja að þetta lagist í haust þegar þing kemur saman, en ég er ekki viss. Stjórnunarstíll forsætisráðherra er afar lágstemmdur og svipmótið er fremur í ætt við það, sem menn hafa átt að venjast úr embættismannakerfinu en pólitíkinni. Mér kæmi ekki fullkomlega á óvart þó einhverjir dustuðu rykið af spurningunni Hvar er Geir?, sem nokkuð bar á í fyrra.
- Þriðja skýringin er sú, sem Morgunblaðið hefur verið að ýja að upp á síðkastið og ekki síst í Staksteinum föstudagsblaðsins, sem lesa má í heild sinni hér að neðan. Hún er sú að mörgum sjálfstæðismönnum lítist hreint ekki á blikuna hvað varðar samstarfið við Samfylkinguna. Þeim þykir ýmsum nóg um tilburði sumra ráðherra hennar. Ég heyri ýmsa gegna sjálfstæðismenn lýsa áhyggjum sínum af því að flokkur þeirra sýni samstarfsflokknum allt of mikið eftirlæti og sumir þeirra segja jafnvel að miðjusókn flokksins ætli engan enda að taki og hann endi vinstra megin við miðju áður en kjörtímabilið er hálfnað. Það finnst mér djúpt tekið í árinni, en í þeirri gagnrýni felst sannleikskorn og hún lýsir raunverulegum áhyggjum gegnheilla flokksmanna. Það eitt og sér ætti að vera áhyggjuefni fyrir flokksforystuna, þó ekki geti þessi 3% dýfa valdið henni andvökunáttum. En í því samhengi er hins vegar vert að horfa til þess hversu margir yfirlýstir sjálfstæðismenn hafa verið óragir við að hjóla í borgarstjórann í Reykjavík á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Sjálfsagt er þeim í raun og sann uppsigað við tiltekin ummæli hans eða ákvarðanir, en ég á erfitt með að verjast þeirri hugsun, að einhverjir þeirra séu aðallega að hafa í hótunum við Albaníu.
Sem fyrr segir er öldungis ástæðulaust fyrir flokksforystu Sjálfstæðisflokksins að rjúka upp til handa og fóta þó fylgi Sjálfstæðisflokksins hreyfist 3% til eða frá. En það er vert að gefa því gaum ef óánægja kraumar meðal harðkjarnans svo snemma á kjörtímabilinu. Eins ef það er almennt túlkað sem áhuga- eða erindisleysi þegar lítið fer fyrir ráðherraliði flokksins. Það er síðan rétt, sem vakið er máls á í fyrrnefndum Staksteinum, að gengi Sjálfstæðisflokksins er ekki í pólitísku tómarúmi, þó ég telji fullsnemmt að rekja fléttur á borð við þær, sem lesa má að neðan. En hitt er dagljóst að framganga margra ráðherra Samfylkingarinnar undanfarna 100 daga hefur ekki orðið til þess að treysta stjórnarsamstarfið eða auka trúnað milli stjórnarflokkanna. Var hann þó ekki ærinn fyrir.
Staksteinar Morgunblaðsins, föstudaginn 31. ágúst, 2007.
Ólund hér og þar
Það má finna í ýmsum hornum Sjálfstæðisflokksins, að nú þegar nýjabrumið er farið af samstarfinu við Samfylkinguna þykir sjálfstæðismönnum það samstarf ekki sérlega skemmtilegt. Sumir þeirra telja að talsmáti bæði formanns Samfylkingar og ýmissa annarra forystumanna flokksins sé ögrandi gagnvart Sjálfstæðisflokknum.
Sjálfstæðismenn eru byrjaðir að finna að Samfylkingin getur orðið erfiður samstarfsaðili.
Framsóknarmenn finna þennan pirring innan Sjálfstæðisflokksins og þykjast sjá hann langar leiðir. Þess vegna er nú að vakna aukin bjartsýni innan Framsóknarflokksins um að þeir komist í ríkisstjórn á þessu kjörtímabili. Þeir telja að Samfylkingin leiti að heppilegu máli til að kljúfa stjórnarsamstarfið á og stöðva við umræður um gjaldmiðilinn. Eigum við að halda krónunni eða taka upp annan gjaldmiðil?
Í ljósi þess hvernig framsóknarmenn tala er ekki hægt að útiloka að þeir heyri svona raddir innan Samfylkingar.
Vandi bæði Samfylkingar og framsóknarmanna er sá að þriðji samstarfsflokkurinn sem þeir sjá fyrir sér í slíkri ríkisstjórn, Vinstri grænir, eru ekki ginnkeyptir fyrir gjaldmiðilsskiptum.
Hins vegar mundi aðild Vinstri grænna að ríkisstjórn leysa þann flokk úr þeirri tilvistarkreppu sem hann er í og jafnvel framlengja pólitískt líf Steingríms J. Sigfússonar.
Geir H. Haarde verður að gæta að sér.
![]() |
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.5.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar