Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Til varnar Villa

Það er merkilegt hvernig menn láta eins og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafi orðið uppvís að einhverri lygi í Orkuveituóperunni, af því að fram kemur í greinargerð frá Bjarna Ármannssyni, stjórnarformanni REI, Hauki Leóssyni, stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur og Hjörleifi B. Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, að honum hafi verið kynnt tiltekið minnisblað Bjarna Ármannssonar á „löngum fundi“, sem þeir Haukur og Bjarni héldu með borgarstjóra á heimili hans.

Ástæðan fyrir því að menn líta á þetta sem mikil teikn er sú, að Vilhjálmur hafði sagt í viðtali við Morgunblaðið á sunnudag að sér hefði verið ókunnugt um þennan 20 ára þjónustusamning, sem ég hygg að flestum hafi blöskrað hversu mjög batt hendur Orkuveitunnar. Ekki síður sætti það undrun að hann skyldi ekki hafa verið nefndur einu orði þegar samruni félaganna var kynntur. En nú var því sumsé haldið fram að Villa hefði verið kynntur samningurinn fyrir löngu, löngu áður en samningurinn var tilbúinn. En hvað kynntu þessir herramenn fyrir borgarstjóra á fundinum langa?

Ég veit ekki hvernig þeim mæltist fyrir, en á þessu minnisblaði er rætt um hlutina með allt öðrum hætti en gert var í samningnum, sem nánari grein er gerð fyrir að neðan. Það er talað um að tryggja aðgang að þekkingu og starfsfólki, að notkun vörumerkisins sé heimil og að OR beini verkefnum til REI. Það er svolítið annað en einkaréttur að þekkingu, skuldbinding um að hafa ávallt sérfræðinga tiltæka eftir þörfum og dyntum REI, eða fortakslaus forgangur að öllum verkefnum OR utan landsteinanna. Orðið „einkaréttur“ kemur ekki einu sinni fyrir!

Er unnt að draga aðra ályktun en að þetta almenna orðalag sé til þess fallið að afvegaleiða lesandann? Nema málið hafi síðan breyst svona mikið í meðförum síðan. Það væri ekki í fyrsta sinn, sem æðstu stjórnendur Orkuveitunnar leika slíkan blekkingaleik gagnvart fulltrúum eigenda sinna. Nú hafa þeir verið staðnir að verki með kámugar lúkurnar í fjárhirslum fyrirtækisins, úthlutandi sjálfum sér kauprétti eftir þörfum, og enn leika þeir lausum hala. Menn hafa verið kærðir fyrir tilraun til umboðssvika af minna tilefni.

Ég hef engan veginn verið sáttur við alla framgöngu Vilhjálms í þessu máli öllu og áfellist hann talsvert fyrir að hafa vanrækt eftirlitsskyldu sína sem stjórnarmaður í OR og borgarstjóri. Reynsla hans af feitu köttunum í OR átti að vera honum brýning til þess að trúa þeim ekki sisona, lúslesa allt sem frá þeim kom og telja á sér fingurna eftir handabönd við þá. Hvað þennan einkaréttarsamning áhrærir er hins vegar verið að hafa hann fyrir rangri sök og að mér sýnist af ásettu raði. Menn geta sjálfir reynt að ráða í hvatirnar, sem að baki liggja. En þá ættu þeir að hafa hugfast hverjir hafa mestu að tapa úr því sem komið er. Það er ekki Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.

...................

Samningurinn

Orkuveitan Reykjavíkur (OR) skuldbatt sig samkvæmt þessum 20 ára þjónustusamningi til að veita einvörðungu Reykjavík Energy Invest (REI) sérfræðiþjónustu á vettvangi jarðhita, rannsókna, ýmiss konar áætlanagerðar og markaðsmála. Þá fékk REI m.a. forgangsrétt að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar á samningstímanum. Leiti einhverjir aðilar til OR varðandi möguleika á hagnýtingu jarðhita til orkuvinnslu, annars staðar en á Íslandi, ber Orkuveitunni að vísa slíkum fyrirspurnum til REI sem síðan hefur 60 daga forgangsrétt til að semja við viðkomandi aðila. OR má svo hirða hratið eða framselja það. Eins skuldbatt OR sig til að hafa sérfræðinga sína tiltæka á grundvelli ársfjórðungslegra áætlana REI, en geri REI breytingar á þeim eru þær samt bindandi fyrir OR. Samningurinn kvað og á um að REI skuli fá öll markaðsgögn OR og beinan aðgang að öllum gögnum „um þekkingu“, sem og upplýsingum á tölvutæku formi, sem tiltæk eru á hverjum tíma. Og auðvitað afnot af vörumerkinu Reykjavík Energy, en þannig er Orkuveitan sjálf þekkt á erlendum vettvangi.

Þessi samningur var undirritaður af þeim kaupréttarköttunum Guðmundi Þóroddssyni og Hjörleifi Kvaran, forstjórum OR og REI.


„Þetta er hneyksli“

Það var mikið að gera í síðustu viku og því voru fréttayfirlitin í fjörugra lagi. Þar var alls kyns fólk kallað til með misjöfnum árangri eins og gengur, enda varla við öðru að búast í þessu flókna máli, þar sem leyndarhyggja og pukur hefur einkennt allan gang þess. Það eru enda enn að dúkka upp nýir og dularfullir flestir á því og mig grunar að það séu ekki kurl til grafar komin.

Einn álitsgjafinn vakti þó nokkra furðu hjá mér. Af öllum mögulegum datt minn gamli vin og samstarfsmaður Gunnar Smári Egilsson inn í Ísland í dag á Stöð 2 hjá þeim stöllum Ingu Lind Karlsdóttur og Svanhildi Hólm, þar sem hann og Illugi Gunnarsson, annar vinur minn og þingmaður, fóru yfir nokkra þætti málsins. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað Smári var að gera þarna. Hann sést orðið sáralítið á Íslandi og heldur sig aðallega úti í heimi, þar sem hann stýrir fjölmiðlaumsvifum Baugsmanna erlendis. Var nokkur von til þess að hann hefði meiri þekkingu á málavöxtum og álitaefnum Orkuveituóperunnar en hver annar ferðamaður?

En svo tekur hann til máls og það næsta tæpitungulaust.

Já, þetta er hneyksli. Og hann gefur eindregið til kynna að fleira eigi eftir að koma á daginn, sem eigi eftir að reynast Birni Inga Hrafnssyni erfiðir. Það er algerlega augljóst að þetta er Smári ekki að segja út í loftið og þetta er ekki almennt á álit. Hann býr yfir einhveri vitneskju um einhver frekari óhreinindi og þess vegna skildi ég allt í einu hvað Smári var að gera þarna í þáttinn. Hann var beinlínis gerður út af örkinni til þess að segja þá. Blasir ekki við að Baugur — óbeinn aðaleigandi Geysir Green Energy — hefur fengið nóg af Birni Inga og kompaníi?


Kvartmilljón á mann!

Það rifjaðist upp fyrir mér að í aðdraganda borgarstjórnarkosninga árið 2006 var það eitt kosningaloforða Björns Inga Hrafnssonar, að rétt væri að söluandvirði 45% eignarhluta Reykjavíkur í Landsvirkjun rynnu beint í vasa eigendanna, borgarbúa sjálfra. Um það sagði hann meðal annars í forsíðufrétt, sem ég skrifaði hinn 19. maí 2006:

Það ríkir enginn verulegur ágreiningur um það, að óskynsamlegt sé fyrir Reykjavíkurborg að standa í uppbyggingu tveggja samkeppnisfyrirtækja á orkumarkaði, Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Landsvirkjunar,“ sagði Björn Ingi aðspurður um hvort hann vildi einkavæða OR. „Ég tel að OR eigi áfram að vera í samfélagseigu og að það eigi að efla hana. En við höfum ekkert við 45% óvirkan eignarhlut í Landsvirkjun að gera, fyrirtækis, sem er í samkeppni við OR.

Þetta hlaut víða góðar undirtektir, en ekki meðal samstarfsmanna hans í borgarstjórn. Sjáum til hvort Svandís Svavarsdóttir vill taka það upp í hinni nýju og nútímalegu stefnu, sem henni hefur verið falið að móta. Mér sýnist að hún sé opin fyrir hverju sem er þessa dagana.

Björn Ingi er vanur að klára þau mál, sem hann tekur að sér fyrir umbjóðendur sína. Mér sýnist að hann  hafi síður en svo gefist upp á því að losa fast fé úr orkugeiranum. Hann ákvað bara að gefa þá annað.


…allir saman nú!

Pétur Gunnarsson, ritstjóri Eyjunnar, býsnast yfir því að bent sé á framsóknarmafíuna að störfum. Ýjar nánast að því að mannréttindabroti í því, hvort að framsóknarmenn megi ekki stunda viðskipti eins og annað fólk. En þá er Pétur að missa af punktinum. Hann er sá að framsóknarforkálfum virðist fyrirmunað að stunda viðskipti eins og annað fólk. Það er meinið.

Í bloggfærslu Péturs lætur hann eins og hér ræði bara um einhverja sárasaklausa kjósendur Framsóknarflokksins, sem svo ótrúlega vilji til að hafi viðskiptavit. Ótrúlegt viðskiptavit sýnist manni raunar. Gefum Birni Inga Hrafnssyni orðið um það:

Ég er geysilega ánægður með framboðslistann og bind miklar vonir við allt það góða fólk sem á þar sæti. Margir hafa unnið í þágu Framsóknarflokksins um langt árabil, aðrir eru nýgræðingar í pólitík. Heiðurssæti listans skipa þau Valdimar Kr. Jónsson, prófessor emeritus, Sigrún Sturludóttir húsmóðir, Áslaug Brynjólfsdóttir fv. fræðslustjóri og loks Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi. Þá er formaður kosningastjórnar Helgi S. Guðmundsson framkvæmdastjóri, sem gegnt hefur trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í marga áratugi.

Þetta skrifaði Björn Ingi á blogg sinn hinn 18. mars 2006, undir fyrirsögninni: „B-listinn: Nú þurfa allir að standa saman“. Manni sýnist að það hafi bara lukkast ágætlega. Þeir standa allir saman enn.

Var það ekki mikilmennið Benjamín Franklín, sem sagði að ef menn stæðu ekki saman myndu þeir áreiðanlega hanga hver í sínu lagi?

Sú samstaða kom Birni Inga svo á óvart að hann felldi tár. Ég get upplýst það að ég grét líka þegar ég fékk fregnir af því. Af hlátri.

..................

Á myndinni að ofan eru flokksforysta Framsóknarflokksins í desember síðastliðnum, séðir með vélauga Sivjar Friðleifsdóttur. Þetta eru Helga Sigrún Harðardóttir, Sigurjón Örn Þórsson, Sigurður Eyþórsson, Rúnar Hreinsson, Jón Sigurðsson, Stefán Bogi Hjálmarsson, Helgi S. Guðmundsson, Guðni Ágústsson og Sæunn Stefánsdóttir. Helgi er þessi með veskið.


Hið alþýðlega yfirbragð 24 stunda

 

Þegar nafni Blaðsins var breytt í 24 stundir og útlitinu nokkuð breytt var ég ekki alveg viss um tilganginn. En í morgun áttaði maður sig á því að það er verið að reyna að búa til einhvern vísi að götublaði að enskum hætti. Ég hef mínar efasemdir um að íslenskan henti vel í slíka fyrirsagnaorðaleiki og þessi fyrsta tilraun féll nokkuð flöt. Við hverju megum við búast næst? „Bada Bing!“ þegar allt kemst upp í Orkuveituóperunni? „Skamm Skatthiesen!“ þegar skattalækkanirnar láta standa á sér? Eða „Þaulseti Íslands!“ þegar herra Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir að hann hafi ákveðið að láta undan óbærilegum þrýstingi fólksins í landinu og bjóða sig fram fjórða sinni?

Það má vel vera að þetta sé rétta aðferðin til þess að laska Fréttablaðið, en þá þarf meira til: fleiri skandala, meiri áherslu á íþróttir en menningu og hálfberar stelpur á síðu sex. Ég er ekki viss um að hinn flauelsklæddi femínisti Ólafur Þ. Stephensen sé alveg rétti náunginn í það fremur en orðaleikina. Held að menn eigi að eftirláta The Sun þá dýru list. Og hvar á þetta nýja málgagn alþýðunnar að standa í Evrópumálunum? Með lýðveldinu eða landráðamönnunum?

....................

P.S. Sé auglýsingu á mbl.is fyrir 24 stundir. Þar er spurt: „Hvað ætlar Ómar að gera í dag?“ og fyrir neðan er hið nýja slagorð 24 stunda: „— kemur þér við“. Æi nei, eiginlega ekki. Síðan verð ég nú að segja, að heldur finnst mér það nú kljent hjá dagblaði að geta ekki einu sinni bögglað saman málfræðilega réttu slagorði. „24 stundir — kemur þér við“. Rétt útgáfa, „24 stundir — koma þér við“ er hins vegar ekkert sérlega snjöll. Raunar sérlega flöt. En betri en fyrra slagorð Blaðsins: „— hefur svo margt að segja“. Hins vegar sakna ég kjörorða Blaðsins: „Frjálst, óháð og ókeypis“. Hefur eitthvað af því breyst?


Fjórir riddarar

Í tilefni dagsins setti ég inn nýtt lag í tónlistarspilarann hér við hliðina á: The Four Horsemen með Metallica.

P.S. Síðan sé ég að fyrir eru tvö önnur lög með Metallica, litlu minna viðeigandi: For Whom the Bell Tolls og The Thing That Should Not Be.


Vanræksla og vammir

Bergstaðastræti 20Það er alger synd hvernig komið er fyrir húsinu að Bergstaðastræti 20. Það var keypt í því augnamiði að rífa það, en verktakarnir voru uppi með fyrirætlanir um að byggja smækkaða útgáfu af JL-húsinu hér í miðjum Þingholtunum. R-listinn hafði samþykkt að auka byggingamagnið hér í kring og það voru ótrúlegustu tillögur samþykktar í kringum þá dagskrá. Sumt þannig að ég held að byggingarfulltrúanum í Reykjavík hafi ekki verið sjálfrátt.

Við húsið mitt leyfði hann t.d. endurbyggingu óleyfisskúrs, sem niðurrifskrafa hafði verið á um árabil, þannig að eignarréttur okkar hjóna hefði verið verulega skertur. Það tók margra mánaða ótrúlegan erindrekstur og háan lögfræðikostnað áður en þeirri ákvörðun var hrundið, en það er enn fast í kerfinu einhvernsstaðar og skúrinn enn á sínum stað. Hinu megin við húsið er annar skúr, um 30m2, en nýja deiliskipulagið heimilaði að ofan á hann mætti byggja örlítið meir. Ætli það sé mikil eftirspurn eftir skúrum með turni ofan á? Hér kippkorn fyrir ofan er svo hús, sem var leyft að byggja ofan á til þess að þétta byggð. Það hefur verið á byggingarstigi í tvö ár, en verktakinn reyndi víst að svindla eitthvað á teikningunni, þannig að þar er ekkert að gerast.

Þetta er samt ekki allt afleitt, eins og sést á því að fyrir andóf íbúa var fyrirætlunum um fyrrnefndan JL-kumbalda hrundið. Þess vegna var hægt að flytja þetta huggulega hús af Hverfisgötunni. Ég held að það sé annað á leiðinni, sem mun styðja við heildarsvip hverfisins. En eftir situr þessi hryggðarmynd, fallegt hús, sem er að grotna niður af ásettu ráði. Ég held að eigendurnir, ÞV verktakar, séu að þessu í einhverjum pervers hefndarleiðangri.

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir fyrrnefndum byggingarfulltrúa að hugsanlega geti hann beitt einhverjum dagsektum til þess að þvinga verktakann til aðgerða. Heyr á eindæmi! Óleyfisskúrinn á lóðinni minni er búinn að vera á dagsektum í 19 ár án þess að byggingarfulltrúi hafi gert nokkra tilraun til innheimtu. Þær nema liðlega 12 milljónum króna um þessar mundir, án tillits til vaxta eða verðbóta. Mér skilst að fjárhagsstaða borgarinnar sé bara svona og svona, þannig að þarna leynist lús.

Hitt er annað mál, að í tilvikum sem þessum eru fá úrræði. Það er t.d. ekki langt síðan ófyrirleitinn verktaki var að kaupa upp húseignir við Hverfisgötuna og lét draslið grotna niður til þess að draga fasteignaverðið í kring niður, meðan hann væri að kaupa upp. Hann leyfði meira að segja ógæfufólki að setjast að í sumum íbúðunum, sem hann hafði keypt og rýmt. En aðeins við hlið íbúða fólks, sem hafði verið tregt til að selja honum.

Erlendis eru víða lög eða reglugerðir, sem kveða á um að húseigendur verði að sinna eignum sínum. Vanræki þeir þær eða yfirgefi fellur eignarrétturinn úr gildi. Þetta er einmitt gert til þess að koma í veg fyrir að slík vanræksla dragi nágrennið niður með tilheyrandi tjóni. Annars staðar getur slík vanræksla opnað dyrnar fyrir hústökufólki, sem getur helgað sér húsið með því að setjast þar að, sletta málningu á veggi og gera það að heimili sínu. Slíkt væri sjálfsagt freistandi á dögum hás húsnæðisverðs. Er eitthvað slíkt eina leiðin til þess að örva svona slúbberta til dáða?


mbl.is Framtíð 100 ára húss í uppnámi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er dauðasynd að ræða um stóra Orkuveitumálið?

 


 

Sigurður Viktor Úlfarsson gerði athugasemd við síðustu færslu hjá mér, sem kallaði á svör af minni hálfu. Þau eru hins vegar þannig vaxin, að mér fannst ástæða til þess að svara þeim í færslu, fremur en í athugasemdunum einum. Sigurður Viktor skrifaði:

Snýst öll þessi umræða þá bara um að þú sért öfundsjúkur?

Það er búið að tala um alls kyns spillingu og sjálftöku (á meðan þeir sem er verið að fjalla um varðandi sjálftöku eru Haukur Leosson og Björn Ingi sem ákváðu að þeir sjálfir fengju ekki að kaupa hlut - það var nú öll sjálftakan), það er búið að tala um þennan fund sem á að vera ólöglegur o.s.frv. o.s.frv. 

En snýst þetta bara á endanum um öfund Andrés?  Ég held það nefnilega.  Ég held að verði almenningi leyft að kaupa bréf í fyrirtækinu þá skyndilega hætti allar þessar ásakanir og allir segi að allt sem þeir segja í dag að sé ekki í lagi verði í lagi.  Ótrúleg hræsni en nákvæmlega það sem þessi umræða öll gengur út á!

Fyrri færsla mín byggðist ekki á dauðasyndinni öfund, enda er auðsæld mín og örlæti legíó. En það er óþarfi að leggja mér orð í munn, ég vék ekki einu orði að meintri sjálftöku eða ámóta ásökunum um óhreinindi, sem Sigurður Viktor Úlfarsson gerir að umræðuefni. Kannski er ástæða til þess að ræða slíkar ávirðingar, ég veit það ekki, en Sigurður Viktor er í sjálfsagt í vondri aðstöðu til þess að ræða það með opinskáum hætti; síðast þegar ég vissi starfaði hann hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Þar fyrir utan er ég alls ekki þeirrar skoðunar að þessi kaupréttarumræða sé mergur málsins, eins og ég tók raunar sérstaklega fram og nefni einnig í bloggfærslu á Eyjunni, þó mér hafi virst sem forystumenn fyrirtækisins og pólitískir forsjáraðilar hafi gjarnan viljað láta sem svo, að kaupréttarákvæðin væru aðalagnúi málsins og allt myndi falla í ljúfa löð ef hann væri af sneiddur. En mér finnst hún nægilega athyglisverð til þess að það megi fjalla um hana enn um sinn, burtséð frá öðrum flötum.

Grundvallaratriði málsins snúast hins vegar um tvennt: hlutverk fyrirtækisins og eignarhald. Ég er þeirrar skoðunar að mönnum beri að hirða um eigur sínar, við vitum öll hvaða afleiðingar vanræksla hefur. Einu gildir hversu góð ráðskonan er, hún umgengst búið með öðrum hætti en húsfreyjan. Hið sama á við um fé án hirðis.

Meginvandi Orkuveitunnar er sá að eigendurnir eru alltof fjarlægir eign sinni. Stjórnendur og starfsmenn OR virðast líta á fyrirtækið sem góss, en eigendurna í besta falli sem greiðendur. Pólitískir stjórnendur, sem eiga að vera fulltrúar eigendanna, hafa svo smitast af þessu viðhorfi, eins og best sést á því hvernig Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri einangraði sig (og vin sinn Hauk Leósson) í stjórn OR frá öðrum borgarfulltrúum. Þó þeir Haukur sætu í þeirra friði í stjórn OR fannst honum hann ekki þurfa að ræða málefni fyrirtækisins við þá. Það býður hættunni heim.

Því fannst mér það sjálfsögð og eðlileg tillaga að nefna þennan kost, að gefa eigendum OR kost á forkaupsrétti í REI fyrir skráningu. Bæði af því að þeir eiga inni fyrir því, en ekki síður vegna þess að ég tel þeim og fyrirtækinu hollt að það sé raunverulegt almenningshlutafélag. Það væri enda eðlilegt framhald þessarar þróunar. Það væri ennfremur sérstaklega vel fallið til þess að ná þeim markmiðum fyrirtækisins „að friður ríki um starfsemi þess“.

Kaupréttarumræðan finnst mér útúrdúr, en hugsanlegur kaupréttur eigendanna er nátengdur aðalatriðum þess. Líkt og ég nefndi áður er sjálfsagt að verða við þeirri ósk REI, að ræða veigameiri þætti málsins. Mér finnst líklegt að ég geri það á næstu dögum, enda virðist málið hvergi nærri útrætt. Þar inn í kunna að blandast persónulegir hagsmunir og hvatir helstu söguhetjanna, eins og Sigurður Viktor vék að, og þá er skylt að ræða það, ef minnsti grunur er uppi um eitthvað misjafnt.

Mikilvægast og brýnast er að fjalla um grundvallarmálin: hlutverk og eignarhald fyrirtækja á vegum hins opinbera, ekki síst einokunarfyrirtækis eins og Orkuveitunnar, sem er rekið í skjóli útsvarsgreiðenda en virðist ekki þurfa að standa þeim nein reikniskil, lýtur sérstökum lögmálum um framboð og eftirspurn, en er undanþegið almennum reglum stjórnsýsluréttar, bæði hvað varðar reglur um málsmeðferð og launa- og starfskjör. Það er nú vandinn í hnotskurn, að þar vantar ábyrgð í samræmi við völd, auð og athafnafrelsi. Úr því verður að bæta.

Það kemur dauðasyndinni öfund ekkert við, en kannski koma hinar dauðasyndirnar sex við sögu umfjöllunarefnisins: Hroki, reiði, leti, ágirnd, ofát og munúð.

 

 

...................

Myndina að ofan tók Árni Torfason, sem gaf mér góðfúslegt leyfi til þess að nota hana. 


Veðrið í Víti

Ég undraðist netveðurfréttirnar frá Helvíti þar til ég fylgdist með kvöldfréttunum og komst að því að Gísli Marteinn Baldursson hefði beðist undan viðtölum. 


Hneykslið heldur áfram

Það ber vissulega vott um að það sé að rofa til í kollinum á þessum herramönnum, að nú eigi allir starfsmenn Orkuveitunnar að fá að njóta peningaprentvélarinnar í kjallara kastalans á Bæjarhálsi 1. En það ber vott um slægð og sjálfsbjargarviðleitni, ekki réttsýni og siðferðisvitund. Eins og þeir greina sjálfir frá:

Ljóst sé að umræða undanfarinna daga hafi ekki jákvæð áhrif á REI og það góða starf sem þar sé unnið. Þar hafi meginþungi umræðunnar beinst að afmörkuðum þætti sem sé sala á hlutabréfum til starfsmanna. Viðkomandi starfsmenn séu sammála því að það séu hagsmunir þeirra og fyrirtækisins að friður ríki um starfsemi þess og sýna því niðurstöðunni fullan skilning.

Þetta er sem sagt almannatengslaaðgerð, ekkert annað.

Á hitt má fallast, að það er miður að meginþungi umræðunnar skuli hafa beinst að þessum afmarkaða þætti hennar. Við getum þá kannski tekið að ræða veigameiri þætti málsins; af nógu er að taka.

Ég vil þó staldra við þennan afmarkaða þátt aðeins lengur. Gefum okkur eitt augnablik að það sé alveg frábært mál að almenningsfyrirtæki noti einokunartekjur sínar til þess að breyta sér í vogunarsjóð. Í þá stöðu komst fyrirtækið með því að hafa borgarbúa og borgarsjóð í ábyrgðum um leið og tekjurnar komu einnig úr vasa borgarbúa. Þessir sömu borgarbúar eru jafnframt eigendur fyrirtækisins.

Skýrt hefur verið frá því að stefnt sé að skráningu hins nýja sameinaða Reykjavík Energy Invest á hlutabréfamarkað, sem hugsanlega gefur vísbendingu um hversu lengi atvinnumennirnir í áhættufjárfestingum hyggjast staldra við. Ef helmingurinn af framtíðarsýn forystumanna fyrirtækjanna reynist á rökum reistur er ekki ólíklegt að verðmæti þess aukist næsta hratt, þó auðvitað sé ekkert í hendi um það. Svo ég spyr:

Af hverju í ósköpunum er eigendum fyrirtækisins
ekki gefinn kaupréttur í fyrirtækinu?

Það voru þeir, sem byggðu Orkuveituna og fyrirrennara hennar upp, og það eru þeir, sem hafa lagt fram megnið af verðmætunum, sem hið nýja fyrirtæki er reist á. Um það höfðu þeir ekkert val, hvorki um uppbyggingu fyrirtækisins né hvort þeir keyptu þjónustu hennar.

Það er alveg ljóst að fyrirtækið hefur okrað á eigendum sínum og viðskiptamönnum fyrst það á alla þessa fjármuni aflögu og hefur það þó einbeitt sér að því að gereyða peningum í vitleysu, bruðl og gæluverkefni mörg undanfarin ár. Þá var hafður uppi alls kyns fyrirsláttur og fals um það hvers vegna fjárþörf fyrirtækisins væri svo rúm. Eins voru arðgreiðslur til Reykjavíkurborgar oft býsna ríflegar, sem vitaskuld var ekkert annað en dulin skattheimta.

Allt þetta báru borgarbúar, borguðu og brostu. Nú skilst manni að auðgast megi á verðmætum, sem þrátt fyrir allt hafi byggst upp hjá fyrirtækinu, víðar en hjá hinum einokuðu viðskiptamönnum og eigendum fyrirtækisins. Og þess vegna eru nú allar þessar vélar, að græða á því pening, þó svo að stjórnendum borgarinnar og fyrirtækisins hafi ekki viljað spyrja kjörna fulltrúa eigendanna, hvað þá eigendurna sjálfa. Þeir vildu ekki einu sinni umræðu um það, hvað þá meir, sem vekur ákveðnar spurningar um tilganginn og meðölin.

En hvað verður um arðinn ef allt gengur vel? Fá eigendurnir hann? Nei, en það er talað um að þeir muni njóta hans. Já, já, eins og þeir hafa notið arðsins af Orkuveitunni til þessa. Þessa óljósa arðs af einokunni á þeim sjálfum. Og öll vitum við hvað borgin fer vel með fjármuni almennings. Næstum því jafnvel og Orkuveitan. Það verður aðeins enn ein tegund skattheimtu, en menn skyldu ekki ímynda sér eitt augnablik að það verði til þess að útsvarið lækki.

Ég bíð spenntur eftir að borgarstjóri eða stjórnarformaður fyrirtækisins sýni það frumkvæði að bjóða eigendunum kaupréttartilboð, fyrst nú liggur fyrir viðurkenning þeirra á því að einhver tiltekinn hópur eigi það skilið. Getur nokkur hópur verið betur að því komin en hinn óspurði eigendahópur, sem jafnframt hefur unað eiginfjársöfnun úr öllu hófi og það á eigin kostnað? Það hlyti enda að styrkja fyrirtækið mjög ef það yrði raunverulegt almenningshlutafélag á fyrsta degi skráningar á markaði, með dreift eignarhald,
áþreifanlega tiltrú almennings og svo framvegis.

Hvernig væri að ræða það mál sérstaklega og til hliðar við aðra anga málsins? Án þess að draga af okkur við að brjóta þá til mergjar. 


mbl.is Samþykkt að endurskoða sölu á hlutabréfum í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband