Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006
30.11.2006 | 12:15
Líkklæði Supermans
Ég les að hasarblaðateiknarinn Dave Cockrum hafi látist úr sykursýki aðeins 63 ára að aldri, en hann átti einna mestan þátt í að gera X-men að þeim sagnabálki, sem orðinn er. Sérstaka athygli vekur að Cockrum gaf upp öndina í Superman-náttfötum undir Batman-teppi.
Sumum finnst það kannski broslegt, en ég spyr: Hvað var þessi einn helsti máttarstólpi Marvel Comics að gera umvafinn í menningararfleifð frá erkióvinunum hjá DC Comics, en þaðan eru þeir Superman og Batman báðir.
Kannski það snúist eitthvað um deiluna um höfundarrétt á efni því, sem Cockrum vann fyrir Marvel, en þeir borguðu honum nú samt á endanum þannig að veikindin reyndust honum ekki erfiðari en þurfti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2006 | 10:20
Einsatzgruppe 1627
Orðið á götunni, persónulegur bloggur Andrésar Jónssonar formanns Ungra jafnaðarmanna, greinir frá því að Sveinn Arnarson, ungur jafnaðarmaður á Akureyri, hafi fengið inn um lúguna hjá sér umslag stappfullt af kynþáttaáróðri, þó ekki sé farið nánar út í þá sálma.
Umslagið var merkt Group 1627, sem væntanlega vísar til Tyrkjaránsins í Vestmannaeyjum, en um miðjan júlí 1627 gerðu um 300 sjóræningjar úr Barbaríinu strandhögg þar og hnepptu 242 Vestmannaeyinga í þrældóm og seldu í Algeirsborg. Ætli það megi ekki telja til hryðjuverks? Allt um það er tæplega hægt að kenna Tyrkjum eða Serkjum um ránið, þó sjóræningjarnir hafi notið griða Barbarísins og selt ánauðarfeng sinn þar. Þetta voru allra þjóða kvikindi og sjálfsagt flestir útlagar úr Kristindómnum (Evrópa var sjaldnast svo nefnd á þeim dögum).
Hitt er svo annað mál, að það er sjálfsagt full ástæða til þess að hafa áhyggjur af sókn íslamista í Evrópu þessa dagana, en það kemur kynþáttum ekkert við. Öðru máli kann að gegna í norðaustanverðri Afríku, þar sem arabar fást enn við að hneppa negra í þrældóm, en það liggur nánast í þagnargildi.
Aftur til Akureyrar: Hvers konar þjóðernissinnar eru það, sem nefna sig Group 1627? Það mætti halda að ástkæra, ylhýra væri ekki nógu fínt fyrir þá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.11.2006 | 19:18
Borgarastyrjöld hvað?
Ástandið í Írak er Morgunblaðinu hugleikið þessa dagana, enda er það að snúast í afstöðu sinni til hernaðaraðgerða þar og telur Bandaríkjamenn og Breta ófæra um að ljúka ætlunarverki sínu þar. Forystugrein blaðsins í dag fjallar um anga málsins undir fyrirsögninni Borgarastyrjöld í Írak og hefst á þessa leið:
Nú er deilt um það í Bandaríkjunum og Írak, hvort borgarastyrjöld hafi brotizt út í Írak. Auðvitað þarf ekki að deila um það. Borgarastyrjöld hefur staðið yfir í landinu í töluverðan tíma.
Nei, það þarf ekkert að deila um það hvorki í Bandaríkjunum né Írak fyrst að Morgunblaðið hefur kveðið upp úr um það! Eða hvað? Hefur blaðið rétt fyrir sér um það? Ég held ekki.
En hvað er borgarastyrjöld? Fram að þessu hefur það ekki vafist sérstaklega fyrir mönnum, það þarf að vera stríð með borgurum landsins og markmið stríðsaðila þarf að vera að ná völdum í ríkinu. Meginskilyrðin eru sumsé þrjú:
- Átökin þurfa að eiga sér stað innan landamæra ríkisins, þátttakendurnir þurfa að mestu að vera íbúar landsins og borgararnir þurfa að eiga ríkan þátt í sjálfum átökunum.
- Það þarf að vera um eiginlega styrjöld að ræða, þar sem ljóst er hverjir eiga í hlut; styrjaldaraðilar þurfa að vera skipulagðir að einhverju marki, eiga sér leiðtoga, sem segja fyrir hverju þeir eru að berjast og hvers vegna og þjóðin borgararnir þarf að átta sig á því.
- Markmiðið þarf að vera völdin í ríkinu, styrjaldaraðilar þurfa annað hvort að vilja ná þeim eða halda.
Þetta síðastnefnda er einkar mikilvægt, því ættbálkaerjur og ámóta telst ekki vera borgarastyrjöld, menn verða að vera að berjast um völdin í landinu. Efist menn um það er hollt að rifja upp hvernig menn skilgreina borgarastyrjaldir í mannkynssögunni, því á þeim vettvangi eru menn afar vandfýsnir. Fæstir telja þannig herför Haralds lúfu til þess að leggja Noreg undir sig á 9. öld hafi verið eiginleg borgarastyrjöld og hið sama má segja um óöldina í Sómalíu eða Líberíu, sem standa nær okkur í tíma. Í raun má segja að aðeins séu fimm óumdeildar borgarstyrjaldir í mannkynssögunni:
- Enska borgarstyrjöldin á 17. öld
- Bandaríska borgarastyrjöldin á 19. öld
- Rússneska borgarastyrjöldin upp úr byltingu
- Spænska borgarastríðið á 4. áratugnum
- Stríðið í Líbanon frá 1975-1990, sem kann raunar að vera að blossa upp enn á ný um þessar mundir.
En þrátt fyrir að samtök vígamanna skreyti sig með hernaðarlegum nöfnum er ekki um neinn eiginlegan hernað að ræða, sem útskýrir m.a. hvers vegna íraska hernum gengur svo illa að stilla til friðar. Það er ekki heldur neitt hernaðarskipulag, samhæfing eða foringjar. Hernaðurinn felst í hryðjuverkaárásum á óbreytta borgara, en markmiðin eru öllum óljós ef undan eru skildar eilífar hefndarárásir millum súnníta og shíta.
Ég held þess vegna að Morgunblaðið hafi rangt fyrir sér um þetta grundvallaratriði, sem það kýs að gera að leiðaraefni. Hér ræðir vissulega um innanlandsófrið, en hann er svæðisbundinn, mjög flókinn, afar tengdur óleysanlegum trúarágreiningi og miðar ekki að því að ná óskoruðum völdum í Írak.Maliki hefur glatað stuðningi bandamanns úr röðum sjíta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.11.2006 | 17:36
Meira í pakkanum?
Um daginn fréttist það að Íslandspóstur hefði verið að færa út kvíarnar með því að kaupa prentfyrirtækið Samskipti. Fannst mörgum sérkennilegt að ríkisfyrirtæki með lögbundna einokunarstarfsemi væri að breiða úr sér með þessum hætti og þrengja að einkageiranum. En eftir dulítinn hvell koðnaði málið einhvernveginn niður. Það var engan veginn tímabært, því Pósturinn er búinn að vera í víðtækari innkaupaleiðangri og það meðal annars á fyrirtækjum, sem erfitt er að sjá að tengist starfsemi hans á nokkurn hátt. Þannig mun Pósturinn t.d. vera kominn með meirihluta í Modernus og fleiri hafa safnast í sarpinn.
29.11.2006 | 17:10
Páfi pólitísks réttrúnaðar
Um daginn kom fram að Benedikt páfi XVI. tæki fram í formála nýrrar bókar sinnar um Jesúm Krist frá Nazaret, að þær skoðanir, sem hann setti fram þar, væru opnar fyrir gagnrýni. Með þessu þótti hann draga sterklega í efa óskeikulleika páfa, því guðfræðingurinn Joseph Ratzinger geti illa skilið milli sín og embættis síns. Nú er ég ekki pápisti, þannig að ég hef aldrei viðurkennt óskeikulleika hans heilagleika. en mér þótti þessi póstmódernismi úr páfastóli honum ekki til álitsauka.
Í dag les ég í fréttum frá Tyrklandi, að páfi hafi samsinnt þeim orðum Recep Tayyip Erdo%u011Fans, forsætisráðherra Tyrklands, að íslam væri trúarbrögð friðar, kærleika og umburðarlyndis! Erindi páfa til Tyrklands var að bæta samskiptin við aust-rómversku réttrúnaðarkirkjuna, sem skildi við Róm árið 1054 og því varla seinna vænna. En manni sýnist helst á þessu að hann sé á góðri leið með að breyta kaþólsku kirkjunni í pólitíska rétttrúnaðarkirkju. Er hann galinn eða er allt til salgs?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.12.2006 kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2006 | 02:21
Blindgötur Skjás 1
Skjár 1 verður að hætta að leika sér að áhorfendum. Ég skal játa það að ég horfi nánast ekki á aðrar stöðvar mér til afþreyingar og þeir hafa verið afar fundvísir á góða þætti. Ég get t.d. varla beðið eftir því að Boston Legal og House hefjist á nýjan leik.
En síðan lendir maður í því að fylgjast með þætti eins og Surface, sem lauk í háspennu með því að aðalsöguhetjurnar eru innikróaðar efst í kirkjuturni eftir að flóðbylgja hefur flætt allt umhverfis þau. Og sjórinn er uppfullur af sæskrímslum, sem manni skilst að geti átt eftir að erfa jörðina. Sumsé allt í voða og áhorfendur að vonum spenntir eftir næsta þætti. En það er enginn næsti þáttur, því NBC hætti við gerð þeirra eftir fyrstu vertíðina. Þetta er afar svipað og gerðist með þættina Invasion, sem ABC hætti við framleiðslu á þegar hæst stóð, en Skjárinn keypti samt sýningarréttinn á. Þetta gengur ekki, Maggi minn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2006 | 13:35
Enginn áhugi á eldvörnum
Í frétt á mbl.is, sem er vísað til hér að neðan, kemur fram að samkvæmt könnum sem Gallup gerði fyrir Brunamálastofnun og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) sé eldvörnum verulega ábótavant á mörgum heimilum. Talsvert vanti upp á að nægilega margir hafi reykskynjara, eldvarnateppi og slökkvitæki á heimilum sínum og alltof fáir (17,3%) segjast hafa gert neyðaráætlun fyrir heimilið. Þetta er vafalaust þörf ádrepa fyrir jól og áramót.
En ég verð samt að játa að reynsla mín af fagmönnunum í þessum bransa er ekkert sérlega traustvekjandi.
Ég bý í gömlu timburhúsi í grónu hverfi og næsta hús við hliðina á er líka timburhús. Vandinn er sá að á milli húsanna er óleyfisskúr, sem staðið hefur hér í einhverja áratugi sakir ótrúlegs sinnuleysis borgaryfirvalda, en um aldarfjórðungur er síðan samþykkt var á skúrinn niðurrifsskrafa. Skúrinn tengir húsin saman og einhvern ógæfudaginn myndi hann mynda eldbrú á milli þeirra. Ef kviknar í öðru húsinu mun hitt húsið verða sama eldi að bráð, en hús af þessu tagi fuðra upp á nokkrum mínútum og allar eldvarnir snúast um það að koma heimilisfólkinu út í stað þess að reyna að bjarga nokkrum verðmætum.
Af þeim sökum hafði ég samband við forvarnardeild Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og vildi að gerð yrði úttekt á skúrnum. Ég var minnugur þess hvernig eldur í óleyfisskúrum á baklóðum við Laugaveg hafði breiðst út í önnur hús og þá var gert mikið átak til þess að uppræta þá. En nei, það reyndist enginn áhugi á að athuga það. Við vorum akkúrat einni götu frá því svæði, sem tekið var til skoðunar í kjölfar stórbrunans við Laugaveg, og þar við þurfti bara að sitja! Mér leið eins og kúnna á tómum veitingastað, sem fær ekki afgreiðslu hjá eina þjóninum af því að ég sit ekki á hans borði.
En nú eru nýir herrar í Ráðhúsinu. Kannski ég hringi í gamla góða Villa.
Eldvörnum á mörgum heimilum verulega ábótavant | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2006 kl. 05:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2006 | 03:23
Grófir drættir Dóra
Ég fékk í dag áritað eintak af hinni glænýju og glæsilegu skopmyndabók Halldórs Baldurssonar, 2006 í grófum dráttum. Mér er enda málið eilítið skylt, því það var ég sem munstraði hann til þess að teikna fyrir okkur á Blaðinu á sínum tíma. Þessi bók staðfestir enn og aftur hversu góð ákvörðun það var, enda bera myndir hans með fullri virðingu fyrir öðrum kollegum einatt af öðru efni Blaðsins.
Auðvitað eru dagarnir misgóðir hjá Dóra eins og öðrum, tilefnin eru misgóð og hann misjafnlega stemmdur eins og gengur. Og menn geta rétt ímyndað sér hvernig þetta úthald er, dag eftir dag, viku eftir viku, já mánuði, ár. En hann heldur það út og ég man ekki eftir einni einustu teikningu hjá honum, sem féll flöt. Hann nær alltaf að sjá spaugilegar mála, jafnvel þó sumar séu kannski fremur grátbroslegar, og það sem meira er: hann hikar ekki við að taka afstöðu ef því er að skipta. Þannig getur hann í örfáum, grófum dráttum lagt fram þarft innlegg í umræðuna, innlegg sem vigtar. Það gerir hann að skopmyndateiknara á heimsmælikvarða.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 16:57
Möppudýrin misskilja netið
Nefnd um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi, sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði á síðasta ári, hefur loks lokið störfum. Áliti nefndarinnar var skilað til Geirs H. Haarde, núverandi forsætisráðherra, í dag og á vef Stjórnarráðsins mátti sækja .pdf-skjal, sem inniheldur skilabréf og skýrslu nefndarinnar, ásamt drögum að frumvarpi og kynningarbréf til forseta Alþingis. Þetta birtist vitaskuld á vef forsætisráðuneytisins, sem einnig hefur á sinni könnu íslenska upplýsingasamfélagið, sem á að leiða rafræna og gegnsæja stjórnsýslu og allt það.
En það er svo skrýtið að þetta merka plagg, sem unnið hefur verið í ritvinnslukerfi, sett upp og prentað; hefur síðan verið skannað inn til útgáfu í nefndu .pdf-skjali. Það skjal inniheldur sumsé ekki lengur texta, heldur myndir af texta. Ætli hinar og þessar skrifstofur hins opinbera séu svo ekki með fólk í vinnu hjá sér við að slá textann inn að nýju í tölvukerfi sín, þar sem einhver mun síðar raða þeim í stafrófsröð áður en hann setur þau í tætarann. Nei, stjórnkerfið hefur enn ekki áttað sig á netinu.
Það verður því að bíða ögn að ég birti gagnrýni mína á skýrsluna og frumvarpsdrögin, enda nauðsynlegt að henni fylgi allýtarlegar tilvitnanir, en sjálfur vil ég forðast í lengstu lög að þurfa að slá inn þessa ömurð sjálfur og reyni því að nálgast frumskjalið, þar sem má afrita textann. En til þess að gefa lesendum nasasjón af henni get ég þó sagt að ég tel frumvarpsdrögin hættulegustu aðför að lýðræði á Íslandi frá öndverðu. Meira um það síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2006 kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2006 | 15:31
Ranga fréttin ítrekuð á RÚV
Það er ekki að sjá að á fréttastofu RÚV sé nein innri rýni á fréttirnar, sem þar eru fluttar. Nema náttúrlega að þar viti enginn neitt eða enginn hlusti á fréttirnar. Að minnsta kosti virðist enginn í loftvarnabyrginu í Efstaleiti lesa þennan blogg! Rausið frá í morgun hélt nefnilega áfram í hádegisfréttum og sami kaflinn lesinn upp lítillega breyttur, aðeins afdráttarlausari:
Valdabaráttan er hörð milli flokka sem fylgja Sýrlandsstjórn að málum og hinna sem eru henni andvígir. Hezbollar eru í forystu andstöðunnar við Sýrlendinga og staðráðnir að fella ríkisstjórnina sem nýtur stuðnings Bandaríkjanna.
Hvað er þá að marka restina?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2006 kl. 03:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 17
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar