Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
30.9.2007 | 04:29
Lífsleikni 201
Það má rétt vera að ekki sé unnt að láta lokið við tilsögn í lífsleikni fyrir átta ára aldur, þó undirstöðuatriðinum sé komið á hreint þá. Þegar krakkar fara að stálpast blasa við ný viðfangsefni og nýr vandi. Þá mætti halda framhaldsnámskeið í lífsleikni, helst ekki síðar en um 13 ára aldur. Það er alltof seint að fara að halda því að fólki í menntaskóla.
Ég ætla ekki að gera lesendum það að birta þann bálk allan, en hann heitir Hávamál og stendur fyllilega fyrir sínu, þó uppruninn sé aftur í grárri forneskju en við kunnum fyllilega skil á. Það má lesa þau öll á netútgáfu Snerpu. Þar er tæpt á öllu því, sem er verið að býsnast við að kenna í lífsleikni í Menntaskólanum í Kópavogi, og miklu, miklu meira.
læri að meta áhuga- og hæfnisvið sín á gagnrýninn og raunhæfan hátt
Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir.
Því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.
[ ]
Skósmiður þú verir
né skeftismiður,
nema þú sjálfum þér sér.
Skór er skapaður illa
eða skaft sé rangt,
þá er þér böls beðið.
þjálfist í að skoða sjálfan sig og aðra á gagnrýninn og uppbyggjandi hátt
Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver,
sá er vitandi er vits.
[ ]
Það er enn um þann
er þú illa trúir
og þér er grunur að hans geði:
hlæja skaltu við þeim
og um hug mæla.
Glík skulu gjöld gjöfum.
þjálfist í að tjá og fylgja eftir skoðunum sínum, tilfinningum og hugðarefnum á opinberum vettvangi og í vinahópi
Kópir afglapi
er til kynnis kemur,
þylst hann um eða þrumir
Allt er senn,
ef hann sylg um getur,
uppi er þá geð guma.
fái tækifæri til að taka þátt í og njóta list- og menningarviðburða
Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman:
þá varð eg villur vega.
Auðigur þóttumst
er eg annan fann:
Maður er manns gaman.
læri að taka ábyrga afstöðu til kynlífs
Og nær morgni,
er eg var enn um kominn,
þá var saldrótt sofin.
Grey eitt eg þá fann
innar góðu konu
bundið beðjum á.
[ ]
Ráðumk þér, Loddfáfnir,
að þú ráð nemir.
Njóta mundu ef þú nemur,
þér munu góð ef þú getur:
Annars konu
teygðu þér aldregi
eyrarúnu að.
taki ábyrga afstöðu til fíkniefna og lyfja
Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.
[ ]
Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir.
Hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður var'g
í garði Gunnlaðar.
geti átt auðgandi og gefandi samskipti við einstaklinga óháð kyni, kynferði, þjóðerni, trú og líkamlegu og andlegu atgervi
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað.
Slíkt er volaðs vera.
[ ]
Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handarvanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé:
Nýtur manngi nás.
læri að taka ábyrga afstöðu sem neytandi í flóknu og margbreytilegu samfélagi
Mikið eitt
skal-a manni gefa:
Oft kaupir sér í litlu lof.
Með hálfum hleif
og með höllu keri
fékk eg mér félaga.
læri að umgangast sjálfan sig og umhverfi sitt af virðingu
Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi.
En ósvinnur maður
kann æva-gi
síns um mál maga.
30.9.2007 | 02:50
Lífsleikni 101
Í athugasemdum við færslu um lífsleikni hér að neðan er meðal annars sett fram sú rhetoríska spurnig hvort lestur ljóða sé ekki ámóta tímaeyðsla á skólagöngunni og lífsleikni. Ég held reyndar alls ekki að svo sé. Því birti ég hér á eftir námskeiðið Lífsleikni 101 í heild sinni, eins og síra Hallgrímur Pétursson gekk frá því. Það má kenna og temja börnum á nokkrum stundum fyrir átta ára aldur.
Heilræði
Ungum er það allra best,
að óttast Guð, sinn herra,
þeim mun viskan veitast mest,
og virðing aldrei þverra.
Hafðu hvorki háð né spott,
hugsa um ræðu mína,
elska Guð og gjörðu gott,
geym vel æru þína.
Foreldrum þínum þéna af dyggð,
það má gæfu veita,
varast þeim að veita styggð,
viljir þú gott barn heita.
Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra
Aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.
Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.
Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.
Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína.
Lítillátur, ljúfur og kátur,
leik þér ei úr máta.
Varast spjátur, hæðni, hlátur;
heimskir menn sig státa.
Víst ávallt þeim vana halt:
vinna, lesa, iðja,
umfram allt þó ætíð skalt
elska Guð og biðja.
29.9.2007 | 23:32
Hindurvitni og heilbrigðisstéttir
Vildi vekja athygli á nýrri færslu Péturs Tyrfingssonar á Eyjunni, en sá góði herra skrifar alltof sjaldan. En hann skrifar alltaf þannig, að tíma manns er vel varið í lesturinn. Að þessu sinni færir hann í tal kerlingarbækur, kukl og skottulækningar, sem virðast njóta skjóls eða afskiptaleysis heilbrigðisstétta. Orð í tíma töluð. Ein glefsa:
Við höfum öll stjórnarskrárbundinn rétt til að vera heimsk og vitlaus og boða öðrum galskapinn. Aftur á móti er okkur bannað það ef við höfum tekið okkur á herðar ábyrgð læknis, sálfræðings, hjúkrunarfræðings o.s.frv. Almenningur verður að geta treyst þessum fagstéttum og þeim er gert að byggja störf sín á vísindalegri þekkingu.
Nú er ég þeirrar skoðunar að fólki eigi að vera frjálst að leita þeirra lækninga, sem því sýnist. En meðan hér er við lýði einokun miðaldagilda í heilbrigðisiðnaði verða þau að lúta ströngum skilyrðum. Einokunin er veitt á þeirri forsendu að gildin búi yfir einstakri þekkingu; fyrir vikið fá þær aðgang að meðölum, sem öðrum er bannaður nema að þeirra ráði, og fær þeim í hendur vald um líf og dauða. Leggi þær skottulækningar af þessu tagi að jöfnu við eigin fræði, þá er grundvöllur einokunarinnar brostinn.
28.9.2007 | 22:30
Lífsleikni í MK
Ég les hjá Birni Bjarnasyni að hann hefur verið að fá fyrirspurnir frá Kópavogi, nokkuð á misskilningi byggðar:
Greinilegt er, að lífsleiknikennari í Menntaskólanum í Kópavogi hefur bent nemendum sínum á að senda mér tölvuspurningar um refsingar og þyngd þeirra. Þetta sannar mér enn, hve nauðsynlegt er, að kenna nemendum, að dómarar ákveða þyngd refsinga en ekki dómsmálaráðherra. Alþingi ákveður refsirammann með lögum en dómarar, hve mikið af honum er nýtt hverju sinni.
Áhyggjur Björns, fyrrverandi menntamálaráðherra, eru skiljanlegar, því ekki verður annað af færslu hans skilið en að menntaskólakennari í lífsleikni átti sig ekki á undirstöðuatriðum í stjórnskipulagi landsins. Svo geta menn velt því fyrir sér hvort ábendingar kennarans um fjöldafyrirspurnir til dómsmálaráðherra séu í einhverjum öðrum tilgangi en einungis til uppfræðslu nemendanna.
En ég hjó eiginlega eftir öðru. Lífsleikni í menntaskóla?! Hér ræðir um fólk á barmi þess að vera fullorðið og það er verið að kenna því lífsleikni. Nasasjón sú, sem ég hef af þeirri námsgrein í grunnskólum, varð ekki til þess að efla tiltrú mína á menntakerfinu, námskrárgerð eða virðingu pedagóga fyrir tíma skjólstæðinga sinna.
Ég hef hins vegar ekki nennt að fetta fingur út í það, því það er ekkert nýtt að grunnskólar séu öðrum þræði dagvistarstofnanir. Þannig var það líka þegar ég var að slæpast þar fyrir 30 árum eða svo. En þurfi fólk að læra lífsleikni í menntaskóla leyfi ég mér að draga í efa að það sé nægilega vel undirbúið til þess að eiga erindi í menntaskóla. Sem aftur leiðir til spurninga um hvort það sé endilega hið eina rétta hlutverk íslenska menntakerfisins að gera stúdenta úr öllum, sama hvað það kostar. Sama hvaða fræði eru lögð til grundvallar eða ekki. En það er nú efni í aðra færslu.
28.9.2007 | 20:37
Lofsöngur til Krónunnar
Ég var gerður út af örkinni til þess að kaupa inn til helgarinnar og fór eins og oftast út í Bónus í Kjörgarði. Ég veit að maður á helst ekki að leggja í verslunarferð þangað eftir kl. 15.00, allra síst á föstudegi, en ákvað að taka sjensinn. Það voru mistök. Búðin var enn stappaðri en venjulega og grískt Ginnungagap við kassana, enda sýndist mér afgreiðslufólkið flest vera erlendir unglingar í starfskynningu. Eins og atvinnuástandið er hérna er erfitt eða vonlaust við það að eiga og Bónus engan veginn sér á báti hvað það varðar, eins og ég minntist á í síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins fyrr í dag.
En þetta varð mér um megn, svo ég sneri frá og leitaði hælis í kjallaranum í Kjörgarði, í Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar nánar tiltekið, en þar ræður ríkjum frændi minn Þorlákur Einarsson, sem sjálfsagt er gáfaðasti, fróðasti og skemmtilegasti verslunarstjóri Reykjavíkur, að Braga Kristjónssyni fornbóksala undanskildum.
Eftir andlega nærandi samræður við Þorlák hóf ég verslunarleiðangurinn á ný og þá rifjaðist upp fyrir mér að einhverjir höfðu mjög mært hina nýju verslun Krónunnar við Fiskislóð úti á Granda. Ég var aldrei neitt hrifinn af Krónunni úti í JL-húsi, en ég ákvað að slá til og prófa þessa nýju Krónu-verslun.
Það er skemmst frá að segja að þessi verslun var ekki nógsamlega dásömuð í mín eyru. Hún er alveg frábær. Þarna er hátt til lofts og vítt til veggja, bjart og hreinlegt. Þó það væri föstudagseftirmiðdagur og klukkan að verða sex var engin örtröð þarna. Vöruúrvalið var alveg ágætt og það er sérstök ástæða til þess að benda á dagvöruna. Grænmetið var ekki lagerafgangur vikunnar eins og maður lendir alltof oft í hjá keppinautnum og mér finnst alveg til sérstakrar fyrirmyndar að kjötiðnaðarmennirnir starfa fyrir allra augum bak við glervegg. Verðið var sambærilegt við það, sem gerist hjá Bónus, en upplifunin var miklu nær því sem maður á að venjast í Hagkaupum eða Nóatúni. Þannig að mér fannst ég fá miklu meira fyrir peningana, bæði hvað varðar vörugæði og þægindi, sem ég met nokkurs. Þarna voru næg bílastæði og starfsfólkið sýndi af sér þjónustulund og gott viðmót, alveg frá kerrumeistaranum til kassadömunnar.
Ég mun halda tryggð við Melabúðina þegar ég vil gera okkur dagamun og Nóatún eða Hagkaup þegar ég vil njóta breiðs vöruúrvals. En hvað stórinnkaupin varðar held ég að Krónan hafi verið að eignast nýjan fastakúnna.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2007 | 01:04
And about bloody time!
18.9.2007 | 10:02
Meira um minningagreinar
Fyrir hálfu ári, upp á dag, skrifaði ég athugasemd hér á blogginn um það hvernig Morgunblaðið væri í heljargreipum minningagreina, þær tækju of mikið rými, klyfu blaðið í herðar niður og hindruðu eðlilegar breytingar á því. Ég gerði mér vitaskuld grein fyrir því, að þær væru hluti af því, sem gerði Morgunblaðið að Mogganum okkar, og hluti af því, sem gerir Ísland að Íslandi. En samt taldi ég að þessu þyrfti að breyta með einhverjum hætti og nefndi sitthvað um það, sem gera mætti til þess:
Morgunblaðið gæti áfram birt stutt æviágrip þeirra, sem bornir eru til grafar þann daginn, og síðan gæti blaðið jafnframt líkt og tíðkast í stærri blöðum erlendis birt eigin minningargreinar um merkilegt fólk, 1-2 í hverju tölublaði. Í bresku stórblöðunum er þessi háttur hafður á og greinarnar eru jafnan svo vel skrifaðar að þær eru hið ágætasta lesefni. Sjálfur glugga ég reglulega í þær, enda fær maður þar oft nasasjón af merkisfólki, sem maður hefur oft ekki einu sinni vitað að væri til. Þar er líka kærkominn spegill af mannseðlinu, sem fjölmiðlar ná yfirleitt illa um að fjalla með öðrum hætti.
Viðtökur lesenda minna við þessum hugmyndum voru almennt vinsamlegar, þó einhverjir hefðu áhyggjur af því að blaðið færi að stunda mannajöfnuð með þessum hætti, að draga hina horfnu í dilka merkismanna og annarra. Ég benti hins vegar á, að þó við vildum allt til vinna til þess að fólk væri jafnrétthátt í lífinu, mætti vel viðurkenna það, að fólk hefði misjafnlega unnið úr sjálfu sér og tækifærum lífsins og að slík uppgjör væru fullkomlega við hæfi að leiðarlokum. Engin ástæða væri til þess að reyna að jafna um menn, einmitt þegar stóri jafnaðarmaðurinn, sláttumaðurinn slyngi, væri nýbúinn að gera þá hnífjafna.
En fólk getur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Peningasöfnun liðþjálfa í Hjálpræðishernum getur þannig reynst þyngri á metunum í þessu samhengi en auðsöfnun moldríks verðbréfagosa. Eða góður barnakennari merkari en menntamálaráðherra. Jafnvel Paris Hilton (sé hún dauðleg) gæti uppskorið minningargrein, ekki endilega vegna framlags hennar til mannsandans heldur kannski fremur vegna þess sem frægð hennar segir okkur um mannseðlið.
Nú sýnist mér að Morgunblaðið sé að feta einhverja braut í líkingu við þá, sem ég nefndi. Upp á síðkastið hefur blaðið fengið ýmsa vel ritfæra menn eða eigin blaðamenn til þess að skrifa minningargreinar um valda menn á miðopnu blaðsins, en meiri heiður getur Morgunblaðið ekki sýnt mönnum. Og það eru ekki aðeins menningarpáfar, stjórnmálamenn eða aðrir fínimenn, sem hljóta þann sess; í gær skrifaði Sigmundur Ó. Steinarsson fallega og persónulega grein, sem samt átti erindi við lesendur alla, um Ásgeir Elíasson, fótboltaþjálfara, sem varð bráðkvaddur í liðinni viku.
Nú vona ég aðeins að blaðið haldi áfram á þessari leið, birti áfram dánarauglýsingar og æviágrip, líkt og birt eru nú þegar í upphafi minningagreina, en taki afganginn inn á Netið með loforði um að þar verði ævarandi bautasteinn. Það er ekki dýrt og verður æ ódýrara. Hið eina, sem ég sé að gæti verið verra í því samhengi, er að í ljósi þeirra kynslóða, sem hverfa næstu áratugi, er viðbúið að afreksmennirnir þyki fleiri karlkyns en kvenkyns. Það má treysta því að tölfræðifemínistarnir haldi því til haga. En í millitíðinni geta þeir kannski talið dálksentimetrana eins og þeir birtast um náina núna og kyngreint þá.
16.9.2007 | 17:18
Kynjamyndir kvikmynda
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kennir ýmissa grasa að venju. Þar má meðal annars finna tvö viðtöl við tignendur Thalíu, þau Silju Hauksdóttur, leikstjóra, og Jóhann Ævar Grímsson, handritshöfund. Silja leikstýrði kvikmyndinni Dís á sínum tíma (og skrifaði handritið upp úr samnefndri metsölubók, sem hún var einn þriggja höfunda að), en í sumar leikstýrði hún næstu röð Stelpnanna fyrir Stöð 2. Ævar skrifaði handritið að Astrópíu og er einn handritshöfunda Næturvaktarinnar, grínþáttaraðar sem Stöð 2 hefur sýningar á í kvöld. Þau eru á svipuðu reki og fljótt á litið á svipuðum stað í lífinu, en Inga Rún Sigurðardóttir tók bæði þessi viðtöl.
Það hefði því ekki komið manni á óvart þó viðtölin tvö hefðu verið nokkuð keimlík, en það er öðru nær. Auðvitað eru þau Ævar og Silja ólíkt fólk, ég kannast við þau bæði, og aðkoma þeirra að kvikmyndagerðinni var með sitt hvorum hættinum. En meðan Ævar er augljóslega himinlifandi yfir að hafa ná sér á strik í þessum harða bransa er Silja mun reyndari og það skín í gegn. Ég held að allir þeir, sem hafa áhuga á kvikmyndagerð hafi gagn og gaman af því að lesa þessi viðtöl og bera þau saman.
Viðtalið við Silju er umfangsmeira og því er gert hærra undir höfði með tilvísun og stórri mynd á forsíðu. En forsíðutilvísunin er eilítið skrýtin, finnst mér. Fyrirsögnin er Sögur af báðum kynjum og undirfyrirsögnin er ❚ Fleiri kvenleikstjórar samfélagsleg nauðsyn ❚ Íslendingar aftarlega. Síðan er haft eftir Silju:
Það er staðreynd að það er alltof lítið af kvenleikstjórum á Íslandi. Það er augljóst að það að gera bíómyndir er listræn ábyrgðarstaða sem krefst gríðarlegra fjármuna og fjármögnunar. Peningarnir og aðgangur að fjármagni er eitthvað sem hefur áhrif á þetta jafnvægi og raskar þess vegna kynjahlutfallinu. Því er miður og þessu verður að breyta. Það er samfélagsleg nauðsyn að sögurnar okkar séu sagðar af báðum kynjum til jafns ef við ætlum að halda því fram að þær endurspegli samfélag okkar á raunsæjan hátt, segi okkur eitthvað um okkur sjálf.
Af þessu mætti draga þá ályktun að Silju sé mjög heitt í hamsi vegna þessa og það væri hennar helsta erindi í kvikmyndagerð. En það er nú ekki svo, þó hún sé femínisti. Hún segir enda líka:
Ég hugsa ekki mikið um að ég sé kona í þessum bransa og mér persónulega finnst kyn mitt ekki skipta máli í þessu samhengi. Í gegnum tíðina hefur það að vera kona bæði unnið með mér og á móti mér en ég velti mér ekki upp úr því.
Hið skrýtna er, að í viðtalinu inni í blaði er ekki minnst á þetta aðalatriði forsíðutilvítnunarinnar. Enda væri það alveg alveg út úr kú þar inni og myndi brjóta upp afar eðlilega og flæðandi framvindu þess. Ég veit ekki hvað veldur, en þessi framsetning er augljóslega á ábyrgð blaðsins og það lýsir ekkert sérstaklega miklum trúnaði við viðmælandann að gera að aðalatriði eitthvað, sem í hennar augum er ljóslega aukatriði í eigin lífshlaupi. Að minnsta kosti er þetta ójafnvægi Morgunlaðinu meira áhyggjuefni en henni.
En gefum okkur nú augnablik að þetta sé rétt, að hlutverk listanna sé að endurspegla samfélagið af raunsæi (sem ég er ekki viss um að sé endilega rétt athugað), hvort heldur er fyrir okkur núbúana til þess að spegla okkur í eða til þess að skilja eftir heimild fyir komandi kynslóðir. Hver segir að það verði best gert með því að listamennirnir séu eitthvert fall af lýðmengi dagsins? Hafa ekki velflestir góðir listamenn einmitt verið fremur óvenjulegir og einatt á skjön við hefðir dagsins? Er málið ekki einmitt það, að þeir eru flestir gestir í sínu samfélagi og með glöggt auga í samræmi við það?
Þeir D.W. Griffith, Cecil B. DeMille, Fritz Lang, Erich von Stroheim, Charlie Chaplin, Sergei Eisenstein, John Ford, Orson Welles, John Huston, King Vidor, Elia Kazan, Frank Capra, George Cukor, Alfred Hitchcock, Jacques Tati, Federico Fellini, Akira Kurusawa, Ingmar Bergman, Stanley Kubrick, Sidney Lumet, Sam Peckinpah, Roman Polanski, Ken Russell, Martin Scorsese, Woody Allen, Jean-Luc Godard, François Truffaut, Ridley Scott, Werner Herzog, David Lynch, Terry Gilliam, John Woo og Spike Lee, að ógleymdum þeim Hrafni Gunnlaugssyni, Friðriki Þór Friðrikssyni og Baltasar Kormáki, eiga það allir sameiginlegt að vera karlmenn, satt er það, en fyrst og fremst eiga þeir það sameiginlegt að vera óvenjulegir menn, með sjá samtímann, fortíð og framtíð með öðrum augum en aðrir. En það á líka við um þær Leni Riefenstahl (sem sjá má á myndinni að ofan), Jane Campion, Sharon Maguire, Sofia Coppola og Julie Dash.
Þessi upptalning segir hins vegar sína sögu og þá er rétt að hafa einnig í huga að ég teygi mig aðeins í upptalningu kvenleikstjóranna. Af þeim á aðeins Leni Riefenstahl öruggt sæti í kvikmyndasögunni með þeim körlum, sem upp voru taldir, og Jane Campion stingi ekki í stúf heldur. Jafnvel þó svo körlum væri kvikmyndaleikstjórn eiginlegri en konum af einhverjum óþekktum líffræðilegum ástæðum, verður því vart trúað að munurinn sé svo afgerandi. En hver veit, er klipparastarfið ekki nánast orðið kvennastétt?
Svo má auðvitað horfa á þetta frá allt öðrum vinklum ef við teljum nauðsynlegt að öllum sjónarhornum sé gaumur gefinn af þessum samfélagsspegli. Mætti ekki allt eins segja að hlutfall hægrimanna í kvikmyndagerð sé jafnvel enn lægra en hlutfall kvenna? Hvenær ætli Morgunblaðið bendi á það sem brýnt úrlausnarefni samfélagsins?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2007 | 18:19
Þöggunin
Allnokkur umræða hefur spunnist að síðustu færslu minni um málflutning Sóleyjar Tómasdóttur, ritara Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs; ekki aðeins í athugasemdum á bloggi mínum, heldur einnig í athugasemdum við bloggfærslur Katrínar Önnu Guðmundsdóttur, fyrrverandi talskonu Femínistafélagsins, bæði hér og hér. Þó verð ég að kvarta undan því, að femínistar eru enn helst að fjargviðrast yfir því hvort vitna hafi mátt til þessara orða á póstlista femínista, en sneiða nær fullkomlega hjá kjarna málsins, sem mér finnst grafalvarlegur og kalla á vitsmunalega umræðu. Svo ég endurtaki:
Mér finnst í orðum Sóleyjar felast hættuleg afstaða til lýðræðis og mannréttinda. Ég tel að hún boði siðleysi, sem felst í því að aflétta ábyrgð af einstaklingunum á gerðum sínum og láta það falla í skaut illa skilgreindu samfélagi, en um leið gerir hún því skóna að menningarsamfélögin eigi að leggja að jöfnu. Samfélögin virðist hún telja að eigi sér sjálfstæða tilvist, markmið, vilja, og réttindi, óháð einstaklingunum og þeim æðri, sem óneitanlega ber keim af fasískum sjónarmiðum. Jafnframt tel ég að röksemdafærslan feli í sér mannfyrirlitningu, sem eigi margt skylt við kynþáttahatur.
Að því sögðu er mér hins vegar ljúft og skylt að taka fram, að ég fagna því að Sóley skuli hafa gert grein fyrir skoðunum sínum með margnefndum hætti. Þó þær hafi ekki gerðar almenningi ljósar að hennar undirlagi. Eins virðist mér nauðsynlegt að taka fram að ég hef ekkert út á Sóleyju að setja þó mér finnist tilteknar skoðanir hennar ámælisverðar og öllum hugsandi mönnum og frelsisunnandi skylt að mótmæla þeim harðlega. En þvert ofan í það, sem sumir virðast ætla, vil ég endilega að Sóley opni hug sinn sem mest og oftast.
Opinber umræða á Íslandi helgast alltof oft af viðteknum viðhorfum og pólitískum rétttrúnaði, sem yfirleitt er sett fram sem almenn, óljós afstaða, en nánast aldrei í rökstuddum efnisatriðum eða tvímælalausum yfirlýsingum. Á sinn hátt er það því eins og ferskur andblær í stjórnmálaþvargið hér, þar sem flokkarnir virðast hver öðrum líkari hinum, þegar ritari Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og hálfkjörinn fulltrúi borgara Reykjavíkur stígur fram á bloggi sínum og gerir það lýðum ljóst, að þó henni þyki einstaklingarnir skipta máli, þá skipti stjórnvöld samt meira máli! Umræðan varð þá til einhvers, þó tilefnið hafi verið femínistum á móti skapi, en þetta sagði Sóley sumsé á opnum bloggi, en ekki á lokuðum póstlista. Það finnst mér vel tækt til frekari umræðu kjósenda þessa lands, því slík afstaða forystumanns stærsta stjórnarandstöðuflokks landsins til eðlis lýðræðisins, ríkisins og borgara þess, er vægast sagt óvenjuleg hin síðari ár. Ég hef ekki tekið eftir því að nokkur forystumaður vinstri grænna annar hafi andmælt þessu eða talið það vera á skjön stefnu flokksins. Er það ekki frétt?
Þetta þarf að ræða.
Í ljósi alls þessa finnst mér því harla einkennilegt að lesa hvernig ég (og fleiri fauskar eins og Pétur Gunnarsson og Egill Helgason) eigi að vilja þagga niður í Sóleyju með innantómu þvaðri út í gegn, eins og einhver komst að orði. Nú verða aðrir að dæma um þvaðurstuðulinn hjá mér, en ég get ekki skilið hvernig það, að vilja taka skoðanir hennar til athugunar og gagnrýni getur talist tilraun til þöggunar.
Að mínu viti eru tvær gerðir þöggunar helstar: Ritskoðun og hundsun. Ritskoðunartilburðirnir hafa allir komið úr einni átt í þessari umræðu og varla getur Sóley kvartað undan því að hafa verið mætt með þögninni einni.
Mér þykir það ekki boðleg vörn í þessu máli, að saka menn um einelti fyrir að taka Sóleyju á orðinu og leyfa sér að draga réttmæti skoðana hennar í efa. Það lýsir í raun ótrúlegu óöryggi á málflutningum, að hlaupa strax í það skálkaskjól, en vera ófáanleg til þess að ræða efni málsins nema á vernduðum vettvangi.
Kannski Sóley sé óskeikul, að það eitt að efast um réttmæti orða hennar sé í eðli sínu rangt. Að andófið eitt sé full afsönnun á sjálfu sér. Gerast þá fleiri pápískir en ég hugði. En máske er það málið, að hér ræður trúarsannfæring meiru en skoðun. Vantrúarseggirnir eru handan sáluhjálpar en pupulinn varðar ekkert um kenninguna, sem kúrían ein á að ræða í sínum hópi, helst á sértungumáli, fyrir órekjanlega leiðsögn almættisins. Síðan skal almenningur trúa í blindni, ótta og fullvissu. Lokaður póstlisti er þá réttnefnt klaustur.
Sjálfur hyggst ég áfram negla viðeigandi nótur og ótímabærar athugasemdir á þær hurðir, sem mér þykir við þurfa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eldri færslur
- Nóvember 2010
- Maí 2010
- Mars 2010
- Desember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Mars 2006
Tónlistarspilari
Góðar slóðir
-
Egill Helgason
Ugluspegill -
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Doktorinn -
Eyþór Arnalds
Eitt og annað -
Steingrímur Sævarr Ólafsson
Þegar stórt er spurt -
Sveinn Valgeirsson
Síra Svenni -
Stefán Einar Stefánsson
Innblásin orð -
Gísli Freyr Valdórsson
Varnarjaxlinn -
Snorri Bergsson
Vandræðaskáld -
Hjörtur J. Guðmundsson
Á hægri sveiflu -
Bjarni Harðarson
Sunnlendingagoðinn -
Páll Vilhjálmsson
Tilfallandi Palli -
politik.hexia.net
Safnþró samdrykkunnar -
Sigmar Guðmundsson
Vasaljósið -
Friðjón R. Friðjónsson
Frá greiningardeild -
Björn Ingi Hrafnsson
Varaborgarstjórinn -
Björn Bjarnason
Bloggfaðirinn -
Össur Skarphéðinsson
Viska úr Vopnalág -
Pétur Gunnarsson
Hux -
Birgir Ármannsson
Úr forsetastóli
Bækur
Á náttborðinu
-
: Infidel (ISBN: 0743289684)
-
: The Singularity Is Near (ISBN: 0670033847)
-
: The Force of Reason (ISBN: 0847827534)
-
: The Origins of Virtue (ISBN: 0140264450)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar