Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nefndin, það er ég!

Þetta er einkennilegt viðhorf hjá sólkonungi viðskiptanefndar Alþingis. Að fyrst hann hafi verið að glugga í pappíra fram eftir kvöldi sé nefndin önnum kafin. Sé þessi útskýring rétt og grunur Eyglóar rangur.

Hins vegar er Magnúsi Orra vel valinn staður í viðskiptanefnd. Hann þekkir viðskiptalífið vel síðan hann var kosningastjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík.


mbl.is Einkafundir í viðskiptanefnd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímaþjófar á þingi

timathjofar

Hvað er eiginlega að þessu liði?

Ísland er á hraðleið til Helvítis, m.a. fyrir þeirra atbeina, og þá telur það þarfast að eyða tíma þingsins í bollaleggingar um það hversu vel fólk klæðir sig í vinnunni!

Brýnasta málið í þeirra huga (sem mátti ekki einu sinni bíða þess að þing kæmi saman) var að fá það afdráttarlaust fram að þingmenn þyrftu ekki að vera með hálstau. Og hvað er svo fyrsta frumvarpið, sem fram kemur? Jú, að það verði að sjá til þess að dansmeyjar á veitingastöðum séu betur klæddar.

Af framgangi þessa máls má mæla það hversu mikil alvara er í þingheimi um að leysa landslýð undan ógnvænlegum efnahagsþrengingum. Geira á Goldfinger og kollegum hans gef ég hins vegar þetta ráð: Látið dansmeyjarnar fara úr hverri spjör… nema einni. Látið þær halda hálsbindinu.

— — —

Ég skora á kjósendur að leggja nöfn þessara ódáma á minnið, svo það sé unnt að hafna þeim í prófkjörum, forvölum eða alþingiskosningum, sem máske eru skemmra undan en margur hyggur. Þetta er lýðurinn, sem kýs að eyða tíma þingsins í tilgangslaus gæluverkefni:

Atli Gíslason

Ásta R. Jóhannesdóttir

Birgitta Jónsdóttir

Eygló Harðardóttir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Siv Friðleifsdóttir 

Steinunn Valdís Óskarsdóttir

Þórunn Sveinbjarnardóttir

Þuríður Backman

Burt með þau! 

 


mbl.is Vilja banna nektarsýningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loðpeningar heilagrar Jóhönnu

Þessi athugasemd Samfylkingarinnar þykir mér nokkuð sérkennileg. Látum efnisatriðin eiga sig, við verðum bara að trúa framkvæmdastjóranum um að Samfylkingin ætli að „mæta halla ríkissjóðs með aðhaldi, niðurskurði og baráttu gegn skattsvikum,“ þótt ekkert bóli á nánari hugmyndum um útfærslurnar.

Og þó, nei, við skulum ekki trúa Sigrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, minnug þess hvað það gafst vel að trúa síðasta framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, Skúla frænda mínum Helgasyni. Þessum sem átti að upplýsa um alla styrki yfir hálfri milljón en gerði það ekki. Ekki frekar en formaður flokksins eða flokksstjórnarmenn. Og hvernig var það, ætlaði nýi framkvæmdastjórinn ekki að vera búinn að birta upplýsingar um fjárstyrki til einstakra félaga Samfylkingarinnar? Ég bíð spenntur eftir því. Sérstaklega tölunum frá Samfylkingarfélagi Reykjavíkur árið 2006. Kannski Magnús Orri bloggi um þær við tækifæri. 

Hvað sem því líður þykir mér hneykslan Samfylkingarinnar vera fremur ankannaleg. Þessa dagana er á fullu herferð, sem kölluð er Sammála, herferð sem augljóslega er hluti af kosningabaráttunni. Hún nafnlaus með öllu, en kannski það sé vegna þess að fyrsætur auglýsinganna telji sig vera svo ofboðslega frægar. En við vitum ekkert um það hver fjármagnar þá herferð, hvert styrkir eru sóttir eða hvar eða hvort bókhaldið er að finna. Hitt er augljóst að þó undir áskorun Sammála skrifi allra flokka kvikindi, þá er herferð hennar vatn á myllu Samfylkingarinnar og aðeins Samfylkingarinnar. Það þarf ekki annað en að kynna sér stefnu flokkanna í Evrópumálum til þess að átta sig á því.

Nú veit ég ekkert um þann félagsskap, ekki frekar en hinn með skattaauglýsinguna. Ég dreg það nokkuð í efa að þeir séu beinum tengslum við nokkurn flokk. Það breytir hins vegar ekki hinu að þessir hópar eru þátttakendur í stjórnmálalífinu og markmið þeirra er beinlínis að hafa áhrif á kosningarnar. Svo vill svo skemmtilega til að málatilbúnaður þeirra hentar sumum betur en öðrum.

Það er fullkomlega fyrirsjáanleg afleiðing laganna um fjármál stjórnmálaflokka, sem sett voru 2006, og maður trúir ekki öðru en að háheilög Jóhanna (sem virðist hafa gengist undir þagnarheit) hafi séð það fyrir líka, svo lengi sem hún fjallaði um fjármál stjórnmálaflokka. Af hverju þykjast Samfylkingarmenn nú vera hissa og draga upp sinn besta vandlætingarsvip? Þetta er einfaldlega það, sem Kanarnir kalla „soft money“, en slíkur loðpeningur í stjórnmálum er helst til þess fallinn að auka áhrif sérhagsmunahópa.

Kannski mönnum finnist slík starfsemi hábölvuð, það les maður a.m.k. út úr skrifum vinstribloggara. En hvað? Verður næst kannski — í nafni heiðarlegra stjórnmála — öðrum bannað að birta stjórnmálaáróður en skráðum stjórnmálaflokkum á ríkisframfæri? Miðað við offorsið í minnihlutastjórninni kæmi manni slíkt ekki á óvart þegar hún verður komin með þingmeirihluta, eins og virðist stefna í.


mbl.is Samfylkingin svarar auglýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neysluréttur og eignaréttur

Knock, knock… Who’s there?

Ég sá á Vísi haft eftir Arnari Birgissyni hústökumanni, að í sínum huga skipti „eignarétturinn minna máli en neyslurétturinn.“

Þetta er merkileg skoðun. Má ekki einmitt færa fyrir því sterk rök að upphaf óhamingju Íslands hafi verið hvernig sumir töldu sig hafa öðlast neyslurétt en höfðu minni áhyggjur af eignarréttinum?


Hvaða „við“ eigum lífeyriskerfið?

Helgi í Góu á miklu kúluláni að fagna.

Ég sé að minn kæri Bjarni Harðarson er ánægður með framtak gotterísfurstans Helga Vilhjálmssonar í Góu gagnvart lífeyrissjóðunum. Segir hann hreyfa mikilsverðu máli, sem sé „brask og hálaunastefna lífeyrissjóðakerfisins“. Það má vel vera, enda er Helgi sjálfsagt hvorki ókunnur braski né háum launum.

Mér leikur hins vegar hugur á að vita annað: Í hvaða lífeyrissjóði er Helgi og af hverju reynir hann ekki fyrst að betrumbæta hann áður en hann gengst fyrir því að Jóhanna Sigurðardóttir taki allan lífeyri landsmanna undir sinn náðarfaðm? Og það undir kjörorðunum „Við eigum lífeyrissjóðina!“

Ég á einhver lífeyrisréttindi, en mér dettur ekki í hug að fyrir vikið eigi ég kröfu á aðra lífeyrissjóði líkt og Helgi lætur. Enn síður að með því að setja inn nafn og kennitölu á „undirskriftasöfnun“ Helga á netinu geti ég eða hann eða Jóhanna í nafni þjóðarinnar slegið eign sinni á lífeyriskerfið og látið það haga sér að þörfum mínum, hans eða Jóhönnu.

Þetta er kannski einkennandi fyrir þjóðfélagsumræðuna heima þessi misserin, í upplausninni og umrótinu í kjölfar áfallsins stíga fram allir landsins lukkuriddarar til þess að koma á framfæri sérstökum áhugamálum sínum, gamalkunnum að vísu, en eiga að sögn sérstakt erindi nú. Ég hugsa að þeir keisarar muni flestir reynast klæðaminni en þær dansmeyjar, sem nú liggur mest á að uppræta. Væntanlega til þess að slá skjaldborg um heimilin og koma hjólum atvinnulífsins í gang, svo vitnað sé til vinsælustu flatneskjunnar.


Bjarna Ben til forystu

Bjarni Ben fagnar sigri í prófkjöri

Nú stendur landsfundur Sjálfstæðisflokksins yfir og ég er illa fjarri góðu gamni. Ég skráði mig til setu á honum skömmu upp úr áramótum, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir boðaði til hans. Svo breyttist allt, stjórnin féll, Geir H. Haarde veiktist, fundinum var frestað og allt hitt. Þar á meðal breyttist það, að ég fluttist til Englands um nokkurra mánaða skeið.

Svo ég missi af landsfundinum. Ég sýti það nokkuð, því ég hafði hlakkað til þess að gera út um Evrópumálin þar eins og að var stefnt. Mín skoðun er sú að Ísland eigi að vera sjálfstætt ríki og leyfa Evrópu að fljóta að sínum feigðarósi. Ég segi mínum ensku vinum hér í Cotswolds að mér finnist að Bretar eigi að gera hið sama og geti máske fengið aðild að EES. Þeirri hugmynd er hvarvetna vel tekið, en Evrópusambandið nýtur lítils fylgis eða aðdáunar hér.

Heima munu flokkssystkin mín líka velja flokknum nýja forystu, en ég hefði líka viljað koma að því vali. Það skiptir verulega miklu máli að þar takist vel til. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að endurnýja hugmyndalegt erindi sitt og það verður ekki létt verk, þó hann hafi vissulega á sjálfstæðisstefnunni að byggja. Meira um það síðar.

Hin nýja forysta þarf því að búa yfir hugmyndaauðgi og vel grundvölluðum stjórnmálaskoðunum, því hennar hlutverk verða ekki bara „politics as usual“, eins og það er nefnt hér á Englandi. Við blasir að stjórnmálin þurfa að helgast af hugsjónum en ekki hagsmunum. Að auki verður að teljast líklegt að sjálfstæðismenn verði í stjórnarandstöðu næstu misserin, sem verður hinni nýju forystu nokkur eldskírn og kallar á óumdeilda leiðtogahæfileika, bæði til þess að halda eigin liði saman og berja á vinstriflokkunum (sem nú þykjast allt í einu hafa höndlað sannleikann), en umfram allt til þess að sannfæra þjóðina um að Sjálfstæðisflokkurinn sé traustsins verður. Um það virðast margir hafa efasemdir nú, en það kann að breytast fyrr en varir. Ástandið kann að virðast hábölvað nú, en ekki verður það skárra eftir að rauðgræna stjórnin verður búin að vera við völd í aðra 80 daga til. Hvað þá lengur.

Kristján Þór Júlíusson er snjall stjórnmálamaður og kann sitt fag, en ég held ekki að hann sé rétti maðurinn til þess að taka við Sjálfstæðisflokknum, þétta raðirnar og endurnýja erindi hans. Hans pólitísku hæfileikar liggja einfaldlega á öðrum sviðum.

Bjarni Benediktsson þykir mér hins vegar einsýnt að sé best til þess fallinn að taka við forystu Sjálfstæðisflokksins á þessum erfiðu tímum. Hann hefur þá pólitísku dýpt, sem til þarf, hefur ríka leiðtogahæfileika til að bera og er bæði vígfimur og varkár. Ég sé að sumir vilja meina að hann hafi fæðst með silfurskeið í munni, en ég myndi nú heldur benda á að honum eru stjórnmálin í blóð borin. Það held ég að sé ekki verra þessa dagana. Þvert á móti. Við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda, þá er um að gera að fá alvörugefna menn til forystu.

Samkvæmt skoðanakönnunum vilja nær 60% sjálfstæðismanna að Bjarni verði formaður, en um 36% styðja Kristján Þór. Mér kæmi ekki á óvart þó atkvæðatölur á landsfundi féllu á þann veg. Til allra vina minna og flokksfélaga á landsfundi sendi ég góðar kveðjur og skora á þá að kjósa Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Það liggur mikið við.


mbl.is Þjóðin fái að skera úr um ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanahannanir og fals í fjölmiðlum

simaver

Mér fannst hún soldið merkileg fréttin um að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi ekki einu sinni náð meirihlutafylgi í eigin kosningakerfi, þessari rómuðustu kosningamaskínu landsins. Samkvæmt stuðningsmönnum Gulla eru þeir aðeins að fá jákvæð svör frá 45% þeirra, sem hringt er í. Ekki finnst mér það nú til þess að senda út fréttatilkynningar um.

Í dag átti ég leið í kosningamiðstöð Illuga Gunnarssonar úti á Fiskislóð, en ég styð hann í 1. sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Í ljósi „fréttarinnar“ um þessa „könnun“ úthringivers Guðlaugs Þórs spurðist ég fyrir um hvernig svör Illugamenn væru að fá um stuðning í 1. sætið í sínum úthringingum. Það er skemmst frá því að segja að samkvæmt þeirra tölfræði ætla 96% viðmælenda þeirra að kjósa Illuga í fyrsta sætið, 2,7% vilja Geir Hallgrímsson en tveir nefndu Gunnlaug Þór Þórðarson, sem mér vitanlega er ekki í framboði.

Grínlaust þá skil ég ekkert í að fjölmiðlar skuli birta svona „frétt“. Sporðrennir Moggi hvaða þvaðri sem er og endurbirtir gagnrýnislaust? Hér er ljóslega ekki um skoðanakönnun að ræða, heldur einhverja statistík frá símsölufólki, sem engin leið er að staðfesta til eða frá, en er snikkuð til og látin líta út eins og frétt um eitthvað allt annað. Sumsé fals. Eyjan hafði þó fyrir því að birta viðbrögð Illuga og nefndi hina sérkennilegu aðferðafræði í fyrirsögn. Vísir birti hins vegar villandi frétt um að stuðningsmenn Guðlaugs Þórs hafi „látið framkvæma könnun“ líkt og þar hafi hlutlaust könnunarfyrirtæki komið að, en bæði þar og á mbl.is var nefnt svona í framhjáhlaupi að „könnunin“ hafi verið gerð „fyrir stuðningsmenn Guðlaugs Þórs af úthringihóp á vegum framboðs Guðlaugs Þórs“. Sumsé af símaveri hans, sem er miðverkið í kosningamaskínu hans!


mbl.is Stuðningsmenn Guðlaugs segja hann hafa forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangur Seðlabankafrumvarpsins kemur í ljós

Össur hlær við fót. 

Ég sá að Gísli Freyr Valdórsson, vinur minn og samstarfsmaður, var að fetta fingur út í fréttaflutninginn af þingstörfum Höskuldar Þórhallssonar undanfarna daga. Undir það get ég flest ef ekki allt tekið. Mætti raunar nefna fleira til.

Við eigum þó ekki að láta umgjörðina taka hug okkar allan. Stundum er innihaldið einhvers virði. Það á t.d. við um þessa viðhengdu frétt Þóru Kristínar Árnadóttur, sem Gísli Freyr gerði að umtalsefni. Í fréttinni leynist nefnilega frétt. Stórfrétt jafnvel, sem óskiljanlegt er að fjölmiðlar hafi ekki dregið fram með neinum hætti.

Undanfarnar vikur hafa forsætisráðherra og stjórnarliðar keppst við að fullvissa þjóð og þing um að Seðlabankafrumvarpið sé algerlega og einungis lagt fram á faglegum forsendum, að með því sé verið að styrkja Seðlabankann, breyta stjórnkerfi hans og nútímavæða. Hinu vísa þeir á bug, að tilgangur frumvarpsins sé sá að hrekja Davíð Oddsson úr Seðlabankanum, sama hvað það kostar.

Þangað til að Össur Skarphéðinsson, utanríkis- og iðnaðarráðherra sagði óvart sannleikann í málinu í þessari frétt, alveg undir blálokin.

… Ég held líka að þetta sé ekki gott fyrir Framsóknarflokkinn […] að það líti út [fyrir] að einn af þingmönnum Framsóknarflokksins sé að leggja sjálfan sig undir í vörn fyrir Seðlabankastjóra.

Þarna játar Össur hver er hinn eiginlegi tilgangur frumvarpsins, að sérhver töf á framgangi þess sé til þess eins að koma Seðlabankastjóra til varnar gegn gerræðinu.

Auðvitað vita allir menn þetta, þó minnihlutastjórnin hafi viljað láta öðru vísi. En þar er vandi hennar og veikleiki í hnotskurn: Hún getur ekki komið hreint fram — hvorki við þingið né fólkið í landinu. Að ekki sé minnst á gegnsæi, góða stjórnsýsluhætti, fagleg vinnubrögð og það allt.


mbl.is Höskuldur í háskaför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn í taugaáfalli

Don Quixote og Sancho Panza 

Ég á bágt með að skilja vanda ríkisstjórnarinnar. Af hverju tekur hún sér ekki bara alræðisvald og fangelsar stjórnarandstöðuna?

Það er nefnilega með ólíkindum að hlusta á fýluna, sem lekur af Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra yfir því að Alþingi vilji hafa eitthvað um það að segja hvaða lög ná fram að ganga hjá löggjafanum. Hún virðist blátt áfram undrandi á þessari ósvífni þingsins að vilja ekki bara taka við frumvörpum og samþykkja þau sisona.

Ég heyrt þessi sömu sjónarmið enduróma hjá ýmsum vinum mínum, sem fylgja Samfylkingunni eða vinstrigrænum að málum (taka verður fram að ekki eru allir mínir vinstrigrænu vinir á þessari skoðun), en það er eins og þeir átti sig ekki á því að ríkisstjórnin er minnihlutastjórn og getur ekki farið sínu fram í krafti þingstyrks.

Raunar er engu líkara en að forystumenn ríkisstjórnarinnar séu haldnir sömu afneitun. Þegar litið er til verkefnaskrár ríkisstjórnarinnar hefði hún verið afar metnaðarfullt plagg hjá ríkisstjórn með 2/3 þings að baki sér og heilt kjörtímabil framundan. Hjá minnihlutastjórn með 24 þingdaga í kortunum er það auðvitað tómt mál að tala um. Hreinlega galið. Mesta undrið er þó að þetta skuli gerast hjá ríkisstjórn, sem studd er af þingflokkum, sem sjálfir hafa sagt að þeir séu umboðslausir. Og nú vill hin umboðslausa minnihlutastjórn, sem var mynduð sérstaklega til þess að flýta kosningum (af því að þær máttu ekki bíða eina stund) fara að fresta kosningunum mikilvægu! Skyldu ráðherrarnir lúra á nýrri könnun?

Ruglið í þinginu

Þetta ástand hefur haft áhrif á ráðherraliðið og þingið, sem manni er svo sem sama þótt að skjálfi lítils háttar. En þetta er farið að valda vanda úti í þjóðfélaginu og það má ekki við meiru af svo góðu. Það er styttist í að landinu væri betur komið stjórnlausu en með þennan söfnuð; óvissan væri minni þannig. En áfram heldur ruglandinn í stjórninni og hann eykst með tímanum. 

Þetta rugl hefur sést afar vel í Seðlabankafrumvarpinu. Það ber með sér að vera hrákasmíð og ætlað til einhvers allt annars en sagt er opinberlega, sumsé að reka Davíð án þess að reka hann af því að lögin leyfa þessu liði ekki að reka hann. Eða aðra Seðlabankastjóra. Og það er fín ástæða fyrir því að það er þannig. Þar með er ekki sagt að Seðlabankastjóra geti ekki orðið svo á í messunni að hann verði að fara, en þá þarf líka að sýna fram á það og gera það rétt. En þessari ríkisstjórn virðist fyrirmunað að gera nokkurn skapaðan hlut rétt.

Þessi ofuráhersla á Seðlabankafrumvarpið og hvernig stjórnin getur ekkert annað aðhafst bendir til þráhyggju, sem stjórnin verður að ráða bót á. Verri eru þó ranghugmyndirnar og hið brenglaða sjálfsmat Jóhönnu & co. Ef þetta Seðlabankamál skyldi nú taka enda á undan ríkisstjórninni eru nefnilega fleiri stórmál á döfinni. Þar ber hæst harla metnaðarfullar og róttækar breytingar á stjórnarskránni, en fyrirhugaðar breytingar á kosningalöggjöfinni eru litlu minna róttækar.

Hvað stjórnarskrárbreytingarnar áhrærir er erfitt að sjá hvers vegna þær eru svona brýnar. Allra síst þó tillagan um að gera stjórnarskrárbreytingar auðveldari og einfaldari, sem manni skilst að eigi að vera einhvers konar undanfari innlimunar Íslands í Evrópusambandið. Þá er þetta lið að misskilja tilgang stjórnarskrárinnar fullkomlega. Stjórnarskráin er sá grundvöllur, sem öll önnur lög eru reist á, og það á að vera erfitt að breyta henni. Helst ætti hún náttúrlega að vera þannig að henni þyrfti aldrei að breyta. Fyrirætlun þessarar umboðslausu minnihlutastjórnar er hins vegar að búa svo um hnútana að henni megi breytast nánast eftir hentugleikum. En hún á ekki að blakta í vindinum, nóg er nú af vindhönunum samt.

Hvað má þá segja um fyrirhugaðar breytingar á kosningalögunum? Enginn af stjórnarliðinu hefur verið fáanlegur til þess að greina frá því nákvæmlega út á hvað þær gangi, af þeirri einföldu ástæðu að minnihlutastjórnin hefur ekki hugmynd um það sjálf. Hún vill bara „auka persónukjör“. Og enginn er neinu nær. Þó að kosningabaráttan sé hafin, út um allar trissur séu flokkarnir að velja á listana með margs konar hætti og menn miði þátttöku sína í gangverki lýðræðisins við þokkalega og vel þekkta löggjöf, ætla þessir snillingar að fara að hringla í henni kortér fyrir kosningar og hóta alls kyns ákvæðum til þess að hjálpa flokkunum að raða fólki „rétt“ á listana. Þessa sömu lista og kjósendum verður svo falið að ryðja með „auknu persónukjöri“! Og það er í alvöru ásetningur minnihlutastjórnarinnar að þjösna þessu dularfulla frumvarpi í gegnum þingið, jafnvel þó ekki ríki eining um það. Eru þess nokkur dæmi að breytingar á kosningalögum séu keyrðar í gegn nema með breiðri samstöðu? Kannski það verði ekki vanþörf á alþjóðlegum kosningaeftirlitsmönnum.

Hver er sinnar ógæfu smiður 

Ekki þar fyrir, ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því að nokkurt af þessum frumvörpum nái fram að ganga. Innan stjórnarinnar eru þegar talsverðir brestir og hún er hratt og örugglega að uppgötva hinn hryllilega sannleika: að hún er aðeins með minnihluta á þinginu og getur ekki farið sínu fram að geðþótta Jóku og Gríms. Það hefðu flestir áhugamenn um stjórnmál getað sagt þeim fyrirfram. Jafnframt, að einmitt þess vegna yrði stjórnin að velja mál sín af stakri kostgæfni og þoka þeim áfram af mikilli tillitssemi í þingi, vildi hún á annað borð aðhafast eitthvað frekar en starfsstjórn ber.

Það hentar stjórnarflokkunum að hamast að Framsóknarflokknum og kenna honum um allar sínar ófarir. En það er þýðir ekki að kenna framsóknarmönnum um ruglið. Þeir sögðu hátt og snjallt að þeir myndu að svo stöddu verja stjórnina vantrausti. Í því felst skuldbinding þeirra og öðru ekki, þó stjórnarliðið vilji ímynda sér eitthvað annað fyrst hún hafði fyrir því að kynna framsóknarmönnum helstu áform sín þegar verið var að mynda stjórnina. 

Enn síður fer það þessari ríkisstjórn vel að krefjast þess að þingmaður í flokki utan stjórnar hlíti ímynduðu samkomulagi og reglum ríkisstjórnarinnar í störfum sínum á þinginu. Hún er með öðrum orðum að segja að sannfæring þingmannsins skipti engu þegar ríkisstjórninni finnst annað. Já, hún er mikil lýðræðisástin hjá stjórninni, að ekki sé minnst á geðprýðina og jafnvægið. Einmitt þannig fólk, sem best er að fela að breytingar á stjórnarskrá og kosningalöggjöf.


Samfylkingin lagar lýðræðið

Nútímalegur jafnaðarmannaflokkur á nýrri öld

Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi mun velja í 5 efstu sætin á framboðslista flokksins í komandi alþingiskosningum með netprófkjöri. Við uppröðun á listann verði fylgt svokölluðum fléttulista. Fimm efstu sætin í prófkjörinu eru bindandi með fyrirvara um uppröðun samkvæmt fléttulista.

Mér sýnist Samfylkingin vera að ná nýjum hæðum í lýðræðinu. Held ég, því auðvitað getur maður ekki verið viss um að skilja þetta stagl rétt. Spurningin er þó kannski frekar til hvers verið er að standa í þessu fyrst Samfylking vill óð og uppvæg — aðallega þó óð — setja ótilgreindar reglur í lög um „aukið persónukjör“. Hvað sem það nú þýðir. Ekki persónukjör, heldur aukið persónukjör.

Af hverju stígur Samfylkingin ekki bara skrefið til fulls, býður liðið fram í stafrófsröð og eftirlætur kjósendum það algerlega að raða inn á þingið?

Svarið er auðvitað það að það myndi óhjákvæmilega og undantekningalaust riðla fléttulistunum góðu. Og til hvers væru þeir þá? Nema náttúrlega Samfylkingin ætli líka að setja það í lög að persónukjörið virki, en þó aðeins þannig að til skiptis komi kona og karl.

En af hverju að láta þar staðar numið? Reglubinda mætti að aldursdreifing á þingi skulii vera hin sama og meðal kjósenda, menntunarstigið sömuleiðis, að tíundi hver þingmaður skuli vera áfengissjúkur og svo framvegis. Tækist krötunum nú að búa til hina fullkomnu og faglegu reikniaðferð til þess að þingmenn endurspegluðu ólíka samsetningu þjóðarinnar, þyrfti sjálfsagt ekki einu sinni að kjósa. Það væri raunar helber tímasóun, því reglurnar yrðu ávallt vali kjósenda yfirsterkari. En mun „réttari“ að sögn helstu hugsuða Samfylkingarinnar.

Það kæmi hins vegar lýðræði ekki á nokkurn hátt við.

Ekki frekar en fléttulistarnir og hræsnin um „aukið persónukjör“. Þetta er ekki illa meint hjá þeim blessuðum, en alveg skelfilega grautarlegt og án þess að menn hugsi afleiðingarnar til enda. Eða bara einn, tvo leiki fram í tímann. Það er mannlegt að finnast að göfug markmið hljóti að helga aðferðirnar, en það er rangt (eins og þeir Kristur og Marx bentu báðir á). Það er mannlegt að skjátlast og að því leyti virðist manni minnihlutastjórnin vera ein sú manneskjulegasta um langa hríð.

Þessa dagana tala stjórnmálamenn í kapp um það að auka verði lýðræðið og undir það má taka, en það þýðir ekki að menn eigi að líta á gangverk lýðræðisins sem tilraunaverkefni. Eða hafa menn ekki nóg fengið af áhættusækni á annarra kostnað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband