Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jón forseti og Churchill

winstonogjon

Það er fyndin aðsend grein í Mogganum í dag. Eða meina ég hlægileg? Þar skrifar Samfylkingarmaðurinn Kjartan Emil Sigurðsson stuttlega um málflutning Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, í Evrópumálunum og þykir heldur fáfengilegt hjá honum að nefna til Jón Sigurðsson forseta í þeirri orðræðu. Þykir honum það ótækt að draga Jón inn í umræðuna, enda hafi hann verið 19. aldar maður og ekkert um Evrópusambandið vitað.

Verða orð manna einskis virði um leið og þeir deyja? Eða að einhverjum tilteknum árum liðnum? Ég er því öldungis ósammála og þykir ekkert að því að ráðfæra mig við Mill um frelsið, Jónas um fegurðina og Snorra um ótal hluti aðra, þar á meðal utanríkismál! Menn þurfa ekki að vera ýkja vel lesnir í Jóni forseta til þess að átta sig á því að hann hefur ýmislegt til málanna að leggja í Evrópuumræðunni. Og það er ekki heldur flókið að komast að þeirri niðurstöðu að hann hefði verið efins um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þarf raunar ekki að leita lengra en í fyrsta tölublað Nýrra félagsrita, þar sem Jón ritar Um Alþíng á Íslandi í víðu samhengi, til þess að fá álit hans á þessum efnum. Eða telja menn að einhverja sérstaka hugmyndauðgi þurfi til þess að komast á þá skoðun að sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson, óskabarn Íslands, sómi þess, sverð þess og skjöldur, hefði verið fremur efins um að framselja völd héðan af landi til erlends yfirvalds?!

Það er helber misskilningur ef menn halda að Jón forseti hafi aðeins verið sjálfstæðissinni á einhverju rómantísku og sentímental plani. Þvert á móti var þetta harðkjarna pólitísk afstaða hjá manninum, vel ígrunduð og grundvölluð á athugunum á stjórnvísi, sagnfræði, hagfræði og ótal fræðum fleirum. Hann var ekki lýðræðissinni, svona af því það var í tísku á kaffihúsunum í Höfn, heldur af sannfæringu. Það er ekki ofmælt að kalla hann frjálshyggjumann á 19. aldar vísu. Jón var ekki aðeins á því að Íslendingar ættu að vera sjálfstæðir frá Dönum, heldur öllum öðrum og þar á meðal sem mest sjálfstæðir hver gegn öðrum: frjálsir menn í frjálsu landi.

Þá spyrja Kjartan Emil og Evrópusinnarnir, hvernig megi snúa þeim skoðunum Jóns upp á Evrópusambandið, sem sé svo og svo frábært í öllu tilliti. Jón hafi enga hugmynd haft um slíka ríkisskipan og þar af leiðandi fráleitt að draga hann inn í þá umræðu. Þar fyrir utan vanti ekkert upp á frelsið í ESB, ekki geti Danir talist ófrjálsir í neinum skilningi og så videre. Látum vera í bili hvernig frelsinu vegnar í ESB og látum — umræðunnar vegna — sem það taki öllu öðru fram. En það var ekki það frelsi, sem Jón hafði áhyggjur af, borgararéttindi voru enda að mestu til fyrirmyndar í Danaveldi þá. En Jóni voru alls ekki ókunnugar hugmyndir um ríkjasambönd að fornu og nýju. Allt frá Babýlon til Rómar, frá Miklagarði til Aachen, hann var vel heima í því öllu sem dyggur andstæðingur nýlendustjórnar. Gleymum því ekki heldur að þegar Jón fæddist árið 1811 stóð Napóleon á hátindi frægðar sinnar og mönnum voru hreint ekki gleymdar hugmyndir þess fúla foringja um evrópskt ríkjasamband þegar Jón hélt til Hafnar að lesa mannkynssögu 1833. Enn frekar er þó vert að gefa því gaum að einmitt um þær mundir var skandínavisminn að láta á sér kræla meðal norrænna stúdenta, en Jón var síður en svo hallur undir þær hugmyndir (og skandínavistunum flestum lítt um Ísland). Nei, Íslandi dygði ekkert minna en sjálfstæði.

Hver vill mæla gegn því?

Þá er hins vegar ósvarað hinni augljósu spurningu, sem Evrópusinnarnir forðast að vonum eins og heitan eldinn: Væri innganga í Evrópusambandið eitthvað annað en uppgjöf og framsal á sjálfstæði Íslands?

Geymum okkur þá umræðu samt enn um sinn. Nóg gefast tækifærin til hennar, grunar mig. En það er þetta með Jón Sigurðsson, eiga hugmyndir hans eitthvert erindi við Evrópuumræðuna í dag? Svarið við því er tvímælalaust já. Að því tilskildu vitaskuld, að hugmyndir hans og saga eigi yfirleitt eitthvert erindi við okkur. Menn geta auðvitað sagt sem svo að Jón sé löngu dauður, hugmyndabarátta hans sömuleiðis. Hann hafi að vísu upplifað endurreisn Alþingis og stjórnarskrána 1874, en misst af heimastjórninni, fullveldinu og lýðveldinu. En ef það er svarið geta menn eins sagt að sagan öll sé einskis virði og við eigum að einblína á núið, dæmd til þess að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur. Ég hafna þeirri afstöðu.

Hugmyndir Jóns Sigurðssonar og sjálfstæðisbaráttan eiga erindi við okkur enn í dag og um ókomna tíð. Ástæðan er augljós: málið varðar fleiri en eina kynslóð manna. Mönnum væri hollt að minnast þess í Evrópuumræðunni nú, að það mál varðar fleiri en eina kynslóð. Vegna þess að það snýst um sjálfstæði þjóðarinnar og menn þekkja af biturri reynslu að það er hægara að ganga konungum á hönd en komast undan krumlu þeirra. Það á líka við um ESB. Þess vegna er með ólíkindum að heyra málsmetandi fólk tala um að breyta verði stjórnarskránni til þess að auðvelda inngöngu í ESB ef það yrði nú niðurstaðan (í sama mund og sama fólk muldrar eitthvað um að sjálft sé það auðvitað andsnúið inngöngu). Stjórnarskráin á einmitt að torvelda slíkt, hún er sá rammi sem önnur lög og skammæjari verða að fylgja, hún segir til um grundvallarskipan ríkisins og heldur við réttindum borgaranna gagnvart því. Við hana á ekki að fikta til þess að gera hlutina auðveldari, þvert á móti.

Í því samhengi blasir við að skoðanir manna — þó settar hafi verið fram í fyrndinni — geta átt við enn á vorum dögum. Hugmyndir Einars Þveræings þykja mér t.d. fullboðlegar í Evrópuumræðuna núna og eiga raunar brýnt erindi. Í ræðu sinni á Alþingi vegna óskar Ólafs konungs Haraldssonar um að fá Grímsey að gjöf benti Einar (eða Snorri Sturluson sem færði hana í letur) þingheimi á að skattar væru mun hærri í Noregi en hérlendis og að kóngar væru misjafnir, sumir jafnvel til hinna mestu vandræða. Loks hefur Snorri eftir Einari:

En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjaldahéðan ákveðnar skuldir, þær er til lýðskyldu mega metast.

Blandast einhverjum hugur um afstöðu Einars og/eða Snorra til ESB? Og var Snorri þó með alþjóðasinnuðustu mönnum! Rök þeirra, sem þá og síðar töldu nánara samband við Noreg nauðsynlegt, eru nákvæmlega hin sömu og ötulustu Evrópusinnana nú. Þau rök eru fullkomlega tæk til umræðu og menn eiga ekki að veigra sér við hana. En þá eiga menn einnig að viðurkenna kinnroðalaust, að deilan stendur fyrst og fremst um sjálfstæði Íslands.

Í Íslandssögunni eru tvö skeið sjálfstæðis og eitt skeið erlends yfirvalds. Fyrra sjálfstæðisskeiðið stóð í 388 ár, en hið síðara hefur staðið í 104 ár (ef við miðum við heimastjórnina). Samtals 492 ár. Þar á milli liðu 642 ár. Svo geta menn velt því fyrir sér hvernig Íslendingum vegnaði misvel á þessum skeiðum. Og það er ekkert að því að þiggja ráð frá löndum okkar á öðrum tímum en hér og nú. Ella getum við allt eins efnt til eigin bókabruna, kollvarpað styttunni af Jóni Sigurðssyni og látið okkur nægja að lesa Mannlíf mánaðarins og tigna gulllíkneski af Gillzenegger dagsins á Austurvelli.

En aftur að grein Kjartans Emils. Hann víkur að einni helstu hetju vestrænnar siðmenningar:

Á Bretlandi var uppi maður á 19. og 20. öld sem hét Winston Churchill. En umræddur Jón var jú 19. aldarmaður. Það er skemmst frá því að segja að það má líta svo á hin ýmsu ummæli Churchills og segja hann hlynntan og andvígan þátttöku Bretlands í núverandi Evrópusambandi. Það hefur orðið niðurstaða manna þar í landi að ekki sé hægt með nokkru móti að ráða beinlínis í það hvorum megin hryggjar Churchill lendir í slíkri Evrópuumræðu. Það jafnvel þó Churchill hafi með beinum hætti haft afskipti af og tekið afstöðu sem laut að samskiptum Evrópuríkja sín í milli.

Ég er ekki viss um hvað Kjartan Emil er að fara í síðustu setningunni. Kannski hann sé í gamansemi að vísa til Seinni heimstyrjaldarinnar, þar sem Churchill hafði „með beinum hætti [...] afskipti af og [tók] afstöðu sem laut að samskiptum Evrópuríkja sín í milli.“ Vægast sagt.

En hvern þremilinn á Kjartan Emil við þegar hann heldur því fram að Bretar hafi komist að einhverri niðurstöðu um að Churchill megi ekki setja öðru hvor megin hryggjar í Evrópumálunum? Churchill var forsætisráðherra þegar hann afþakkaði gott boð til Breta um að gerast eitt af stofnríkjum Kola- og stálbandalagsins árið 1951, sem var forveri Efnahagsbandalags Evrópu og síðar þróaðist í Evrópusambandið eins og við þekkjum það. Hann hafði heilmikið til þeirra mála að leggja og talaði enga tæpitungu fremur en endranær. Þegar umræðan hófst um inngöngu Breta í það (sem de Gaulle lagðist svo gegn) tók Churchill þátt í henni, þó hann væri þá hættur í pólitík. Churchill var mjög hlynntur Evrópusamrunanum, sem hann taldi bestu leiðina til þess að sætta forna fjendur á meginlandinu, en áhugi hans á veru Breta í sameinaðri Evrópu var enginn. Allra síst ef markmiðið væri Bandaríki Evrópu. Það þarf því ekkert að túlka Churchill fram eða til baka, hann tók einfaldlega afstöðu og það ekki með neinni leynd. Hans gömlu orð standa:

We have our own dream and our own task. We are with Europe, but not of it. We are linked but not combined. We are interested and associated but not absorbed.

Það má taka undir þau sjónarmið nú þó Churchill hafi dáið árið 1965.


Hrein bilun

moska 

Það er auðvitað hrein bilun að vekja fólk upp að svefni hinna réttlátu með bænakalli kl. fimm um morgun. Þórarinn Ingi Jónsson, hinn frumlegi listnemi og sprengjusérfræðingur Listaháskóla Íslands (LHÍ), sem stendur fyrir ósköpunum segir „að bilun í hugbúnaði hljóti að hafa valdið því að upptaka af bænakalli múslima fór að hljóma klukkan fimm í nótt.“ Er það nú víst? Samkvæmt sið múhameðstrúarmanna ber að ganga til bæna fimm sinnum á dag, í fyrsta sinn við dögun. Sólarupprás í Reykjavík í morgun var kl. 4.51, svo máske var hugbúnaðurinn einmitt að virka fullkomlega.

Að sögn listnemans var tilgangurinn með tiltækinu að „koma með mótvægi við neikvæða umræðu um íslam í hinum vestræna heimi.“ Mikið gekk það nú vel!

Fram kom í frétt um málið að Þórarinn hafi stundað nám við LHÍ í um tveggja mánaða skeið, þannig að tæpast telst hann nú fullnuma. Það vekur hins vegar spurningar um hvers vegna skólayfirvöld í LHÍ tóku hugmyndinni svo opnum örmum, ekki síst í ljósi þess að hún er fráleitt frumleg. Ég held að það hafi verið sumarið 2002, sem bænaköll múslima ómuðu reglulega yfir miðbæ Reykjavíkur frá Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu. Þar var þá sýning um menningu araba og ekki af miklu að taka í myndlistinni eins og gefur að skilja. Mér er það í fersku minni, enda vann ég í Hafnarhúsinu þá. Bænaköllunum var vægast sagt misvel tekið, en það sem mér þótti einna merkilegast var að arabískur starfsmaður fyrirtækisins var hreint ekki ánægður með uppátækið og þótti móðgun og nánast guðlast að dæla út bænaköllum í auglýsingaskyni eða „listrænum tilgangi“.

Hitt er svo annað mál, að þarna er máske ein skýringin á því hversu illa borgaryfirvöldum hefur gengið að verða við óskum safnaðar múslima um lóð undir mosku hér í höfuðstaðnum. Morgunsvæfum mörlandanum þykir alveg meira en nóg að þurfa að þola kirkjuhringingar um ellefuleytið einu sinni í viku. 


mbl.is Bilun í hugbúnaði kveikti á bænakalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland er ekki Nýfundnaland

Hér á árum áður minntust Íslendingar stundum á örlög Nýfundnalands, en löndunum svipaði á margan hátt saman. Afskekkt fiskimannaþjóðfélög, sem fóru að losna úr viðjum nýlendustjórnar um svipað leyti, fólksfjöldi og landrými í svipuðum stærðarflokki. Fyrst og fremst minntust Íslendingar þó þess að Nýfundnalandsmenn gáfu fullveldi sitt upp á bátinn eftir verulegar efnahagsþrengingar (löngu áður en miðin þar voru þurrausin), en ríkið var einfaldlega á leiðinni í gjaldþrot þegar Bretar tóku það aftur að sér, en síðar varð það hluti Kanada.

Það sem ég vissi ekki, var að Nýfundnalandsmenn munu líka stunda þessa íþrótt, að bera sig saman við Íslendinga. Bendi á litla grein af þeim toga, meira til gamans en gagns.


Skinhelgi Svandísar

Hneykslan Svandísar Svavarsdóttur vegna málefna REI er stórmerkileg. Sérstaklega ef hún er borin saman við orðræðu hennar um REI fyrir og eftir meirihlutaslitin í haust.

Meðan Svandís var í minnihluta átti hún varla til nógu sterk orð til þess að lýsa ástandinu, sem hún sagði brýnt að bæta úr með afgerandi aðgerðum, ekki seinna en strax. Daginn eftir að hún komst í meirihluta var hins vegar mikilvægast að „róa umræðuna“ og síðan var bara haldið áfram í rólegheitum á þeirri braut, sem hún hafði ákafast varað við. Og þrátt fyrir hina gagnmerku skýrslu stýrihópsins (sem flestir verða mærðarlegir í framan við það eitt að nefna nú, en flestir játuðu á sínum tíma að væri óttalegur bastrður) fyrirhugaði Svandís & co. að dæla nokkrum milljörðum til viðbótar úr OR í REI. Hún minnist aldrei á það.

En nú er Svandís full heilagrar reiði á ný og lætur dæluna ganga. Sú skinhelgi er farin að minna á leikræna tilburði Steingríms J. Sigfússonar, sem margir hrífast að öðru hverju. En þeir geta fæstir hugsað sér að kjósa hann þegar til kastanna kemur. Mér sýnist Svandís vera að festast í sömu rullu.

— — —

Maður skilur hins vegar ekki af hverju henni sárnar svona núna. Eru hugmyndir um að njörva niður hlutverk REI og stöðva frekari áhættufjárfestingu virkilega henni á móti skapi? Hafa þá fleiri snúist í afstöðu sinni en Svandís kemur auga á. 

Þarna er kannski fundinn helsti Akkilesarhæll Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs: Hún veit upp á hár hverju hún er á móti (nánast öllu), en á afar erfitt með að finna nokkurn skapaðan hlut, sem hún er með. Það skýrir sjálfsagt líka hversu erfiðlega henni hefur gengið að komast í meirihluta- eða stjórnarsamstarf. 


mbl.is Ekki boðlegt borgarbúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræsni Fréttablaðsins

bladberinn

Fréttablaðið lætur mikið með 30.000 poka, sem það dreifir ókeypis á næstunni, en þeir eru sagðir sérstakar endurvinnslutöskur fyrir dagblöð. Með þessu vilja „aðstandendur Fréttablaðsins efla vitund um umhverfisvernd og nýtingu verðmæta“, en haft er eftir Jóni Kaldal, ritstjóra blaðsins, klökkum yfir eigin gæsku, að það sé „nánast skylda þeirra sem standa að útgáfu Fréttablaðsins að vera í fararbroddi þeirra sem hvetja til þess að dagblöð rati í endurvinnslu í stað þess að vera hent með öðru heimilissorpi.“

Er það já? Nú þegar hefur meirihluti landsmanna verulegt ómak af dreifingu fríblaða og ruslinu, sem þeim fylgja. En það er ekki nóg fyrir þessa herra, heldur vilja þeir auka ómakið af sínum völdum enn frekar, þannig að við berum draslið út í endurvinnslu fyrir þá. Framtak Fréttablaðsins má þó ekki síður rekja til umhyggju aðstandenda þess fyrir heilsu fórnarlambanna:

Göngutúrar með blaðberann, endurvinnslupoka Fréttablaðsins, geta bæði verið örstuttir í blaðatunnuna heima, eða lengri til heilsubótar í næsta grenndargám.

Já, þakka ykkur fyrir! Ég hef áður skrifað um blaðatunnuna en með henni býðst borgurum Reykjavíkur að borga 7.400 krónur á ári fyrir að sérflokka blöð. Er máske ekki vanþörf á, því eftir sem Fréttablaðið og Blaðið hafa aukið útbreiðslu sína hefur blaðasorpið margfaldast. Í fyrra var sagt að 30% af því sorpi sem fer í ruslatunnur heimila í Reykjavík séu dagblöð, tímarit og annar prentaður pappír. Borgarbúar henda þeim flestir með öðru sorpi og er blaðaruslið um þriðjungi umfangsmeira í heimilishaugnum en matarleifar. Pappírsmagnið, sem hent er af heimilum, jókst um 76% frá 2003-2007.

Það er óþolandi að eitthvert lið úti í bæ geti bakað samborgurum sínum ómak og kostnað með því að senda þeim drasl óumbeðið. Nær væri að leggja sérstakt sorpgjald á útgáfurnar og einfalt mál að mæla hvað hverjum ber að gjalda fyrir, því fríblöðin keppast við að miklast af útblásnum upplagstölum. Það er þá rétt að miða við þær og láta útgáfurnar borga allan sorphirðukostnað, sem hlýst af afurðum þeirra.

En það er einmitt málið á bak við sorppoka Fréttablaðsins: Þetta er aumkunarverð tilraun til þess að komast hjá því að borga gjald af því taginu og hælast af því um leið hvað þeim sé umhugað um umhverfið. Á annara kostnað. Hvílík hræsni!


Brúðkaup og geitkaup

„Komdu, gæskan!“

Þessi frétt vakti örlitla umræðu við morgunverðarborðið á hamingjuheimilinu. En segir það ekki sína sögu að eftir lestur fréttarinnar vitum við meira um geitina og kosti hennar en eiginkonuna?


mbl.is Eiginkonuna fyrir geit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úti er alltaf að snjóa...

The Iceman Cometh

Eitt ágætasta (og angurværasta) lag Prince heitir Sometimes it Snows in April og það má finna hér í lagalistanum til hægri. Mér datt það í hug þar sem ég horfi út um gluggann og sé snjónum kyngja niður. Og ég sem hélt eitt augnablik í dag að vorið væri komið!

Hvernig stendur á þessu? Og svo mundi ég að Al Gore hefði stigið fæti sínum á landið. Við erum aðeins nýjustu fórnarlömb Al Gore áhrifanna. Hvarvetna sem hann kemur og opnar munninn virðast náttúruöflin eða almættið keppast við að afsanna tilgátur hans og málflutning.

— — —

Fyrirsögnin hér að ofan er hins vegar fengin úr smiðju þeirra frjóu bræða Jóns Múla og Jónasar Árnasona, en þannig hljóðar upphaf söngs jólasveinanna í söngleiknum Deleríum Búbónis. Eitt erindið gæti verið ort til Gore:

Heill sé þér, stjórngarpur slyngi!
Já, hver er betri í faginu
hjá Frelsisbandalaginu?
Þú átt að vera á þingi
með sjálfum kjaftaskjóðunum
hjá Sameinuðu þjóðunum.
Ég held varl' að langtími líði
áður en á hankanum
í Alþjóðlega bankanum
hangi þinn hattur með prýði.
Húrra fyrir mér og þér!

— — —

Annars lenti einn vinur minn í því að aka í sakleysi sínu eftir Sæbrautinni þegar bílalest lögreglubíla, blendingslímósínu forseta og annars fylgdarliðs renndi upp að hliðinni á honum og silaðist svo fram úr honum. Hann leit til hliðar og sá hvar forsetinn var að útskýra eitthvað fyrir varaforsetanum fyrrverandi og var mikið niðri fyrir, með fingur á lofti. Gaman væri að vita hvað þeim spekingunum fór á milli. Og hvað Gore hugsaði:

„Af hverju var ég ekki kosinn forseti? Hvað væri ég þá að gera núna? Af hverju var hann kosinn forseti?“


Freiheit und Frieden durch Kraft

Kraftur

.pdf

Ég er ekki viss, en ég er ekki frá því að ámóta slagorð hafi heyrst á vitlausum áratugi í Þýskalandi á síðustu öld. En þetta á sumsé að vera inntak hinnar nýju og endurbættu ímyndar Íslands ef farið verður að ráðleggingum ímyndarnefndar forsætisráðherra.

Nefndin skilaði yfirgripsmikilli skýrslu um viðfangsefni sitt eftir hálfs árs umhugsun. Í nefndinni sátu þau Svafa Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík og formaður nefndarinnar, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, Jón Karl Ólafsson, forstjóri JetX/Primera Air, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og Sverrir Björnsson, framkvæmdastjóri hönnunarsviðs Hvíta hússins. Allt hið mætasta fólk og skýrslan ber það með sér að það sló ekki slöku við að inna starf sitt af hendi.

Á hinn bóginn verður seint sagt að niðurstöðurnar séu frumlegar. Eða sérstaklega líklegar til þess að skila tilætluðum árangri.

Þvaðrið um kraft, frelsi og frið segir eiginlega allt sem segja þarf.

Nefndin leggur til að ímyndaruppbygging Íslands miði að því að skapa jákvæða og sterka ímynd af fólki, atvinnulífi, menningu sem og náttúru. [...] Nefndin leggur til að kjarninn í ímynd Íslands sé kraftur, frelsi og friður.

Með hvaða hætti á það að aðgreina Ísland frá flestum öðrum löndum hins siðmenntaða heims? Eða bæta einhverju við þá óljósu hugmynd, sem útlendingar hafa um þetta sker við Grænlandsstrendur? Til þess að undirstrika þessa loðnu óra er birt „skýringarmynd“ í skýrslunni, sem ég sver og sárt við legg að er ekki grín af minni hálfu:

Órar

Ekki skánar ástandið þegar farið er að ræða hvernig boða eigi fagnaðarerindið. Af skýrslunni verður vart annað ráðið en að nánast sé búið að stofna sérstaka ríkisstofnun til þess að sinna þeim verkefnum, en hún skal heita Promote Iceland.

[...] þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu, fjármálastarfsemi, menningarlífi og þekkingariðnaði kæmu til samstarfs við hið opinbera. Með þessu móti yrði mun auðveldara að móta og styrkja ímynd sem byggði á samhæfðum skilaboðum og sameiginlegu merki og sem tengdi saman kynningarþáttinn í starfsemi stofnana eins og Útflutningsráðs, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu að ógleymdri utanríkisþjónustunni sem einnig gegnir afar mikilvægu kynningarhlutverki. Einnig lægi beint við að tengja inn í slíkan vettvang kynningarþátt verkefna eins og Film in Iceland, Útflutningsskrifstofu tónlistarinnar, Kynningarmiðstöð myndlistarinnar o.fl. Brýnt er að verkefni, hlutverk og ábyrgð þess vettvangs yrðu mjög vel skilgreind.

Promote Iceland þarf að hafa fasta starfsmenn sem lúta stjórn sem skipuð er fulltrúum stjórnvalda og þeirra málaflokka sem Promote Iceland kæmi til með að starfa hvað mest fyrir. Hlutverk Promote Iceland er að bera ábyrgð á og samræma ímyndarstarf fyrir Íslands hönd. Í því felast m.a. eftirfarandi verkefni:

  • Fylgjast með ímynd Íslands og þróun hennar.
  • Miðla upplýsingum til uppbyggingar á sterkri og jákvæðri ímynd Íslands.
  • Samræma aðgerðir sem snerta ímyndarmál Íslands.
  • Bregðast við neikvæðri umfjöllun sem snertir íslenska hagsmuni (e. crisis management).
  • Veita opinberum aðilum og atvinnulífi þjónustu við framkvæmd ímyndar- og kynningarverkefna tengdum Íslandi.

Það verður gaman að sjá hvernig hinni nýju ríkisstofnun mun ganga við að laga það, sem Útflutningsráði, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu, að ógleymdri utanríkisþjónustunni hefur mistekist að halda til haga á umliðnum árum (ella væri þessa ímyndarátaks ekki þörf eða hvað?). Vitaskuld í samstarfi við Útflutningsráð, Fjárfestingarstofu og Ferðamálastofu, að ógleymdri utanríkisþjónustunni.

Það er þó ekki fyrst og fremst við nefndarmenn að sakast í þessum efnum, þeir gerðu eins vel og þeir kunnu og gátu. Mistökin liggja hjá verkkaupanum. Þegar ætlunin er að sigra heiminn er ekki ráðlegt að reiða sig á lókal talent, jafnágætur og hann kann að vera. Tala nú ekki um þegar aðsteðjandi ímyndarvandi er jafnbrýnn og raun ber vitni.

Hér á landi er enginn, sem kann til verka á þessu sviði. Svo einfalt er það. En jafnvel þó svo væri hygg ég að það væri varhugavert að fá hann til þessa starfa. Rétt eins og ímyndarnefndarmennirnir stæði hann of nálægt viðfangsefninu. Við Íslendingar höfum margvíslegar hugmyndir um land og þjóð, eflaust góðar hver fyrir sinn hatt, en þær henta tæpast til útflutnings.  Þegar um er að ræða jafnviðamikið og óhlutbundið verkefni og ímyndarvanda alheimsins um Ísland veldur íslenskt þjóðerni umsvifalausu vanhæfi.

Þeim mun einkennilegra er að lesa af skýrslunni að lagst hefur verið í mikla rýnihópavinnu um ímynd Íslands, bæði til þess að greina vandann og finna lausnir. Capacent ræddi við fimm rýnihópa og sjálf skipulagði nefndin eigin rýnihópa, þannig að rætt var við á annað hundrað manns. Tveir rýnihópar Capacent voru mannaðir á höfuðborgarsvæðinu, tveir á Akureyri og einn á Ísafirði! Rýnihópar nefndarinnar voru allir héðan úr höfuðstaðnum (aðallega hagsmunaaðilar og þeir sem hafa sinnt landkynningu með þessum líka árangri til þessa), nema einn... en það voru viðskiptafulltrúar utanríkisþjónustunnar. Síðastnefndi hópurinn hefur sjálfsagt nokkuð fram að færa, en hinir? Maður hristir bara höfuðið. Niðurstöðurnar voru enda fullkomlega fyrirsjáanlegar flatneskjur, sem enginn veit hvort er í nokkru samhengi við ímynd Íslands í hugum útlendinga. Eða voru þeir kannski aldrei markhópurinn?

Úti í hinum stóra heimi eru til alþjóðleg fyrirtæki, sem sérhæfa sig í verkefnum af þessu tagi. Greina ástandið og markmið viðskiptavinarins, gera tillögur um úrbætur og hrinda þeim í framkvæmd, einatt með misjöfnum áherslum eftir löndum og heimshlutum. Þau sinna bæði auglýsingagerð og almannatengslum, finna talsmenn ef þörf er á og sum hafa jafnvel hálfopinbera erindreka (lobbýista) á sínum snærum ef þörf krefur. Dæmi um slík fyrirtæki eru Weber Shandwick, Ogilvy, Fleishman-Hillard, Burson-Marsteller, Hill & Knowlton og Huntsworth. Það kostar skildinginn að nota þjónustu fyrirtækja þessara, en þau kunna sitt fag og hafa sum náð að bæta málstað jafnvel ömurlegustu einræðisríkja. Ætli þau hefðu ekki eitthvað betra til málanna að leggja en ímyndarnefndin góða? Fyrir lítið, meinlaust og gott land eins og Ísland?

En nei, kraftur, frelsi og friður skal það vera. Power, Freedom & Peace! Hljómar eins og eitthvað frá Woodstock. ’68-kynslóðin er greinilega komin til valda.

Woodstock


Er allt að fara til fjandans?

Fé græðist, fé eyðist.

Fyrir rétt tæpu ári þótti mér enginn hafa verið jafntímanlegur og Rannsóknarstofnun um samfélags- og efnahagsmál (RSE) þegar hún gaf út safnritið Þjóðareign um þýðingu og áhrif stjórnarskrárákvæðis um þjóðareign á auðlindum sjávar. Ritið hafði verið nokkurn tíma í smíðum, en kom út einmitt í sama mund og framsóknarmenn sprengdu eina misheppnuðustu kosningabombu íslenskrar stjórnmálasögu, þegar þeir þóttust myndu slíta stjórnarsamstarfinu ef stjórnarskránni yrði ekki breytt í einum grænum. Eftirleikinn þekkja allir.

Mér sýnist Viðskiptablaðið vera við það að slá þetta met, því í fyrramálið kl. 8.00 hefst morgunfundur á Kjarvalsstöðum þar sem leitast verður við að svara þessari spurningu: Er allt að fara til fjandans?

Miðað við ástandið á mörkuðum í dag segir mér svo hugur að mætingin í fyrramálið verði betri en nokkur þorði að vona, þó tilefnið sé að sönnu áhyggjuefni.

Á fundinum verður fjallað verður um íslenskt efnahagslíf út frá forsendum meginstoða atvinnulífsins sem og í þjóðhagslegu samhengi. Horft verður til erlendrar umræðu um íslensk efnahagsmál, fjallað um af hvaða rótum hún kunni að vera sprottin, hvaða hagsmunum hún þjóni og hver áhrif hennar geti orðið. Frummælendur eru þeir Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, sem fjalla mun um alþjóðlega umræðu um íslensk efnahags- og atvinnumál; Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, mun ræða stöðu sjávarútvegsins; Stefán Pétursson, forstjóri HydroKraft Invest, ræðir um  orkufrekan iðnað; Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, talar um framtíð íslenska fjármálageirans; og loks fjallar dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, um meginstrauma efnahagslífsins og hvert beri að horfa.

Aðgangur er öllum opinn, en það þarf að skrá sig og er víst hver að verða síðastur til þess. Það geta menn gert með því að smella hér!

 


mbl.is Krónan lækkaði um 6,97%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland á móti lýðræðinu

 

Kínverska fréttastofan Xinhua er ekki ávallt sú áreiðanlegasta, þannig að ekki er öruggt að það sé rétt eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, haft, að Íslendingar geti ekki stutt þjóðaratkvæðagreiðslu Taívana um aðildarumsókn að Sameinuðu þjóðunum, að áformuð þjóðaratkvæðagreiðsla sé mistök og að Íslendingar styðji stefnuna um „eitt Kína“ heilshugar. En það er ekkert ósennilegt að þetta sé rétt hermt hjá Xinhua.

Að því gefnu að svo sé held ég hins vegar að þar sé ráðherrann á villigötum. Má það vera að Lýðveldið Ísland sé á móti þjóðaratkvæðagreiðslum í öðrum löndum? Alveg burtséð frá efni atkvæðagreiðslunnar eða afleiðingum niðurstöðu hennar, sem Ísland getur vel haft skoðanir á, hlýtur það að ganga gegn öllum hugmyndum Íslendinga um erindi sitt í alþjóðasamfélaginu og lýðræðishugsjóninni sjálfri, að leggjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum.

Málefni Taívans og Kína eru að sönnu flókin og af einhverjum ástæðum hafa íslenskir ráðamenn kosið að binda trúss sitt við alræðisstjórnina í Peking fremur en lýðræðisstjórnina í Taípei. Þessi mikla áhersla á tengsl Íslands við einræðisríkið hafa aldrei verið rædd eða skýrð með fullnægjandi hætti. Vonandi rennur sá dagur upp innan tíðar.

Hitt vekur hins vegar furðu, að utanríkisráðherra Íslands leggi lykkju á leið sína til þess að ítreka stefnuna um „eitt Kína“ í sama mund og blóðið flýtur á götum Lhasa, hinnar fornu höfuðborgar Tíbets. Hvernig ber að skilja þá yfirlýsingu ráðherrans?

Kínversk stjórnvöld hafa gefið mótmælendum í Tíbet frest til mánudags til þess að gefast upp og gefa sig fram. Eftir það verður alþýðuherinn láta koma á sínum himneska friði líkt og 1989. Ef það verður gert með sams konar blóðbaði og fjöldahandtökum er erfitt að sjá hvernig íslensk stjórnvöld geta mótmælt því eftir að hafa svo nýverið ítrekað stuðning sinn við „eitt Kína“. Sá er líka munurinn nú og 1989 — og það á við um flest Vesturlönd — að viðskipta- og efnahagstengsl við Rauða-Kína hafa margfaldast síðan. Í viðtalinu við Xinhua lýsti Ingibjörg Sólrún enda  „yfir ánægju með þróun samskipta landanna tveggja og sagði að miklir möguleikar fælust í frekari samvinnu Íslands og Kína.“ Þeir hagsmunir einir og sér kunna að verða þess valdandi að lýðveldið Ísland þegi þunnu hljóði ef til frekari ódæða kemur í Lhasa.

En Ingibjörg Sólrún og ríkisstjórnin öll má vita að hún talar og þegir ekki í nafni Íslendinga. Það þarf enga þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að leiða það í ljós.


mbl.is Íslendingar styðja ekki SÞ-umsókn Taívan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
blaðamaður á Englandi ritar hér fréttir, fróðleik og hugleiðingar, sem ekki rata á prent.
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband